Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  Öryggisráð SÞ og friðargæsla
 

Meginhlutverk Öryggisráðsins er að viðhalda friði í heiminum og rannsaka alla atburði sem gætu leitt til stríðs. Alls eiga 15 lönd sæti í Öryggisráðinu. Bandaríkin, Kína, Rússland, Frakkland og Bretland eiga fastasæti en tíu fulltrúar eru kosnir til tveggja ára í senn frá öðrum meðlimum Sameinuðu þjóðanna. Öryggisráðið er eina stofnun Sameinuðu þjóðanna sem getur beitt þá, sem brjóta frið, efnahagslegum eða hernaðarlegum refsiaðgerðum. Til að hægt sé að beita friðarspilla efnahagslegum eða hernaðarlegum þvingunum verða fastafulltrúarnir fimm að vera sammála um refsiaðgerðirnar. Á tímum kalda stríðsins var slíkum refsingum sjaldan beitt, vegna þess fastafulltrúarnir notuðu neitunarvald sitt óspart til að stoppa ályktanir sem þeir töldu að gengju gegn hagsmunum þeirra. Fram á upphaf áttunda áratugarins beittu Bandaríkin til dæmis neitunarvaldi sínu til að koma í veg fyrir að fjölmennasta ríki veraldar, Kína, fengi aðild að Sameinuðu þjóðunum. Allt fram til ársins 1972 átti Tævan sæti í Sameinuðu þjóðunum í stað Kína. Kínverjar hafa hins vegar aldrei viðurkennt sjálfstæði Tævan, heldur álitið það hluta af Kína.

Öryggisráðið átti mun auðveldara með að sinna skyldum sínum eftir að kalda stríðinu lauk, eins og sást vel þegar Írak réðst inn í Kúveit árið 1990. Sama ár samþykktu allir fastafulltrúar Öryggisráðið að beita Írak efnahagslegum refsiaðgerðum. Þær aðgerðir skiluðu litlu sem engu og því var gripið til þess ráðs að senda herlið á vegum Sameinuðu þjóðanna, en undir stjórn Bandaríkjamanna, til Kúveit. Hlutverk hersins var að koma íraska innrásarliðinu með valdi út úr Kúveit. Stríðið, sem kallað var Persaflóastríðið, endaði með algjörum ósigri Íraka, sem þar að auki urðu að sætta sig við harðar refsiaðgerðir eftir að stríðinu var lokið. Öryggisráðið samþykkti meðal annars að beita Íraka viðskiptaþvingunum, sem þýddi að Írakar máttu ekki flytja út olíu fyrr en þeir voru búnir að uppfylla öll skilyrði sem Sameinuðu þjóðirnar gerðu til þeirra. Sameinuðu þjóðirnar settu Írökum meðal annars þau skilyrði að þeir yrðu að eyðileggja stóran hluta af vopnabirgðum og vopnaverksmiðjum sínum og eins urðu þeir að gefa eftir kröfu sína um að innlima Kúveit í Írak. Í hinum vestræna heimi glöddust margir yfir úrslitum Persaflóastríðsins. Meðal þróunarlanda voru mörg ríki áhyggjufull og héldu því fram að ríku löndin hefðu misnotað Sameinuðu þjóðirnar því þau hefðu einungis blandað sér inn í átökin milli Írak og Kúveit til að tryggja sér næga olíu.

Hróður Sameinuðu þjóðanna jókst á árunum sem á eftir komu. Samtökin aðstoðuðu við að koma á frjálsum kosningum í Namibíu, Mósambík og Kambódíu og aðstoðuðu flóttamenn við að snúa aftur heim til Kambódíu, Nígaragúa og Afganistan. Árið 1992 samþykkti Öryggisráðið að beita Serba olíu- og viðskiptaþvingunum vegna árása þeirra á almenna borgara í nágrannaríkinu Bosníu-Hersegóvínu.

Friðargæsla
Því fer fjarri að öll mál sem Öryggisráðið fjallar um endi með refsiaðgerðum. Oftast lætur það sér nægja að biðja þau ríki sem eiga í stríði að samþykkja vopnahlé eða að hefja friðarumleitanir. Ef það dugar ekki til velur Öryggisráðið stundum að senda sérstaka sáttasemjara eða alþjóðlegar friðargæslusveitir á svæðið. Friðargæslusveitir eru aldrei sendar inn á átakasvæði nema með samþykki yfirvalda á því svæði sem þær eiga að starfa á og þær mega bara beita vopnum í sjálfsvörn. Meginhlutverk friðargæslusveitanna er að halda stríðandi fylkingum aðskildum og að fylgjast með að vopnahlé sé haldið. Friðargæslusveitirnar hafa einnig reynst vel í að vernda almenna borgara fyrir ofbeldi og valdbeitingu auk þess sem þær eru líka öflugar í ýmiss konar líknarstarfi.

Íslensk friðargæsla
Góður árangur af starfi Íslendinga í friðargæslusveitum í Bosníu-Hersegóvínu er stjórnvöldum hvatning til frekara starfs á þessu sviði og sýnir svo ekki verður um villst að Ísland getur ekki síður en aðrar þjóðir lagt sitt af mörkum í þeim efnum. Friðargæslu- og eftirlitsaðgerðir á vegum stofnunarinnar geta gefið Íslendingum aukin tækifæri til að senda sérhæfða liðsmenn á vettvang og stuðlað þannig að friði og stöðugleika víða um heim. Ísland hefur gerst áheyrnaraðili að friðargæslunefnd Sameinuðu þjóðanna með það fyrir augum að gerast fullgildur aðili innan tíðar.

Fyrstu íslensku læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir fóru til starfa í friðargæslu í Bosníu-Hersegóvínu á vegum íslenskra stjórnvalda árið 1994. Íslensku friðargæsluliðarnir voru fyrst undir fána friðargæsluliðs SÞ í fyrrverandi Júgóslavíu (UNPROFOR). Friðargæslusveitirnar gerðu mikið gagn með því að halda átökum í skefjum á mörgum svæðum og með því að aðstoða við að koma mannúðaraðstoð í framkvæmd. Síðar urðu íslensku friðargæsluliðarnir hluti af eftirlitssveitum Atlantshafsbandalagsins í landinu (IFOR/SFOR). Á vettvangi Atlantshafsbandalagsins hafa íslensk stjórnvöld ávallt stutt samvinnu bandalagsins og Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd ályktana öryggisráðsins varðandi Bosníu-Hersegóvínu. Tveir íslenskir læknar og tveir hjúkrunarfræðingar starfa nú þar í landi undir verkstjórn breska hersins á grundvelli samnings milli íslenskra og breskra stjórnvalda.

Rúmlega 2000 manna lögreglulið er nú að störfum undir merkjum SÞ í Bosníu-Hersegóvínu. Þrír íslenskir lögreglumenn starfa þar í danskri lögreglusveit.

Þessar upplýsingar eru fengnar af heimasíðu Utanríkisráðuneytisins og þar getur þú lesið meira um friðargæslu.

Á síðari árum hafa Sameinuðu þjóðirnar í vaxandi mæli sent árásarherlið inn á átakasvæði til að viðhalda lögum og reglum, eins og gerðist í til dæmis í Kúveit, Sómalíu og Haíti. Í ofannefndum dæmum hafði Öryggisráðið samþykkt valdbeitingu og því tóku Sameinuðu þjóðirnar virkan þátt í stríðsátökunum. Sameinuðu þjóðirnar gátu hins vegar ekki beitt árásarher í fyrrverandi Júgóslavíu vegna þess að stórveldin (Bandaríkin og Rússland) og önnur ríki studdu ólíka þjóðernishópa. Tillaga um beina árás á fyrrverandi Júgóslavíu, sem fæli í sér stuðning við einn þjóðernishóp en andstöðu gagnvart öðrum, hefði því örugglega verið felld af einhverjum fastafulltrúa Öryggisráðsins. Sameinuðu þjóðirnar urðu því að láta sér nægja að senda inn friðargæslusveitir. Þær urðu vitni að því að sterkasti aðilinn, Serbar, þvinguðu fram vilja sinn á orrustuvellinum.