Hvað er að vera Íslendingur?:
Verkefni

Ítarefni:
Auðlindir
EFTA
Evrópusambandið
Hvar búa Íslendingar?
Ísland og alheims-samfélagið
Ísland og Nato
Kreppan mikla
Mannréttindi og SÞ
Nato og kalda stríðið
Nýtt eða gamalt land?
Öryggisráð SÞ og friðargæsla
Sameinuðu þjóðinar
Sérstofnanir SÞ
Verndarstefna eða fríverslun

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XSamastaður í heiminum
  Ísland og alheimssamfélagið
 

Ísland er sjálfstætt ríki og hluti af alheimssamfélaginu.Sjálfstætt ríki sjálfstætt þýðir: mannlegt samfélag sem hefur varanleg yfirráð yfir ákveðnu landssvæði, býr við lögbundið skipulag og stjórnarfarslegt sjálfstæði. Með öðrum orðum, svo ríki geti talist ríki þarf það að hafa landssvæði, fólk, ríkisstjórn og vera sjálfstætt.

Þegar maður spyr hversu mörg sjálfstæð ríki séu til í heiminum fást ýmis svör, allt eftir hver er spurður og hvaða hagsmuna viðkomandi hefur að gæta. Því er oft erfitt að komast til botns í málinu. Auk þess er fjöldi sjálfstæðra landa breytilegur. Til dæmis bættust um hundrað lönd við hóp sjálfstæðra ríkja í átökunum sem fylgdu í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar. Mörg þessara nýju sjálfstæðu ríkja voru nýlendur í þriðja heiminum, sem hlutu sjálfstæði frá stórveldunum. En hvað eru ríkin mörg? Árið 2001 var talan líklega 192.

Ef við skoðum skrá yfir aðildarlönd Sameinuðu Þjóðanna, kemur fram að þar eru nú 189 þjóðríki. Stundum er þessi tala notuð yfir fjölda sjálfstæðra landa en það er hins vegar ekki alveg rétt. Sviss, Vatíkanið og Tævan eru dæmi um lönd, sem virðast uppfylla flest skilyrði þess að geta kallast sjálfstæð en eru ekki í Sameinuðu þjóðunum. Sviss og Vatíkanið eru almennt viðurkennd sem sjálfstæð ríki, en bæði hafa kosið að standa utan Sameinuðu þjóðanna. Sjálfstæði Tævans er hins vegar ekki viðurkennt og reyndar umdeilt, bæði á Tævan og alþjóðlega. Tævan var fulltrúi Kína hjá Sameinuðu þjóðunum fram til 1971 þegar Kína tók sæti þess. Sjálfstæð lönd heimsins eru því 192 ef maður telur Tævan með.

Eins og sagt var í upphafi, er fjöldi landa breytilegur og þeim breytingum er langt því frá að vera lokið. Ýmsar þjóðir berjast fyrir sjálfstæði. Á undanförnum árum hefur til dæmis borið mikið á baráttu Palestínumanna fyrir heimalandi og sjálfstæði. Einnig má nefna að sjálfstæðishugmyndir hafa komið fram í Færeyjum, sem tilheyra Danmörku, Puerto Rico sem tilheyrir Bandaríkjunum og Tsjetsníu sem tilheyrir Rússlandi. Reyndar eru líka miklir möguleikar á að lönd eigi eftir að sameinast, og má þar helst nefna Norður- og Suður Kóreu. Allt frá því að landinu var skipt í kjölfar Kóreustríðsins árið 1953 hefur Norður-Kórea haft þá stefnu að ríkin eigi að sameinast. Sú skoðun hefur einnig notið síaukinna vinsælda meðal fólks í Suður-Kóreu. Til dæmis gengu íþróttamenn landanna undir sameiginlegum fána inn á Ólympíuleikvanginn á opnunarhátíðinni í Sydney, þótt þeir kepptu svo sitt í hvoru lagi.

Smáríkið Ísland
Ísland er smáríki, eins og reyndar flest ríki í heiminum, og hefur því fremur lítil völd í alþjóðamálum. Vegna þess hve þjóðin er fámenn, er hún mjög háð öðrum löndum, bæði í efnahagsmálum og stjórnmálum. Einkenni smáríkja er að þau eru fámenn, hernaðarlega vanmáttug og atvinnuvegir oft fremur einhæfir. Þetta þýðir að útflutningsvörur og þjónusta er oft einhæf í þessum ríkjum og þau þurfa að flytja inn stóran hluta af vörum sínum og hráefnum. Þessi ríki geta verið viðkvæm fyrir sveiflum í alþjóðaviðskiptum og utanríkisstefna þeirra einkennist oft af því sem gerist utan landamæra þeirra.

Lýsingin hér að ofan á vel við Íslendinga. Þeir eru háðir utanríkisverslun og hafa ekki burði til að verja sig ef ráðist er á þá. Sjávarafurðir eru helstu útflutningsvörurnar og þess vegna hefur útfærsla fiskveiðilögsögunnar verið mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga. Þótt sú útfærsla hafi kostað átök og spennu milli Íslendinga og annarra og voldugri ríkja, þá hafa þeir líka verið fyrirmynd annarra ríkja í þeim málum.

Styrkur ríkja
Öll ríki berjast fyrir hagsmunum sínum og því skiptir það þau miklu máli að geta varist öllum utanaðkomandi ógnunum. Mörg ríki hafa því lagt óhemju mikið upp úr því að koma á fót öflugum hervörnum innan landamæra sinna. Hugmyndin er að því öflugri vopn og því fleiri hermenn sem eru til staðar, þeim mun minni líkur eru á að önnur lönd freistist til að ráðast á þau. Nú á dögum skiptir fjöldi hermanna ekki öllu máli, heldur mun frekar öflug og flókin vopnakerfi svo sem flugvélar, eldflaugar og kjarnorkuvopn.

Öryggi hvers ríkis fer ekki einvörðungu eftir hæfileikum þess til að verja landamæri sín. Margar ríkisstjórnir nota mikið af auðæfum sínum til að hindra valdarán eða uppreisn innan eigin landamæra. Um víða veröld nota ríkisstjórnir hermenn eða lögreglumenn til að halda almenningi niðri. Hermennirnir eða lögreglumennirnir eru oft þekktir fyrir að nota óhemju harkalegar aðferðir við að berja á mótmælendum og andófsmönnum.

Þar sem það kostar óhemju mikið fé að hafa herafla og vopnabúr hafa fæst smáríki efni á öflugum her. Ísland er þar engin undantekning og þess vegna gekk landið í NATO eða Atlantshafsbandalagið árið 1949.