Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  Ísland og NATO
 

Úr Íslenskum söguatlasi.

Eitt helsta deilumál eftirstríðsáranna var inngangan í NATO. Aldrei í síðari tíma sögu hefur nokkurt mál valdið eins bitrum og harkalegum deilum á Íslandi. Þeir sem stóðu að inngöngunni voru kallaðir föðurlandssvikarar, landsölumenn og öðrum slíkum nöfnum. Skammt var síðan landið varð sjálfstætt og slíkar nafngiftir voru ekkert grín. Sjálfir töldu þeir sem að inngöngunni stóðu að Ísland ætti engra annarra kosta völ, ekki síst með hliðsjón af reynslunni úr síðari heimsstyrjöldinni. Hlutleysi ríkja yrði ekki varið með vopnaleysi, allra síst smáríkja eins og Íslands.

Ýmsir aðrir þættir höfðu áhrif á ákvörðun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks undir forsæti Stefáns Jóhanns Stefánssonar, sem ákvað í mars 1949 að Íslendingar skyldu ganga í NATO. Sérstaklega óttuðust menn að Sósíalistaflokkurinn myndi reyna byltingu hér með stuðningi Sovétríkjanna líkt og gerst hafði í Tékkóslóvakíu 1948 /.../

Árið 1943 mörkuðu yfirmenn Bandaríkjahers þá langtímastefnu að Bandaríkin skyldu hafa herstöðvar á Íslandi. Slíkt væri vörnum Bandaríkjanna mjög til framdráttar og þeir lögðu fram beiðni við Íslendinga um herstöðvar í Hvalfirði, Skerjafirði og á Keflavíkurflugvelli til langs tíma. Íslendingar tóku beiðninni illa og hvorki Norðurlandaþjóðirnar né Bretar voru sáttir við slíkar tilfæringar. Bandaríkjamönnum tókst aðeins að ná svokölluðum Keflavíkursamningi 1946, sem veitti þeim rétt til að reka Keflavíkurflugvöll með Íslendingum. Með samningnum fengu Íslendingar flugvöllinn til eignar og Bandaríkjaher fór á brott. Allir flokkar samþykktu að hér yrðu ekki herstöðvar á friðartímum. Bandaríkjamenn urðu að leita annarra leiða til að ná markmiði sínu varðandi herstöðvar á Íslandi /.../.

Á árinu 1948 hófst kalda stríðið fyrir alvöru. Kommúnistar tóku öll völd í Tékkóslóvakíu og var það verulegt áfall fyrir marga, t.d. Norðurlandaþjóðirnar, þar sem Tékkar höfðu notið mikils álits sem lýðræðisþjóð meðal þeirra. Nokkru síðar hófst Berlínardeilan, og leit út fyrir að styrjöld væri á næsta leiti. Leyniþjónusta danska flotans varaði Íslendinga við skipaferðum Rússa um Eyrarsund og sovéskur fiskifloti hóf veiðar fyrir norðan land. Tékkneskur vísindaleiðangur kom til landsins og var talið að þar færu njósnarar í dulargervi. Allt var þetta talið minna ískyggilega á ástandið 1940 áður en Danmörk og Noregur voru hernumin.

Í raun stafaði takmörkuð hætta af sovéska flotanum hér á landi eða annars staðar því floti Breta og Bandaríkjamanna hafði öll völd á Norður-Atlantshafi. Bandaríkjamenn óttuðust hins vegar að íslenskir kommúnistar myndu, ef til stríðs kæmi, reyna að vinna skemmdarverk á Keflavíkurflugvelli, eða jafnvel að Sovétmenn myndu senda hingað sjálfsmorðsdeild, sem gæti valdið miklum skaða í upphafi stríðs, þótt þeir hefðu enga von um að halda landinu.

Keflavíkurflugvöllur var mikilvægur liður í hernaðaráætlunum Bandaríkjamanna ef til stríðs kæmi í Evrópu, og báðu þeir um leyfi til að lengja flugbrautir hans 1948, undir fölsku yfirskini, en raunverulegur tilgangur var sá að kjarnorkuflugfloti Bandaríkjamanna þurfti á lengingunni að halda. Íslensk stjórnvöld voru mjög treg til að veita leyfi til þess, en gáfu það þó eftir að lokum.

Bandaríkjamenn hófu nú undirbúning að stofnun Norður-Atlantshafsbandalagsins og var lögð mikil áhersla á að fá Íslendinga í það. Afstaða Dana og Norðmanna skipti þar miklu máli, en jafnaðarmannastjórnirnar þar studdu bandalagið eindregið. Íslenska stjórnin varð endanlega sannfærð, á fundi í Washington 14.-17. mars 1949, um nauðsyn þess að ganga í NATO, en þangað fóru ráðherrarnir Bjarni Benediktsson, Emil Jónsson og Eysteinn Jónsson. Alþingi samþykkti síðan NATO-samninginn með 37 atkvæðum gegn 13 á fundi 30. mars og olli það mestu óeirðum í sögu lýðveldisins þann sama dag. Tveimur árum síðar kom bandarískur her til landsins./.../.

Íslenskur söguatlas 3. Reykjavík, 1993:106 -107.