Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  EFTA
 

Árið 1960 stofnuðu nokkur Vestur-Evrópuríki, sem höfðu efasemdir um Evrópusambandið, fríverslunarsamtökin EFTA. Stofnlöndin voru Bretland, Sviss, Austurríki, Portúgal, Svíþjóð, Danmörk og Noregur. Síðar bættust Ísland (1970) og Finnland við í samtökin. EFTA löndin samþykktu að fella niður tolla á iðnaðarvarningi sín á milli, en héldu fisk- og landbúnaðarvörum fyrir utan samkomulagið. Ólíkt Evrópusambandinu hafði EFTA enga samræmda tollastefnu gagnvart öðrum löndum og var því ekki tollabandalag. Eins voru engar yfirþjóðlegar stofnanir innan EFTA eins og eru í Evrópusambandinu.

Upp úr 1970 hófu Bretland, Írland, Danmörk og Noregur samningaviðræður um fulla aðild að Evrópusambandinu. Þrjú fyrstnefndu löndin urðu fullgildir meðlimir í sambandinu árið 1973 og gengu þar með úr EFTA. Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1972 hafnaði hins vegar norska þjóðin inngöngu í sambandið. Árið 1994 höfnuðu Norðmenn öðru sinni inngöngu í Evrópusambandið.

Þegar Evrópusambandslöndin ákvað að koma á fót einum sameiginlegum markaði árið 1985 jukust áhyggjur í EFTA- löndunum. Þau óttuðust að með þessari aðgerð myndu þau verða undir í samkeppninni og tapa mörkuðum sínum innan Evrópusambandsins. Íslendingar voru þar engin undantekning enda fer langmest af útflutningi landsins, eða um 70%, til landa Evrópusambandsins og um 70% af öllum innflutningi kemur einnig frá sambandinu. EFTA löndin tóku því frumkvæðið að samningaumleitunum við Evrópusambandið, sem lauk með samkomulagi um Evrópska Efnahagssvæðið (EES) árið 1992.

Á vef Hagstofu Íslands má finna Hagskýrslur, undir liðnum Utanríkisverslun.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið opnar Íslendingum og öðrum EFTA- ríkum (Íslandi, Noregi og Lichtenstein) aðgang að markaði Evrópusambandsins. Á þessum markaði ríkir fjórfrelsið, það er frjálst flæði vöru, þjónustu, vinnuafls og fjármagns. Sameiginlegar reglur eiga að tryggja að samkeppnisaðstæður séu svipaðar milli allra á markaðinum. Við samninginn þurftu Íslendingar að breyta mörg hundruð lögum og reglugerðum til samræmis við gildandi lög Evrópusambandsins og svo mun verða um ókomna tíð.

Áhrif EES-samningsins fyrir Íslendinga
Alþingi samþykkti aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1992. Áður höfðu staðið harðar deilur hér á landi um hvort Ísland ætti að gerast aðili að samningnum eða ekki. Eftir að Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu er mun auðveldara fyrir íslensk fyrirtæki að færa út kvíarnar til allra landa svæðisins, þ.e. EFTA og Evrópusambandslandanna. Á sama hátt geta erlend fyrirtæki á Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem bankar eða tryggingarfélög stofnað útibú hér á landi ef þau vilja. Samningurinn felur í sér að íslenskar útflutningsvörur eiga greiðan aðgang að markaði aðildarlanda Evrópska efnahagssvæðisins vegna þess að tollar hafa verið felldir niður. Og íbúar á Evrópska efnahagssvæðinu geta sótt um vinnu hvar sem er á svæðinu. Samningurinn tryggir til dæmis að Íslendingar eiga að hafa sömu möguleika og innfæddir á svæðinu og þurfa hvorki að sækja um atvinnu né dvalarleyfi. Þegar þú hefur aldur til (yfirleitt 18 ár) getur þú sótt um að komast í vínberjatínslu á Grikklandi eða unnið í sjoppu á Bretlandseyjum og þýski unglingurinn getur ráðið sig til starfa við fiskvinnslu eða á sveitabæ hér á Íslandi. Loks má geta að með samningnum hefur samstarf í menntamálum ásamt styrkjum til rannsókna og tækniþróunar stóraukist.

Íslendingar eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu en ekki Evrópusambandinu. Samningurinn felur ekki í sér að Íslendingar fái sæti í yfirþjóðlegum stofnunum Evrópusambandsins og þeir taka heldur ekki þátt í sameiginlegri stefnu Evrópusambandsins í fiskveiði-, landbúnaðar-, utanríkis- eða varnamálum.

Rök með og á móti Evrópska efnahagssvæðinu
Eins og áður sagði urðu miklar deilur hér á landi um hvort Íslendingar ættu að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu eða ekki. Stuðningsmenn aðildarinnar bentu á að Íslendingar þyrftu að hafa eins góðan aðgang fyrir framleiðsluvörur sínar að mörkuðum í Evrópu og kostur væri. Þeir töldu það mikið hagsmunamál að Íslendingar tækju þátt í auknu samstarfi Evrópuþjóða og reyndu að njóta góðs af henni á sem flestum sviðum. Andstæðingar samningsins bentu hins vegar á að samningurinn gerði það að verkum að Íslendingar gætu varla talist fullvalda þjóð lengur. Þeir þyrftu að breyta lögum til samræmis við lög og reglur Evrópusambandsins og lúta ákvörðunum þess í einu og öllu. Eins voru þeir hræddir um að erlendir fjárfestar myndu kaupa upp íslensk fyrirtæki eða útrýma þeim sem fyrir væru og að ódýrt vinnuafl frá Evrópu myndi flæða yfir Ísland og leiða af sér atvinnuleysi meðal landsmanna.

Fáir efast lengur um að samningurinn að Evrópska efnahagssvæðinu hefur orðið Íslendingum til góðs. Nú velta stjórnmálamenn og almenningur hins vegar þeirri spurningu fyrir sér hvort Ísland eigi að sækja um aðild og gerast fullgildur aðili að Evrópusambandinu. Um það eru mjög skiptar skoðanir meðal landsmanna.