Þegar Ingibjörg var að fara út
í gærdag hitti hún Margréti og Sigríði
í stigaganginum, en þær voru að velta fyrir
sér hvort Ísland væri ungt eða gamalt
land. Sigríður hélt því fram
að íslenska þjóðin og ríkið
hefðu myndast seint. Þar sem Ingibjörgu fannst umræðan
áhugaverð bar hún spurninguna undir Davíð
bróður sinn seinna um kvöldið. Er Ísland
ungt eða gamalt? Spurningin er það flókin að
Davíð vefst tunga um tönn. Hann reynir að rifja
upp hvað kennararnir höfðu nú verið að
segja bekknum í fyrra - eða var það í
hitt eð fyrra? Hann sækir gamlar glósur úr
tímunum, en þar stendur meðal annars:
Af Landnámabók hefur verið
dregin sú ályktun að Ísland hafi byggst
upp úr 874 og að landið hafi verið alnumið
um 930, og þá hafi verið á milli 10-20.000
manns hér. Fræðimenn greinir þó á
um þá tölu. Árið 930 (þjóðveldisöld,
nær frá 930 -1264) stofnuðu landnámsmennirnir
allsherjarþing Íslendinga, sem þeir kölluðu
Alþingi á Þingvöllum og þar með
var búið að mynda heilstætt ríki.
Sigurður Snævarr.
Haglýsing Íslands. Reykjavík, Heimskringla,
1993:9
Eftir lesturinn er Davíð ekki í
nokkrum vafa um að þjóðin sé gömul.
Ingibjörg er ekki sannfærð og finnst Davíð
draga alltof fljótfærnislegar niðurstöður.
Hún bendir Davíð á að Íslendingar
hafi glatað sjálfstæði sínu snemma.
Árið 1264 (til 1383) varð landið norsk nýlenda
og síðar að danskri nýlendu. Í mörg
hundruð ár var landið nýlenda og það
var ekki fyrr en árið 1944 sem Íslendingar rufu
öll tengsl við danska ríkið og stofnuðu
lýðveldið Ísland. Íslenska ríkið
er því ekki nema rúmlega fimmtíu ára
gamalt. Í öðrum löndum var að finna ríkar
stórborgi, listamenn, heimspekinga, rithöfunda og tónlistamenn,
en það var fátt um slíkt hér á
landi. Í mörg hundruð ár var Reykjavík
lítið annað en smáþorp og lengst af
hálf dönsk. Aldrei þessu vant verður Davíð
fátt um svör.
Í Reykjavík
voru á ofanverðri 19. öld jafn mörg hús
og í öllum öðrum kaupstöðum landsins
til samans. Samt var höfuðstaðurinn smábær,
þar sem kýr lölluðu kvölds og morgna
um helstu götur, hestar hímdu við húshorn,
hænur spígsporuðu í görðum og mykjuhaugar
voru hvarvetna áberandi. Frumstæðar samgöngur
ollu því að ekki var hægt að flytja mjólk
og aðrar mjólkurafurðir með góðu móti
til bæjarins og urðu kaupmenn, embættismenn og efnaðir
iðnaðarmenn að stunda búskap til að hafa
þessar vörur, en aðrir urðu að vera án
þeirra.
Guðjón Friðriksson.
Saga Reykjavíkur: Bærinn vaknar 1870-1940. Reykjavík,
Iðunn, 1991:43
|