Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  Mannréttindi og SÞ
 

Mannréttindamál eru nú órofa hluti af friðarstarfi Sameinuðu þjóðanna og verða ekki skilin frá starfi að öryggismálum og þróunarmálum. Á síðustu árum hefur það viðhorf átt vaxandi fylgi að fagna að ekki verði litið á mannréttindi sem einkamál einstakra ríkja, heldur varði þau sameiginlega hagsmuni alls mannkyns. Á síðustu árum hefur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna æ meira verið fjallað um mannréttindi ýmissa hópa þjóðfélagsins, eins og kvenna, barna, aldraðra og fatlaðra, og vilja íslensk stjórnvöld leggja því starfi lið.

Mannréttindastarf Sameinuðu þjóðanna fer aðallega fram á vettvangi Allsherjarþingsins og þriðju nefndar þess, Mannréttindaráðsins. Á Ísland starfa ýmir aðilar að mannréttindamálum, bæði ráðuneyti og sjálfstæð félagasamtök. Utanríkisráðuneytið á gott samstarf við Mannréttindaskrifstofu Íslands og telur sjálfstætt starf hennar og hinna fjölmörgu einstaklinga, sem starfa á þessum vettvangi, mikilvægt fyrir mannréttindastarf Íslands. Ýmis ráðuneyti starfa að skýrslugerð og upplýsingagjöf í tengslum við mannréttindasamninga.

Mannréttindaráð

Íslendingar hafa áheyrnaraðild að Mannréttindaráðinu og hafa þar málfrelsi og rétt til að gerast meðflytjendur ályktunartillagna. Hefur þeim rétti verið beitt til þess að styðja viðleitni ýmissa annarra Vesturlanda til að gera starfsemina markvissari og efla eftirlit með framkvæmd alþjóðlegra mannréttindasamninga. Auk þess hafa Íslendingar gerst meðflytjendur að ályktunartillögum um mannréttindaástand í einstökum ríkjum og um mannréttindi einstakra þjóðfélagshópa.

Alþjóðasamningar um mannréttindi
Mannréttindanefndin er skipuð 18 fulltrúum frá ríkjum, sem samþykkt hafa alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Nefndin hittist þrisvar á ári og fjallar þá um skýrslur aðildarríkja, kærumál einstaklinga og beiðnir um upptöku mála. Samningurinn sem var undirritaður af Íslands hálfu 1966 fjallar meðal annars um kærurétt einstaklinga, afnám dauðarefsingar og um afnám alls kynþáttamisréttis. Íslensk stjórnvöld skila reglulega skýrslu til nefndarinnar.

Málefni barna
Málefnum barna hefur verið gefinn æ meiri gaumur á vettvangi SÞ, ekki síst í kjölfar heimsráðstefnu um málefni barna sem var haldin í New York árið 1990. Barnahermenn, barnaklám, barnavændi og barnaþrælkun hafa opnað augu almennings jafnt sem stjórnvalda á nauðsyn alþjóðasamvinnu til að vinna að réttindum og velferð barna. Um er að ræða mikilsverð mannréttindamál, og velferð barna hefur áhrif á þjóðfélögin í heild. Samfélag þjóðanna varðar því um hvernig ríki sinna velferð barna og tryggja þeim grundvallarmannréttindi. Íslensk stjórnvöld hafa unnið að málefnum barna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með margvíslegum hætti. Utanríkisráðuneytið hefur styrkt samtökin c til þátttöku í alþjóðasamstarfi, m.a. til setu á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunni í Stokkhólmi 1996 um kynferðislega misnotkun barna og alþjóðaráðstefnuí Ósló í október 1997 um vinnu barna.

Samningurinn um réttindi barna var samþykktur samhljóða af allsherjarþingi SÞ. árið 1989 og nú eru 190 ríki aðilar að samningnum. Af Íslands hálfu var samningurinn fullgiltur árið 1992. Nefnd um réttindi barna starfar á grundvelli samningsins og hefur það hlutverk að fylgjast með því að ríki virði skyldur sínar samkvæmt samningnum. Hún er ennfremur tengiliður milli aðildarríkjanna og Barnahjálpar SÞ og annarra stofnana sem sinna velferðarmálum barna. Ísland hefur stutt sérstaka framkvæmdaáætlun til eflingar samningsins um réttindi barna.

