Gyðingdómur / Síðari tímar / Stofnun Ísraelsríkis
Í gegnum aldirnar komu stundum fram hugmyndir um stofnun Ísraelsríkis að nýju. Sumir gyðingar litu svo á að eina lausnin væri að stofna sitt eigið ríki, Ísraelsríki í Palestínu, landinu sem Guð hafði gefið þeim samkvæmt Tóra. En á þeirri hugmynd byggist pólitísk stefna og hugmyndafræði Síonisma. Á tímum upplýsingastefnunnar Evrópu og útbreiðslu frjálslyndra sjónarmiða og umburðarlyndis gagnvart trúarbrögðum, lá hugmyndin þó í dvala. Flestir gyðingar vildu verða fullgildir þjóðfélagsþegnar í sínu heimalandi og margir aðlöguðust siðum þess og gengu jafnvel af trú sinni.
And-semitismi jókst hins vegar gífurlega á 19. öld og samfara því vöknuðu aftur þessar gömlu hugmyndir um ríki gyðinga í Ísrael. Þó svo að Síonismi sé að mörgu leyti tengdur trú gyðinga varð nútíma Síonismi til sem andsvar við þessum vaxandi and-semitisma í Evrópu á seinni hluta 19. aldar. Hægt er að lesa meira um ofsóknir á gyðingum í kaflanum: Tvístrun og ofsóknir gegn gyðingum.
Á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldin höfðu gyðingar flust aftur til Ísraels í töluverðum mæli og þegar hún hófst voru þeir um 30% íbúa landsins. 70% íbúanna voru hins vegar palestínskir arabar sem höfðu búið í landinu öldum saman. Mikil spenna myndaðist fljótlega á milli Palestínumanna og gyðinga í landinu sem leiddi til blóðugra bardaga.
Þegar heimstyrjöldinni lauk ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að gyðingar fengju að stofna sitt eigið ríki í Palestínu. Það varð að veruleika í maí árið 1948 er Sameinuðu þjóðirnar úthlutuðu gyðingum landsvæði í Palestínu og þeir tóku að flytjast þangað allstaðar að úr heiminum. Palestínumenn og arabísku nágrannaríkin neituðu hinsvegar að viðurkenna hið nýstofnaða Ísraelsríki og réðust á það daginn eftir stofnun þess. Ísraelsmenn unnu hinsvegar sigur í því stríði með þeim afleiðingum að mörg hundruð þúsund Palestínumanna misstu heimili sín og flúðu land. Það var fjærri því að þetta yrði endirinn á deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna.