Búddadómur / Líf Siddharta Búdda / Indland á tímum Búdda
 
Á tímum Búdda skiptist Indland í mörg konungsríki og 16 konungsríki í Norður-Indlandi voru saman kölluð Mahajanapadas eða Konungsríkin miklu. Auk þess voru nokkur lítil ríki á svæðinu. Eitt þeirra var ríkið Sakyas þar sem foreldrar Búdda voru kóngur og drottning. Sakyas var staðsett rétt undir Himalayafjöllum, á landsvæði sem nú tilheyrir Nepal.
Á þessum tímum var hindúasiður ríkjandi á Indlandi en samkvæmt honum fæddist fólk inn í mismunandi stéttir. Fólk trúði því að það gæti ekki skipt um stétt í þessu lífi en að það sem það gerði í þessu lífi myndi hins vegar hafa áhrif á það í hvaða stétt það fæddist í næsta lífi. Stéttirnar voru fjórar og efstir og merkastir voru prestar og fræðimenn, næstir voru aðalsmenn og hermenn, því næst kaupmenn og bændur og neðstir voru þjónar og þrælar sem höfðu það hlutverk að þjóna hinum stéttunum. Auk þess var stór hópur manna sem tilheyrði ekki neinni stétt og voru þeir algjörlega réttindalausir og í raun útskúfaðir úr samfélaginu. Efstu stéttirnar nutu hins vegar mikilla forréttinda og voru taldar æðri þeim stéttum sem fyrir neðan voru.