Kynning
Kæru nemendur. Við búum í fjölbreyttum heimi þar sem fyrirfinnast margskonar mismunandi menningarheimar, siðir og átrúnaður. Við erum ekki öll eins. Okkur finnst ekki öllum sami maturinn góður eða sömu myndirnar skemmtilegar. Okkur langar ekki öll að vinna við það sama og við höfum mismunandi skoðanir á því hvað sé mikilvægt í lífinu. En við eigum flest sameiginlegt að vilja lifa saman í friði og sátt. Til þess að geta gert það þurfum við að skilja menningu, siði og trúarbrögð annarra og bera virðingu fyrir þeim. Með því sjáum við kannski að margt sem virðist í fyrstu ólíkt okkar siðum eða hugmyndum reynist mjög líkt þegar betur er að gáð.
Í þessu verkefni eigið þið að fara í hlutverk trúarbragðafræðinga. Framundan er stór heimsráðstefna fólks af mörgum mismunandi trúarbrögðum með yfirskriftinni: Lifum saman í friði.
Ykkur hefur verið falið það hlutverk að halda kynningu á búddadómi, en áður en þið getið það verðið þið að kynna ykkur vel hver Búdda var og út á hvað búddadómur gengur.
Verkefni
Þegar þið hafið aflað ykkur þeirra upplýsinga sem þið þurfið eigið þið að útbúa kynningu á búddadóm. Hér eru nokkrar tillögur um leiðir til að skila verkefninu. Athugið að velja leið í samvinnu við kennarann. Kannski hefur hann ákveðna leið í huga. Aðrar leiðir en hér er getið koma einnig til greina. Þið getið búið til:
-
hefðbundinn fyrirlestur þar sem þið útbúið PowerPoint glærur til að styðjast við
- heimildarmynd
-
kynningarbækling í forritinu Publisher
-
teiknimyndasögu um líf Búdda þar sem fram koma margskonar þættir sem tengjast átrúnaðinum
- kynningu sem er einhverskonar sambland af fyrri tillögum
Bjargir
Vefir
Trúarbragðavefurinn – Búddadómur
Þetta er aðal heimildarvefurinn okkar. Á honum er að finna flest allt sem þú þarft að vita um búddadóm. Á honum er einnig mikið af myndum og tenglum á aðra vefi með efni um búddadóm.
Bækur
Búddatrú - Leiðin til Nirvana eftir Sigurð Inga Ásgeirsson
Þetta er kennslubók um búddadóm fyrir miðstig grunnskóla. Rakin er saga Búdda og sagt frá kenningum hans. Þá eru lýsingar á helgisiðum, venjum og hátíðum, sagt frá útbreiðslu trúarbragðanna og hinum ýmsu stefnum þeirra. Einnig er greint frá íslenskum söfnuðum búddatrúarmanna.
Maðurinn og trúin eftir Gunnar J. Gunnarsson
Þetta er kennslubók fyrir unglingastig þar sem fjallað er um helstu trúarbrögð heims, gyðingdóm, kristni, íslam, hindúasið og búddadóm. Sagt er frá ýmsum öðrum trúarbrögðum og ólíkum lífsskoðunum. Áhersla er lögð á inntak trúarbragðanna og áhrif þeirra á daglegt líf og samfélag þeirra sem þau játa.
A faith like mine eftir Laura Buller
Þetta er barnabók þar sem börn segja frá trú sinni, siðum og menningu. Bókin er með fjölda fallegra ljósmynda, korta og dagatala. Bókin er á einfaldri ensku þannig að nemendur á miðstigi ættu alveg að geta nýtt sér hana.
Myndband
Búddatrú - Fræðslumynd eftir Sigurð Inga Ásgeirsson
Kennslumyndband fyrir grunnskólanemendur sem fjallar um búddadóm. Myndin sýnir m.a. helstu hreyfingar búddatrúarmanna hérlendis og segir frá íslenskri fjölskyldu sem játar trúna.
Ferli
-
Fyrst skiptir kennarinn ykkur í 5 manna hópa.
-
Þið lesið yfir þennan vefleiðangur, setjist svo saman og ræðið verkefnið. Berið saman bækur ykkar um hvað þið vitið nú þegar um búddadóm og hvaða skoðun þið hafið á því. Ræðið einnig hvað þið vitið ekki, hvað þið viljið vita og skrifið niður spurningar sem kunna að vakna.
-
Því næst ákveðið þið í samráði við kennarann hvernig þið viljið leysa verkefnið. Viljið þið halda fyrirlestur, búa til heimildarmynd, búa til teiknimyndasögu eða fræðslubækling? Ekki er víst að kennari geti boðið upp á allar þessar lausnir og því er mjög mikilvægt að velja í samráði við hann.
-
Þegar þið hafið ákveðið hvaða leið þið ætlið að fara skuluð þið skipta með ykkur verkum fyrir heimildaleitina. Þið skuluð öll lesa sögurnar af ævi Búdda, því þar er að finna grunninn að því að skilja inntak búddadóms. Hinum köflunum skuluð þið skipta á milli ykkar. Einn skoðar sögu átrúnaðarins og stöðu hans í dag, annar skoðar kennisetningar og reglur, þriðji skoðar tákn og mannvirki, fjórði skoðar helga staði og fimmti skoðar hátíðir og siði tengda búddadóm. Spurningunum sem þið skrifuðuð niður skuluð þið einnig skipta niður í samhengi við hvaða kafla hver tekur. Ef þið eruð t.d. með spurninguna: Hver er helsta hátíð búddadóms? þá er eðlilegast að sá sem ætlar að lesa kaflann um hátíðir sjái um að svara þeirri spurningu.
