Búddadómur / Líf Siddharta Búdda / Búdda deyr
Þegar Búdda varð 80 ára var líkami hans farinn að eldast og veikjast og hann vissi að hann ætti ekki langt eftir ólifað. Hann ákvað því að fara til Kushinagara, lítils, friðsams þorps í Norður-Indlandi og eyða þar síðustu dögum sínum. Þetta var langt ferðalag en hann ferðaðist þangað fótgangandi ásamt stórum hóp lærisveina sinna.
Á leiðinni hugaði Búdda að velferð klausturreglunnar Sangha. Hann gaf munkunum og nunnunum ráð um hvernig þau ættu að gæta þess að reglan myndi halda áfram eftir dauða hans og hann minnti þau á að fylgja öllum þeim boðum sem hann hafði kennt þeim.
Þegar nokkrir kílómetrar voru eftir til Kushinagara, þáðu þau öll mat að borða hjá manni að nafni Cunda sem hafði mikið fyrir matnum og stjanaði í kringum gesti sína. Stuttu eftir máltíðina varð Búdda hinsvegar mjög veikur. Hann ákvað því að drífa sig strax til Kushinagara og eftir erfiða ferð komst hann þreyttur og þjakaður að trjálundi rétt fyrir utan bæinn. Búdda baðaði sig í síðasta sinn í ánni Kakuttha og lagðist að því loknu milli tveggja skjólgóðra trjáa. Einn munkanna, Ananda, var mjög náinn Búdda og hafði verið með honum lengi. Hann tók mjög nærri sér að Búdda væri að deyja og grét sárt. Búdda sagði þá við hann: „Ekki gráta kæri Ananda. Hef ég ekki sagt þér oft og mörgum sinnum að við verðum öll að kveðja það sem okkur þykir vænt um? Hvernig gæti nokkuð sem hefur upphaf ekki haft endi? Slíkt er ekki hægt." Svo sagði Búdda Ananda að hann hefði verið dyggur fylgismaður og að ef hann héldi áfram á réttu brautinni þá myndi hann einnig öðlast uppljómun.
Um kvöldið ræddi Búdda svo við munkana sína í síðasta sinn og hans síðustu orð voru: „Hlustið á munkar því þetta eru mín síðustu ráð til ykkar. Allir þættir heimsins eru breytanlegir. Þeir endast ekki lengi. Vinnið hart að því að öðlast ykkar eigin lausn.“
Þar sem Búdda lá undir trjánum felldu þau blóm sín yfir Búdda honum til virðingar og um nóttina féll hann í djúpan dásvefn og hvarf að lokum í paranirvana, hinn fullkomna frið.
Dauði Búdda eða hið endanlega nirvana átti sér stað árið 543 f. Kr. á fullu tungli í maí mánuði. Í theravadastefnu búddadóms er sagt að Búdda hafi látist á sama degi og fæðing hans og uppljómun varð og er því fagnað með Vesak hátíðinni.