Gyðingdómur / Hátíðir / Friðþægingardagurinn
Friðþægingardagurinn eða jom kippur er haldinn tíu dögum eftir nýársdaginn. Þessi dagur er helgastur allra helgidaga og því kallaður mesti hvíldardagurinn. Á þessum tíma biðjast gyðingar fyrir vegna synda sinna auk þess sem þeir fasta. Haldnar eru guðþjónustur í sýnagógunni allan daginn þar sem menn koma til að biðja Guð fyrirgefningar synda sinna.
En gyðingar líta svo á að Guð geti eingöngu fyrirgefið það sem þeir hafa gert á hans hlut. Ef þeir hafa gert eitthvað á hlut einhvers annars en Guðs verða þeir að leita beint til viðkomandi og óska eftir sátt og fyrirgefningu. Sá sem getur fengið fyrirgefningu Guðs verður einnig að vera tilbúinn að fyrirgefa öðrum.