Ísland er ekki ríkt af hráefnum
og er mjög háð viðskiptum við önnur
lönd. Íslendingar þurfa að geta selt fisk
og iðnaðarvörur til annarra landa og í staðinn
geta keypt neysluvörur og hráefni á sem hagstæðustu
verði. Þau hugtök sem koma oftast fyrir þegar
rætt er um utanríkisviðskipti er verndarstefna
eða fríverslun. Verndarstefna þýðir
að ríkið beitir ýmsum aðferðum til
að vernda innlenda framleiðslu gegn innflutningi erlendis
frá. Fríverslun þýðir hins
vegar að lögð er áhersla á frelsi í
viðskiptum milli landa.
Eitt af helstu einkennum verslunar og viðskipta
í heiminum er að um þrír-fjórðu
hlutar hennar eiga sér stað á milli iðnaðarlandanna,
sem eru ríkustu lönd heims. Mesta gróskan í
alþjóðaviðskiptum fer fram innan og á
milli þriggja meginsvæða: Norður-Ameríku,
Evrópusambandsins og Japan. Þessa stundina er vöxturinn
í alþjóðaviðskiptum örastur í
Austurlöndum fjær. Vel er mögulegt að Asía,
með Kína og Japan sem mikilvægustu löndin,
verði mikilvægasta efnahagssvæði veraldar síðar
á þessari öld.
Nú á dögum á sér
stað beinhörð samkeppni milli viðskiptalífsins
í ólíkum löndum. Stefna ríkisstjórna,
sem reyna að sporna gegn erlendum vörum og þjónustu
innan landamæra sinna, kallast hafta- og verndarstefna. Stefnan
felst í að ríkið leggur tolla á innfluttar
vörur eða setur lög til að verja og vernda innlenda
framleiðslu á kostnað þeirrar erlendu. Markmið
stefnunnar er að auka innlenda framleiðslu og um leið
að gera landið eins óháð innflutningi
og frekast er kostur. Aðdáendur verndarstefnunnar vonast
með þessu að geta stutt við innlent atvinnulíf
og komið í veg fyrir atvinnuleysi, þó svo
að aðgerðirnar skili yfirleitt hærra vöruverði
til neytenda.
Andstæða verndarstefnunnar kallast
fríverslun og felur í sér að fjármagn,
vörur og þjónusta eiga greiða leið yfir
landamæri. Fríverslun og fríverslunarsamningar
hafa orðið sífellt meira áberandi í
viðskiptum landa á milli.
Íslendingar bjuggu við lítið
verslunarfrelsi fram eftir öldum. Danskri einokunarverslun
var komið á hér á landi í upphafi
17. aldar og ekki afnumin að fullu fyrr en árið 1885.
Í upphafi 20 aldar lögðu Íslendingar mikla
áherslu á að færa verslunina í eigin
hendur og ýmis íslensk verslunarfyrirtæki risu
upp. Íslendingar fylgdu fríverslunarstefnu í
meginatriðum á þessum tíma fram að heimskreppunni
miklu.
Eins og áður
hefur verið minnst á naut fríverslun stöðugt
meira fylgis í heiminum eftir síðari heimsstyrjöldina.
Allt frá árinu 1947 hafa átt sér stað
viðræður um fríverslun og sameiginlegar viðskiptareglur
innan alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar.
Viðræðurnar hafa skilað verulegum árangri,
til dæmis hafa tollar á iðnaðarvarningi milli
iðnlandanna lækkað úr 40% og niður í
um 5%, en enn eru mörg vandamál óleyst. Mörg
þróunarlanda (fátækustu ríki veraldar)
eru mjög óánægð með að mörg
iðnvædd samfélög hafa sett upp alls kyns hindranir
til að koma í veg fyrir innflutning á landbúnaðar-
og vefnaðarvörum. Til dæmis hafa mörg iðnvædd
ríki bannað innflutning frá löndum sem ekki
hafa skýrar reglur um mengunarvarnir eða barnavinnu.
Ýmis iðnríki eru einnig ósátt
við að önnur iðnríki skuli vinna bæði
leynt og ljóst gegn útflutningsvörum þeirra.
Fjöldi ríkja verndar eigin fyrirtæki með því
að setja lög og reglugerðir um ákveðna gæðastaðla
og með því að nota mjög þungvinnt
opinbert eftirlitskerfi, sem óhjákvæmilega hindrar
frjálst flæði af vörum og þjónustu
milli landa. Til dæmis ákvað eitt evrópskt
ríki að öll sjónvarpstæki frá
öðru landi yrðu að fara í gegnum ákveðna
tollskoðun áður en þeim yrði hleypt inn
í landið. Samkvæmt reglugerð gat tollskoðunin
aðeins farið fram í einni landamærastöð,
sem var mjög fáliðuð. Afleiðingin varð
að starfsfólk tollstöðvarinnar náði
ekki að afgreiða nema örfá sjónvarpstæki
á dag. Eins er til í dæminu að ríki
veiti eigin útflutningsfyrirtækjum mikla ríkisstyrki.
Á þann hátt niðurgreiðir ríkið
vörurnar, sem þýðir að fyrirtæki
annars staðar í heiminum sem ekki njóta neinna
styrkja, eiga mjög erfitt að keppa við niðurgreiddu
vörurnar.
|