Búddadómur / Kennisetningar og reglur / Hin fjögur göfugu sannindi
 
Eitt sinn kom maður að nafni Malunkyaputta til Búdda og sagði honum að hann vildi ekki hlusta á kenningar hans fyrr en hann hefði svarað nokkrum spurningum á borð við það hvernig heimurinn varð til og hvort Búdda verði enn til eftir dauða sinn. Búdda svaraði honum með því að líkja Malunkyaputta við mann sem hefði orðið fyrir eitraðri ör en vildi ekki láta draga hana úr fyrr en læknirinn segði honum úr hverju örin væri og hver hefði skotið henni. Innan búddadóms er því litið á allar slíkar hugleiðingar sem aukaatriði eða hégóma. Það eina sem skiptir máli er að einstaklingum sé hjálpað við að fjarlægja „ör þjáningarinnar“ og finna veginn til nirvana.
Kenningar Búdda um þjáninguna og leiðir til að losna undan henni kallast dharma og þegar hann kenndi í fyrsta sinn í Dádýragarðinum er oft talað um að hann hafi ýtt dharmahjólinu af stað. Þar hafi byrjað ferli sem átti eftir að umbreyta lífi milljóna manna. Grunninn að dharma er að finna í hinum fernu göfugu sannindum:
- Sannleikurinn um þjáningar. Allt í lífinu er þjáning. Við fæðumst, veikjumst, eldumst, deyjum og erum aðskilin frá ástvinum okkar. Allt veldur það þjáningum.
- Sannleikurinn um ástæður þjáninga. Ástæðan fyrir því að við þjáumst er sú að við höfum langanir og sækjumst sífellt í meira en við eigum.
- Sannleikurinn um endingu þjáninga. Maðurinn frelsast því frá þjáningunum með því að losa sig við fýsnir og langanir.
- Sannleikurinn um leiðina til að enda þjáningar. Leiðin til þess að losa sig við langanir og losa sig þannig við þjáningar er að feta göfuga áttfalda veginn.