-
Hver fyrir sig skoðar nú efni sem tengist sínum köflum. Skoðið efni á Trúarbragðavefnum en einnig á öðrum björgum sem hafa verið tilgreindar. Ef þið vitið um eitthvað annað efni um búddadóm þá er ykkur einnig velkomið að nota það. Ef þið þekkið einhvern sem aðhyllist búddadóm þá væri einnig mjög gott hjá ykkur að tala við þann aðila.
-
Þegar þið eruð að skoða heimildir þá skuluð þið skrifa niður glósur um það sem þið finnið og safna einnig áhugaverðum myndum sem passa við efnið.
-
Þegar þið teljið ykkur hafa safnað nægu efni skuluð þið skipuleggja hvernig verkefnið ykkar verður uppbyggt. Það gerið þið með því til dæmis að búa til grind að kynningarbæklingi eða skrifa handrit að teiknimyndasögu eða stuttmynd. Berið þessar hugmyndir undir kennarann ykkar áður en þið haldið áfram.
-
Þegar kennarinn hefur samþykkt hugmyndir ykkar er kominn tími á lokavinnuna. Þið skuluð skipta með ykkur verkum og vinna að gerð þess efnis sem þarf fyrir ykkar framsetningu. Ef þið eruð með Power Point fyrirlestur þá útbúið þið glærur og texta fyrir fyrirlesturinn. Ef þið eruð með teiknmyndasögu þá teiknið þið myndir og skrifið hnitmiðaðan texta við. Ef þið eruð með bækling í Publisher þá skrifið þið textann og setjið hann upp. Ef þið eruð með stuttmynd þá takið þið upp atriði samkvæmt handriti og klippið þau saman.
-
Þegar verkefnið er tilbúið þá skilið þið því til kennarans á formi sem hann biður um. Það gæti t.d. verið útprentað, á geisladisk eða á netinu.
-
Að lokum verður kynning þar sem að allir hóparnir kynna sitt verkefni eða átrúnað, vonandi á sem fjölbreyttasta vegu.
Ráðleggingar
Eftirfarandi eru nokkrar spurningar sem gott er að hafa í huga þegar þið farið í rannsóknarvinnuna. Athugið þó að þær eru alls ekki tæmandi og það er margt fleira sem þið megið lesa og skrifa um:
-
Hver var Búdda og hvað varð til þess að hann varð upphafsmaður nýrra trúarbragða?
-
Hvernig breiddist búddadómur út og hvernig er staða hans í dag?
-
Hvernig er starfi búddista á Íslandi háttað?
-
Hver er grunnurinn að kennisetningu búddadóms? Hvað er Dharma, karma, hin fjögur göfugu sannindi, göfugi áttfaldi stígurinn og nirvana?
-
Hver eru helstu helgirit búddadóms og hvers eðlis eru þau?
-
Í hvaða meginstefnur skiftist búddadómur og hver er munurinn á þeim?
-
Hver eru helstu tákn innan búddadóms, hvers vegna og hvernig og hvar birtast þau okkur?
-
Hverjir eru helgustu staðir búddadóms og hversvegna?
-
Hverjar eru helstu hátíðir búddadóms, hversvegna og hvað gera búddistar á þeim?
-
Er eitthvað sem einkennir daglegt líf búddista og þá hvað?
-
Hvað gera búddistar þegar stórviðburðir eiga sér stað í lífi þeirra?
Einnig er æskilegt að eftirfarandi atriði eða eitthvað svipað þeim komi fram í kynningum ykkar:
-
Tillögur um hvernig hægt er að koma til móts við búddista á Íslandi.
-
Notið gagnrýna hugsun til að skýra hvað ykkur finnst um þá þætti búddadóms sem þið hafið verið að læra um?
-
Hafið þið séð áhrif frá búddadómi í vestrænni menningu, til dæmis í mannlífi, siðfræði, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum eða tónlist? Hvar og hvernig?
Mat
Þetta er hópverkefni og mun matið að mestu leyti taka mið af því. Niðurstöður ykkar verða því metnar í heild sinni og allir í hópnum fá sameiginlega einkunn. Þar verður tekið mið af hversu vel heimildirnar hafa verið nýttar, hversu skýrt efnið er framsett og hvort framsetningin sé fræðandi og/eða áhugaverð.
Niðurstaða
Að þessu verkefni loknu ættuð þið að vera fróðari um búddadóm og þekkja bæði sögur, siði og hluti sem honum tengjast. Með því hafið þið öðlast dýrmæta þekkingu á menningu og átrúnaði milljóna manna um gjörvallan heim. Þekking á siðum og menningu þeirra gerir ykkur kleift að skilja betur tilvísanir til búddadóms í kvikmyndum, tölvuleikjum og myndlist, auk þess sem hún getur auðveldað ykkur að eiga góð og skilningsrík samskipti við annað fólk.
Einnig ættuð þið að hafa þjálfast nokkuð í upplýsingaöflun á neti sem og framsetningu á efni með aðstoð upplýsingatækninnar.