Búddadómur / Líf Siddharta Búdda / Uppljómunin
 
Siddharta ferðaðist lengi í leit að sannleikanum. Hann hafði heyrt um tvo mjög merka kennara sem hann vonaðist til að gætu kennt sér hvernig hægt væri að binda enda á þjáninguna. Hann fór til þeirra og bað þá að kenna sér. Fljótlega voru þeir búnir að kenna honum allt sem þeir vissu og hann hafði samt ekki fundið sannleikann svo hann hélt ferð sinni áfram.
Í landinu sem Siddharta bjó í lifðu sumir munkar sem meinlætamenn. Þeir trúðu því að með því að svelta sig eða pynta líkama sína myndu þeir endurfæðast í himnaríki, því meira sem þeir þjáðust í þessu lífi því meiri hamingju myndu þeir öðlast í því næsta. Siddharta slóst í för með hópi slíkra meinlætamanna en hann trúði því að ef hann æfði sig nógu mikið þá myndi hann öðlast uppljómun. Í sex ár var Siddharta mjög strangur við sjálfan sig og stundaði hugleiðslu, sjálfspyntingar og svelti sig nánast til dauða. Hann var orðinn svo horaður að fæturnir voru eins og bambusstangir, hryggurinn stakst eins og horn út úr bakinu og augun voru svo innfallin að þau líktust helst steinum á botni djúps brunns. Húðin var ekki lengur fallega gullin heldur svört og skorpin. Hann leit út eins og lifandi beinagrind og upplifði hræðilegan sársauka og hungur, en samt hélt hann áfram að hugleiða.
Þegar Siddharta hafði stundað þetta í sex ár, var líkami hans orðinn svo illa farinn að það leið yfir hann þar sem hann sat úti í skógi. Ungur geitahirðir átti leið um þar sem Siddharta lá, sá að hann var nær dauða en lífi og gaf honum geitamjólk að drekka. Þegar Siddharta rankaði við sér áttaði hann sig á að ef hann hefði ekki fengið mjólkina hefði hann dáið án þess að öðlast uppljómun og hann yrði að leita annarra leiða til að finna sannleikann.
Um kvöldið settist hann með krosslagða fætur undir Bodhi-trénu og hugsaði með sér að hann myndi ekki færa sig fyrr en hann hefði fundið sannleikann, hversu langan tíma sem það tæki. Svo lokaði hann augunum og byrjaði að hugleiða. Alla nóttina sat Siddharta í djúpri hugleiðslu. En hann fékk ekki að vera í friði. Hinn illi guð Mara nærðist á græðgi, hatri og fáfræði og hann vildi því ekki að Siddharta tækist að finna leið til að enda þjáninguna og reyndi því að stöðva hann. Fyrst bjó Mara til hræðilegan storm, nógu sterkan til að leggja bæ í rúst og sendi hann á Siddharta. En storminn lægði áður en hann náði til hans. Næst lét Mara rigna eldi og brennisteini yfir Siddharta, en ekki einn dropi snerti hann. Þá kallaði Mara fram heilan her af vondum öndum, djöflum og púkum og sagði þeim að ráðast á Siddharta. Herinn rauk öskrandi í átt að Siddharta þar sem hann sat rólegur undir Bodhi-trénu og réðst á hann með brennandi spjótum og eiturörvum en ekkert gat sært Siddharta.
Mara ákvað þá að prófa aðra leið svo hann hvíslaði í eyra Siddharta: „Af hverju ertu að eyða tímanum þínum svona? Saknarðu ekki fallegu konunnar þinnar og sonar þíns? Saknarðu ekki allra fínu eignanna þinna? Farðu aftur í höllina og hættu þessari vitleysu, þér verður aldrei neitt ágengt.“ Siddharta saknaði auðvitað fjölskyldu sinnar en hann gat ekki látið Mara freista sín svo að hann lét eins og hann heyrði ekki í honum. Hann snerti jörðina varlega til að fá styrk og stuðning frá henni og við það kom mikill jarðskjálfti og guðinn Mara flúði í angist sinni.
Þegar leið á nóttina fór Siddharta loks að finna svörin sem hann hafði leitað svo lengi að. Allt í einu sá hann sannleikann. Það var eins og að vakna af löngum, djúpum svefni. Það upplýstist fyrir honum hvernig allt líf er bundið lögum um orsök og afleiðingu eða karma og hann sá að góðar gjörðir leiða mann frá þjáningunni meðan illar gjörðir leiða til meiri þjáningar. Hann sá einnig að ástæðan fyrir þjáningunum er græðgi sem orsakast af því að menn telja sig vera merkilegri en allir aðrir. Nú vissi hann af hverju þjáningin stafaði og hvernig hann gæti hjálpað öðrum að sjá sannleikann og finna hamingju og frið, en hann var sjálfur algjörlega laus við girnd og neikvæðar langanir. Siddharta var orðinn Búdda, hinn uppljómaði, sem var frjáls frá þjáningum og endurfæðingu.
Í theravadastefnu búddadóms er talið að uppljómunin hafi orðið á sama degi og fæðing Búdda. Á þeim degi er einnig talið að hann hafi látist og er þessa þriggja atburða fagnað með Vesak hátíðinni.