Ísland
er strjálbýlt því yfir 60% landsmanna
búa á höfuðborgarsvæðinu. Íslenska
samfélagið var lengst af bændasamfélag þar
sem flestallir landsmenn bjuggu til sveita
og lifðu af landbúnaði. Byggðin dreifðist
um láglendi meðfram ströndum landsins og inn til
dala. Á síðari hluta 19. aldar tók sjávarútvegi
að vaxa fiskur um hrygg. Þar með hófst þéttbýlismyndun
í landinu og fólk fór í sívaxandi
mæli að setjast að í þorpum, kauptúnum
og kaupstöðum við sjávarsíðuna. Þegar
eitt skip eða fleiri voru gerð út að staðaldri
frá sama staðnum, myndaðist þörf fyrir
fólk í fiskvinnu í landi. Af því
að hægt var að bjóða fólki fasta
vinnu, fluttist það á staðinn með fjölskyldur
sínar og það sama átti við um sjómennina.
Lengi vel var ,,sveitin
milli sanda, það er Öræfasveit, afskekktasta
byggðarlag á Íslandi, enda hömluðu stórfljót
bæði til austurs og vesturs og jöklar til norðurs
samgöngum við önnur byggðarlög. Með tilkomu
brúa, sérstaklega Skeiðarárbrúarinnar,
var einangrun Öræfasveitar endanlega rofin.
Sjálfsagt má
um það deila hvaða sveit á Íslandi er
nú afskekktust, en víða eru enn strjálar
samgöngur, sérstaklega að vetrarlagi. Á það
við um einstaka sveitir á Ströndum, á Vestfjörðum
og á Austfjörðum.
Steinar J.
Lúðvíksson. Íslandsmetabókin.
Reykjavík, Örn og Örlygur 1983:28
Á
tímum seinni heimsstyrjaldar varð veruleg uppsveifla
í fólksflutningum og fólk flutti í miklum
mæli frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun.
Á síðustu tveimur áratugum 20. aldar hefur
fólksstraumurinn aldrei verið meiri til höfuðborgarsvæðisins.
Nú er svo komið að aðeins um 7% landsmanna búa
enn í strjálbýli, það er að segja
á svæðum þar sem íbúar eru
færri en 50 talsins. Byggðin hefur dregist saman, bæir
lengst inn til dala hafa lagst í eyði og nokkur byggðarlög
eins og Hornstrandir og nokkrir firðir á Vesturlandi
og Austurlandi farið í eyði. Ef þú hefur
einhvern tíma flogið í heiðskíru veðri
á milli Reykjavíkur og Akureyrar hefurðu væntanlega
tekið eftir hversu strjálbýlt landið er og
að stórir hlutar þess eru óbyggðir.
Íslenska
ríkinu er skylt að veita þeim sem búa hér
ákveðna þjónustu, sama hvar á landinu
þeir búa. Það er hluti af skyldum ríkisins
við okkur að byggja vegi, sjá um heilsugæslu,
skóla og svo mætti lengi telja. Vegna fólksfæðar
og náttúru (fjöll, hraun, ár og jöklar)
eru mörg af verkefnum ríkisins mjög dýr
miðað við mörg önnur lönd. Við getum
til dæmis litið á Danmörku til samanburðar.
Þar búa um 5 milljónir manna á 42.000
ferkílómetrum, en á Íslandi búa
um 300.000 manns á 103.000 ferkílómetra stóru
landi. Danmörk er flatt land og þar má segja að
nánast hver lófastór blettur sé ræktaður.
Ísland er fjöllótt og stór hluti landsins
óræktanlegur. Það segir sig sjálft
að erfitt er að tengja saman alla staði á Íslandi
með vegum og sjá til þess að allir hafi aðgang
að rafmagni, síma og sjónvarpi. Mun auðveldara
og ódýrara er að útvega Dönum sömu
þjónustu.
Náttúra
Íslands og búsetuskilyrði segja okkur heilmargt
um hvernig landi við búum í, en samt ekki alla
söguna. Til að fá betri heildarmynd verðum við
líka að rannsaka sögu landsins. Þótt
þjóðinni svipi töluvert til annarra Vesturlandabúa
hefur hún samt sín sérkenni sem geta útskýrt
af hverju Íslendingar eru eins og þeir eru. Við
höfum marga siði og venjur sem aðrir hafa ekki - og
ein af þeim eru nafnavenjur. Erlendis er algengt að konur
taki upp eftirnafn eiginmanna sinna þegar þær
gifta sig - enda eftirnöfnin fjölskyldunöfn. Þegar
íslensk fjölskylda er á ferðalögum erlendis
reka margir upp stór augu þegar hún kynnir sig
og fjölskyldumeðlimir kynna sig með mismunandi eftirnöfnum.
Mörgum útlendingum finnst einnig skondið að
heyra að fólki hér sé raðað í
símaskrá eftir fornöfnum.
|