Dharmahjólið

Búddadómur / Tákn og helgir dómar / Dharmahjólið

Sækja pdf-skjal

 

Dharmahjólið er alþjóðlegt tákn búddadóms. Hjólið er tákn lögmálsins um hina síendurteknu hringrás fæðingar og dauða. Hringurinn táknar fullkomleikann við dharmakenninguna. Miðdepillinn í hjólinu táknar agann sem er lykilatriðið við hugleiðslu. Gjörðin sem heldur stöngunum táknar einbeitinguna sem heldur öllu saman.

Eldri dharmahjól voru með mörgum stöngum, stundum 24 stöngum sem tákn um sólarhringinn og þannig tákn er einmitt á indverska fánanum (sjá tengil hér til hægri).

Nýrri útgáfur af hjólinu hafa ýmist fjórar stangir sem tákna hina fjóru stórviðburði í lífi Búdda eða með átta stangir sem tákna hinn göfuga áttfalda veg. Stangirnar ná stundum út fyrir hjólið og eru oddhvassar en það er tákn þess að dharmahjólið geti skorið sig í gegnum fáfræðina.

Dharmahjólið vísar einnig til þess að dharmakenningin breiðist út, frá landi til lands. Þannig byrjaði hjólið að rúlla í Indlandi, fór svo til Kína og þar næst til Kóreu og svo framvegis. Þannig er sagt að Búdda hafi ýtt dharmahjólinu af stað þegar hann, í garðinum í Sarnath, kenndi lærisveinum sínum megininntak dharmakenningar sinnar. Hægt er að lesa betur um það í kaflanum Líf Siddharta - Búdda > Fyrsta kennslan.