Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  Sameinuðu þjóðinar
 

Í lok heimsstyrjaldarinnar síðari árið 1945 voru Bandamenn, þjóðirnar sem börðust gegn Þjóðverjum, Ítölum og Japönum, sammála um að slíkt stríð mætti ekki endurtaka sig. Þeir stofnuðu því saman ný alheimssamtök, Sameinuðu þjóðirnar (SÞ). Meginhlutverk þeirra skyldi vera þríþætt: Í fyrsta lagi áttu þær að stuðla að friði í heiminum og koma í veg fyrir átök. Í öðru lagi áttu þær að vinna að félagslegri og efnahagslegri þróun og loks áttu þær að standa vörð um almenn mannréttindi. Pérez de Cuellar, sem var einn af fyrstu aðalriturum Sameinuðu þjóðanna, lét eftirfarandi orð eitt sinn falla um markmið samtakanna: „Saman spinna aðildarríkin frið; en ef einn af þráðunum raknar, þá mun friðurinn líka rakna.“

Fyrsti fundur Sameinuðu þjóðanna var haldinn í San Francisco árið 1945 og nú eru nær öll lönd veraldar meðlimir í samtökunum. Ísland gerðist meðlimur í SÞ árið 1946. Aðalstofnanir Sameinuðu þjóðanna eru sex: Allsherjarþingið, Öryggisráðið, Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna, Fjárhags- og félagsmálaráðið, Gæsluverndarráðið og Alþjóðadómstólinn.

Allsherjarþingið
Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur hvertaðildarríki eitt atkvæði. Allsherjarþingið hefur lítil völd og getur einungis samþykkt ályktanir. Samþykktir Allsherjarþingsins eru ekki bindandi en hafa táknrænt gildi vegna þess að þær endurspegla heimsálitið. Mikilvægasta hlutverk Allsherjarþingsins er að vera fundarstaður allra landa heims og þar eru mjög mikilvæg alþjóðleg málefni rædd.

Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna
Aðalframkvæmdastjórinn er æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna, skipaður af allsherjarþinginu samkvæmt tillögu Öryggisráðsins til fimm ára í senn. Hann hefur yfirumsjón með starfsemi samtakanna. Hann getur lagt fyrir Öryggisráðið hvers kyns vandamál, sem hann telur að ógna kunni heimsfriðnum, og lagt fram tillögur um málefni, sem tekin skulu upp á Allsherjarþinginu eða í öðrum stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Starfslið Skrifstofu SÞ vinnur að framkvæmd ákvarðana innan þeirra.

Þurfum við á Sameinuðu þjóðunum að halda?
Á allra síðustu árum hafa flugsamgöngur, viðskipti og gervihnattasamskipti stóraukist í heiminum og þróunin hefur fært heimshlutana mun nær hver öðrum en áður. Á sama tíma hefur þróunin smám saman grafið undan yfirráðarétti ríkja og rétti þeirra til að hafa óskorað vald yfir eigin landssvæði. Nú á dögum er nánast ógerlegt fyrir hvert einstakt land að stöðva mengun við landamæri sín eða að hafa stjórn á fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum. Afvopnun, eyðing gjöreyðingarvopna og eftirlit með vopnaframleiðslu er orðið mjög brýnt úrlausnarefni fyrir heiminn. Og ef ekki kemst á meira efnahagslegt jafnvægi í heiminum munu þjóðflutningar milli ríku og fátæku ríkjanna stóraukast. Öll ríki veraldar verða að stuðla í sameiningu að betri heimi fyrir alla.

Innan Sameinuðu þjóðanna eru málefnin rædd og því er nauðsynlegt að styrkja stofnunina og gera hana öflugri. Margar tillögur hafa verið lagðar fram. Sumir vilja til dæmis að Evrópusambandið ætti að taka sæti Bretlands og Frakklands í Öryggisráðinu og að Japan og Indland ættu að fá þar fast sæti. Aðrir hafa mælt með því að stórveldin missi neitunarvald sitt þannig að einfaldur meirihluti í Öryggisráðinu gæti samþykkt efnahags- eða hernaðarlegar refsiaðgerðir gagnvart ríkjum sem ógna eða brjóta frið. Og loks finnst mörgum sanngjarnt að lönd sem borga ekki þátttökugjald sitt í Sameinuðu þjóðunum, missi réttinn til að greiða atkvæði.

Ísland og Sameinuðu þjóðinar
Þátttaka í starfi Sameinuðu þjóðanna var ein fyrsta ákvörðun hins unga íslenska lýðveldis og jafnframt fyrsta skrefið í þátttöku Íslendinga af alvöru í alþjóða-stjórnmálum. Áður en Íslendingar fengu aðild að samtökunum, 19. nóvember 1946, gerðist Ísland aðili að fimm alþjóðastofnunum, sem síðar urðu sérstofnanir samtakanna: Matvæla- og landbúnaðarstofnuninni (FAO), Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF), Alþjóða-bankanum (IBRD), Alþjóðaflugmálastofnuninni (ICAO) og Alþjóða-vinnumálastofnuninni (ILO).

Allsherjarþingið samþykkti umsókn Íslands um aðild 9. nóvember, og fulltrúi Íslands undirritaði yfirlýsingu um að Ísland gengi að sáttmála SÞ hinn 19. nóvember 1946. Fyrsti fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum var skipaður 1947. Starfið innan samtakanna hefur gert Íslendingum kleift að leggja fram sinn skerf til friðar og öryggis í heiminum, til eflingar lýðræðis, mannréttinda, þróunarhjálpar, umhverfismála, afvopnunar og bætts efnahags.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna
Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna er ný stofnun. Hann er til húsa hjá Hafrannsóknastofnun í Reykjavík, en skipulagning námsins og kennsla fer einnig fram í nánum tengslum við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og ýmis útgerðarfyrirtæki. Standa vonir til að starfsemi skólans nýtist nemendum frá sem flestum þróunarlöndum sem möguleika hafa til að byggja upp atvinnulíf tengt sjávarútvegi.

Árið 1979 var gerður samningur milli Háskólans og Orkustofnunar um árlegan Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Sérfræðingar Orkustofnunnar sjá um mestan hluta kennslunnar. Hátt í hundrað raunvísindamenn og verkfræðingar frá tuttugu þróunarlöndum hafa hlotið sex mánaða þjálfun í Jarðhitaskólanum, en á fjórða tug manna hefur komið til skemmri námsdvalar. Íslenska ríkið greiðir um 80% kostnaðar við reksturinn, en um 20% er kostað af Háskóla Sameinuðu þjóðanna í Tókýó. Íslenska framlagið til Jarðhitaskólans er hluti af framlagi Íslands til þróunaraðstoðar. Í tengslum við starfsemi skólans hefur verið leitað eftir sérfræðiaðstoð frá Íslandi varðandi jarðhita frá ýmsum ríkjum.