Í október árið 1929
var verðhrun í kauphöllinni í New York og
fjárfestar töpuðu miklum fjárhæðum.
Þetta markaði upphaf efnahagskreppu sem átti eftir
að hafa áhrif um allan heim næsta áratuginn.
Ofsahræðsla greip um sig meðal manna í viðskiptalífinu,
þeir misstu kjarkinn og bandarískt efnahagslíf
hrundi. Bankar hættu að lána fé, verksmiðjum
var lokað og viðskipti drógust saman. Allt hafði
þetta í för með sér gríðarlegt
atvinnuleysi /.../.
Kreppan breiddist fljótt út um
heimsbyggðina og flestar þjóðir urðu fyrir
barðinu á henni. Margar þjóðir höfðu
treyst á lán frá Bandaríkjamönnum
til að fjármagna endurreisnina eftir fyrri heimsstyrjöld
(1914 -18). Þessi lán stóðu nú ekki
lengur til boða. Fyrirtæki urðu gjaldþrota og
milljónum manna var sagt upp störfum.
Alfræði
unga fólksins. Reykjavík,
Örn og Örlygur 1994:303
Á Íslandi stóð kreppan
fram til ársins 1940. Hún kom fram í sölutregðu
á útflutningsafurðum, samdrætti í
atvinnulífinu og stórfelldu atvinnuleysi. Kröfugöngur
voru farnar til að mótmæla atvinnuleysinu og bágum
kjörum alþýðunnar. Til að vernda íslenska
framleiðslu og vinnumarkaðinn tóku Íslendingar
upp verndarstefnu sem var við lýði allt fram undir
1960. Íslensk stjórnvöld vildu láta framleiða
heima allar þær vörur sem hægt væri.
Menn voru á því að vera ekki að eyða
gjaldeyri í að flytja inn óþarfa varning,
en þetta eru rök sem heyrast enn í dag meðal
þeirra sem blöskrar allur innflutningurinn hingað
til lands.
Haftastefna áranna 1947-1950 ól
af sér verslunarhætti sem einkenndust af biðröðum
og bakdyraverslun. Dálkahöfundur Alþýðublaðsins,
Hannes á Horninu, segir svo frá að ,,einn morguninn
eldsnemma var stór biðröð við dyr einnar
skóverslunarinnar. Fast við dyrnar stóð kona
sem áreiðanlega hefur komið að dyrunum kl. 6-7
um morguninn. Hún var með þrjú lítil
börn með sér og minnsta barnið grátandi
í kerru sinni. Þarna stóð fólkið
til kl. 9 er búðin var opnuð. En þá
tilkynnti búðarmaðurinn að enginn gúmmí-skófatnaður
væri til.
Skýrt var frá því
síðar í sama blaði að fréttin um
að gúmmískófatnaður fengist í
skóversluninni hefði aldrei átt við nein rök
að styðjast; gúmmískófatnaðurinn
hefði aldrei verið til. Á þessum árum
þurftu kaupmenn sjaldnast að auglýsa vörur
sínar, ef fréttist að selja ætti skó
eða kápur varð það jafnskjótt á
hvers manns vörum.
Íslenskur
söguatlas 3. Reykjavík, 1993:144
|