Tímatal

Íslam / Hátíðir / Tímatal

Sækja pdf-skjal

 

Múslimar fylgja tunglári en ekki sólári og því er árið hjá þeim 354 dagar. Hátíðir þeirra ber því ekki alltaf upp á sömu árstíðir. Múslimar nota einnig annað tímatal þar sem þeirra tími er talinn frá því Múhameð flúði frá Mekku til Medínu og stofnaði umma, hið íslamska trúarsamfélag.

Ferðin milli Mekku og Medínu nefnist Hijira og átti sér stað árið 622 e. Kr. Hægt er að lesa nánar um hana í kaflanum: Forsaga íslam > Frá Mekku til Medínu.

Íslamska tímatalið hefst á Hijira. Þar af leiðandi var árið eitt hjá múslimum árið 622 e. Kr. og tímatal þeirra er skammstafað e.H eða eftir Hijira. Í einu ári eru tólf mánuðir en hver mánuður samkvæmt íslamska tímatalinu er 29-30 dagar. Til að skýra þetta betur þá var árið 1428 e.H á sama tíma og árið 2007 e.Kr.

Hér fyrir neðan er stafræn tafla sem sýnir hvaða dagur er í dag samkvæmt íslömskum sið. Taflan uppfærir sig sjálf þannig að hún á alltaf að sýna rétta dagsetningu.

  • Helgimánuður eða muharram ul haram er fyrsti mánuður ársins og þá hefst nýtt ár í íslam.

  • Annar mánuður ársins er þagnarmánuður eða safar.

  • Því næst kemur fyrri vormánuður eða rabi ul awwalI en í þessum mánuði minnast margir múslimar fæðingar og andláts Múhameðs sem talinn er bera upp á sama dag. Sumir hafa það fyrir sið að skiptast á gjöfum og kveikja á kertum og reykelsi í tilefni dagsins.

  • Fjórði mánuðurinn nefnist seinni vormánuður eða rab ul akhir.

  • Þar á eftir er fyrri þurrkamánuður eða jamadi ul awwal og á eftir honum kemur seinni þurrkamánuður, aamadi ul akhir.

  • Í sjöunda mánuðinum sem heitir lotningarmánuður eða rajab  halda sumir múslimar upp á næturferð Múhameðs til Jerúsalem og sjöunda himinsins.

  • Áttundi mánuður ársins nefnist skiptingamánuður eða sha’aban.

  • Sá níundi er hitamánuður eða ramadhan og þá fasta múslimar allan mánuðinn frá sólarupprás til sólseturs. 27. dag hitamánaðar er nótt máttarins sem er hápunktur föstunnar en talið er að Múhameð hafi fengið sína fyrstu opinberun á nóttu máttarins.

  • Tíundi mánuður ársins heitir veiðimánuður eða shawwal en á fyrsta degi hans er föstuendahátíðin sem er næst helgasta hátíð múslima.

  • Þar á eftir kemur hvíldarmánuður eða dhul qadah.

  • Síðasti mánuður ársins er pílagrímsmánuður eða dhul hijja og í honum er helgasta hátíð múslima sem nefnist fórnarhátíðin.