Fyrsta kennslan

Búddadómur / Líf Siddharta Búdda / Fyrsta kennslan

Sækja pdf-skjal

 

Abraham Eftir að Búdda hafði öðlast uppljómun var hann uppfullur af hamingju og laus við allar áhyggjur og sársauka. Hann sat undir trénu í marga daga og hugleiddi það sem hann hafði lært. Hann velti því fyrir sér hvað hann ætti að gera næst, átti hann að halda þessari nýju visku sinni fyrir sjálfan sig eða átti hann að kenna öðrum það sem hann hafði lært. Við þessar hugleiðingar sá hann heiminn fyrir sér eins og lótus-tjörn þar sem mannfólkið var lótusblómin. Sumt fólk er eins og lokuðu blómin og ekki tilbúið fyrir kenningar hans en annað fólk er tilbúið að opna blómið og læra af honum.

Búdda ákvað því að fara og leita að fimm helgum mönnum sem höfðu fylgt honum þegar hann var meinlætamaður, en hann vildi kenna þeim fyrst. Eftir margra daga ferð fann hann þá í Dádýragarðinum. Þegar þeir sáu hann koma vildu þeir ekki tala við hann þar sem þeim fannst hann hafa svikið þá með því að yfirgefa þá. En þegar Búdda kom nær þeim sáu þeir að eitthvað einstakt hafði komið fyrir hann. Þeir gleymdu alveg að þeir höfðu ekki viljað tala við hann og fengu hann til að setjast hjá sér og gáfu honum vatn að drekka. Þetta kvöld kenndi Búdda í fyrsta sinn og sneri þar með Darmhahjólinu.

Búdda sagði þeim frá karma, að góðar gjörðir leiða mann frá þjáningunni að hamingjunni meðan illar gjörðir leiða til meiri þjáningar og óhamingju. Hann sagði þeim einnig að til að komast að sannleikanum yrðu þeir að skilja sannindin fern um lífið. Lífið er fullt af sársauka og ástæðan fyrir því er sú að fólk er of gráðugt. Það vill alltaf meira og meira. En það er leið til að stöðva sársaukann og finna frið. Sú leið er kölluð meðalvegurinn. „Hvernig fylgjum við þeim veg?“ spurðu mennirnir. Búdda sagði þeim að það væru átta skref á veginum: rétt skoðun, rétt stefna, rétt tal, rétt breytni, réttir lifnaðarhættir, rétt viðleitni, rétt íhugun og rétt einbeiting. Ef þeir fylgdu þeim leiddi það í átt að uppljómun.

Helgu mennirnir fimm sáu að Búdda hafði rétt fyrir sér og gerðust fylgismenn hans. Búdda ferðaðist ásamt fylgismönnum sínum um allt Indland og kenndi bæði fátækum og ríkum kenningar sínar og á þessum ferðum bættist sífellt í hóp fylgismanna hans sem hjálpuðu honum að breiða út boðskapinn. Þessi hópur karla og kvenna myndaði upphafið að klausturreglu búddasiðs: Sangha.