Málefni kvenna
Með kvennaráðstefnunni í Peking haustið 1995 urðu mannréttindi kvenna í heiminum eitt mikilsverðasta málefni SÞ. Ísland hefur staðfest helstu alþjóðasamninga sem varða mannréttindi kvenna, þar á meðal samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Samningur SÞ um afnám allrar mismununar gagnvart konum var staðfestur af Íslands hálfu árið 1985. Sérstök nefnd Sameinuðu þjóðanna fylgist með framkvæmd samningsins í aðildarríkjunum. Íslensk stjórnvöld skila skýrslum um framkvæmd samningsins til nefndarinnar. Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar einnig nefnd um stöðu kvenna.

Flóttamenn
Íslensk stjórnvöld leitast við að taka þátt í hjálparstarfi Sameinuðu þjóðanna vegna flóttamanna. Sumarið 2000 kom til landsins þriðji hópur flóttamanna frá fyrrverandi Júgóslavíu. Hann settist að á Blönduósi, en fyrri hóparnir höfðu sest að á Ísafirði og Hornafirði. Flóttamannaráð og fleiri aðilar önnuðust málefni flóttamannanna hér á landi. Embætti flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í Genf hafði milligöngu um að finna þær fjölskyldur sem boðið var að fara til Íslands. Stofnunin er rekin með frjálsum framlögum og þar hefur Ísland lagt sitt af mörkum. Auk almenns framlags til rekstrar stofnunarinnar hafa íslensk stjórnvöld lagt fé til starfsemi UNHCR í Rúanda og Tsjetseníu.

Kúrdískir flóttamenn á landamærum Írak og Írans árið 1991.

Embætti flóttamannafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er ætlað að veita flóttamönnum vernd og aðstoð og á annan hátt að leysa vanda þeirra. Verkefnin verða æ viðameiri með ári hverju. Flestir flóttamanna eru í þróunarríkjum. Meðal meginverkefna síðustu missera má nefna verkefni í Angóla, Afganistan, Aserbædsjan, Georgíu, Gvatemala, Líberíu, Mósambík, Mjanmar, Sri Lanka, fyrrverandi Júgóslavíu og á vatnasvæðinu í Afríku.

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna vegna Palestínu (UNRWA) gegnir lykilhlutverki við lausn flóttamannavandans í Mið-Austurlöndum. Íslendingar hafa á síðustu árum veitt tæplega 100 miljónir króna til aðstoðarverkefna í þágu Palestínumanna.

Mannúðaraðstoð
Margar sérstofnanna Sameinuðu þjóðanna láta til sín taka þegar neyðarástand hefur skapast vegna náttúruhamfara eða stríðsástands víðs vegar um heim. Íslensk stjórnvöld styrkja þetta starf ýmist með föstum eða sérstökum framlögum. Rauði kross Íslands hefur einnig verið styrktur til hjálparstarfsemi á ákveðnum svæðum. Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna aðstoðar nú um áttatíu ríki með langtímaaðstoð, til að gera þeim kleift að komast fyrir rætur hungurs og fátæktar.

Fíkanefna- og afbrotavarnir
Á síðustu árum hefur barátta Sameinuðu þjóðanna gegn afbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi orðið æ mikilvægari. Á þetta ekki síst við vegna tengsla slíkrar starfsemi við skipulagða hryðjuverkastarfsemi. Alþjóðleg glæpastarfsemi er þess eðlis að ríki heims verða taka höndum saman í baráttunni við að kveða hana niður.

Margir telja að ekki sé hægt að ná árangri gegn fíkniefnavandanum nema með fjölþjóðlegu átaki og þar gegna Sameinuðu þjóðirnar lykilhlutverki. Áratugurinn 1991 til 2000 var helgaður baráttunni gegn fíkniefnaneyslu. Í því sambandi gekkst ríkisstjórn Íslands fyrir sérstakri framkvæmdaáætlun hér á landi til að berjast gegn neyslu vímuefna, einkanlega á meðal ungs fólks. Fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna (CND), sem sinnir vörnum gegn ólöglegri verslun með fíkniefni, fylgdist með framkvæmdinni.

Á síðustu árum hefur viðleitni til að sporna við alþjóðlegri glæpastarfsemi orðið æ mikilvægari þáttur í starfi Sameinuðu þjóðanna, enda er skipulögð glæpastarfsemi mikið vandamál víða um heim, ekki síst í þróunarríkjunum. Dómsmálaráðuneytið svarar árlega fjölda fyrirspurna um afbrotamál frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna og veitir tölfræðilegar upplýsingar svo og upplýsingar um íslenska löggjöf á þessu sviði.