Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  NATO og kalda stríðið
 

Í lok seinni heimsstyrjaldar var Evrópa í rústum. Bandaríkin og Sovétríkin stóðu uppi sem tvö voldugustu ríki veraldar. Árið 1949 höfðu myndast tvær andstæðar fylkingar í Evrópu, Austurblokkin og Vesturveldin. Austurblokkin var undir forystu Sovétríkjanna og samanstóð af kommúnistaríkjum Austur-Evrópu, en Vesturveldin, sem voru kapítalísk voru undir forystu Bandaríkjanna. Næstu fjörtíu árin - eða fram til 1990 var fjandskapur, eða kalt stríð, á milli þessara tveggja risavelda. Á þessu tímabili kepptust ríkin um að ná sem mestum völdum í heiminum.

Á tímum kalda stríðsins ríkti mikil spenna í heiminum, en eftir 1962 tók að slakna á spennunni. Árið 1987 sömdu Sovétríkin og Bandaríkin um kjarnorkuafvopnun og árið 1990 lýstu þau kalda stríðinu loknu.

Árið 1949 stofnuðu Bandaríkin og nokkur Evrópuríki Atlantshafsbandalagið NATO. Þetta var hernaðarbandalag og markmið þess var að stöðva frekari yfirgang Sovétmanna í Evrópu. Samkvæmt samningnum jafngilti árás á eitt NATO-ríki árás á öll hin. Á Miðnesheiði við Keflavík er NATO-herstöð sem Bandaríkjamenn sjá um að reka. Herstöðin og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hafa löngum verið þrætuepli á Íslandi.

Sovétríkin og stuðningsríki þeirra í Austur-Evrópu stofnuðu einnig hernaðarbandalag stuttu síðar (árið 1955), sem gekk undir nafninu Varsjárbandalagið. Varsjárbandalagið var leyst upp árið 1991. NATO lifir enn góðu lífi og það hefur verið stækkað, því nokkur fyrrum Austur-Evrópuríki hafa nú fengið aðild að bandalaginu.

Eitt helsta markmið NATO á tímum kalda stríðsins var, eins og áður hefur komið fram, að verjast hugsanlegri árás Sovétríkjanna á Vestur-Evrópu. Einn liður í vörnum Vestur-Evrópu var að staðsetja fjölmennar herdeildir meðfram landamærunum að Austur-Þýskalandi og Tékkóslóvakíu. Við hrun kommúnismans í Austur-Evrópu voru þýsku ríkin tvö (Austur- og Vestur-Þýskaland) sameinuð, en Tékkóslóvakíu skipt í tvennt, Tékkland og Slóvakíu. Með jöfnu millibili hélt NATO stórar heræfingar á mismunandi stöðum nálægt landamærum kommúnistaríkjanna. Eins vaktaði NATO kommúnistaríkin með flugvélum, skipum, radarstöðvum, gervihnöttum og hlerunarbúnaði allan sólarhringinn.

Eftir lok kalda stríðsins, þegar Sovétríkin höfðu verið leyst upp, varð NATO að breyta öllum hernaðaráætlunum sínum. Eitt mikilvægasta hlutverk samtakanna nú á dögum er að fylgjast með að afvopnunarsamningunum sem gerðir voru við Austur-Evrópu sé framfylgt. Samtímis hefur NATO aukið tengsl sín við löndin í Austur- Evrópu. NATO á meðal annars að hjálpa austurevrópuþjóðunum að eyðileggja vopnabúr sín og að breyta hergagnaverksmiðjum í venjulegar iðnaðarverksmiðjur. Bandalagið hefur líka tekið að sér að endurmennta yfirmenn hersins í ýmsum Austur- Evrópulöndum til að kenna þeim lýðræðisleg vinnubrögð.

Í Vestur-Evrópu hefur átt sér mikill niðurskurður á fjölda hermanna og kjarnorkuvopna og NATO hefur gefið út þá yfirlýsingu að kjarnorkuvopn verði aðeins notuð ef öll önnur úrræði þrjóta. Þar að auki hafa Bandaríkjamenn sent stóran hluta herliðs síns, sem staðsett var í Þýskalandi, aftur heim. Þrátt fyrir að hætta á árásum sé mun minni nú en áður, er bandalagið enn í viðbragðsstöðu. Til dæmis hefur NATO komið á fót 70.000 manna árásarliði, mönnuðu af flestöllum meðlimsríkjunum. Herliðið ræður yfir tæknilega mjög fullkomnum vopnum. Ef átök brjótast út einhvers staðar innan áhrifasvæðis NATO er liðið mjög hreyfanlegt og fært að grípa strax inn í átökin.

Árið 1992 var ákveðið að Sameinuðu þjóðirnar hefðu einnig aðgang að herstyrk NATO. Þó má ekki nota herliðið sem árásarher utan Nató svæðisins, heldur á hann að gegna sama hlutverki og friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðirnar, það er að hindra að átök breiðist út og verði að stríði og að vernda almenna borgara á átakasvæðum.

Árið 1994 ákvað Nató að bjóða öllum fyrrverandi Varsjárbandalagsríkjunum ásamt öllum hlutlausum ríkjum Evrópu nánari samvinnu á sviði hermála. Síðan þá hefur fjöldi ríkja undirritað samkomulagið, sem kallast Bandamenn um frið. Einnig hafa mörg ríki Austur-Evrópu sótt um aðild að NATO.

Á vef NATO er að finna ýmsan fróðleik. Þar má sjá hvaða nítján lönd eiga aðild að bandalaginu og einnig hvaða ríki hafa undirritað samning við NATO sem kallast Bandamenn um frið (EAPC). Á heimasíðu bandalagsins er einnig hægt að fylgjast með nýjustu fréttum um hlutverk NATO í hernaðaraðgerðum, s.s. gegn hryðjuverkasamtökum eftir árásina á Bandaríkin þann 11. september 2001.