Búddadómur / Siðir / Hátíðir
 
Margar trúarhátíðir búddadóms tengjast atburðum í lífi Búdda en einnig geta hátíðarhöld verið tileinkuð sérstökum helgidómum, til að vegsama mikilvægar kennisetningar eða til að halda upp á merka sögulega atburði. Það er hins vegar mjög mismunandi milli theravadastefnunnar og mahayanstefnunnar hvaða hátíðir eru haldnar. Hátíðir geta einnig verið mismunandi milli landa og í sumum löndum eru margar skrautlegar og líflegar hátíðir. Dagatal búddista miðast við tunglmánuðinn og eru trúarhátíðir yfirleitt haldnar á fullu tungli.
Eftirfarandi hátíðir eru einkum mikilvægar hjá theravadastefnunni og er haldið upp á þær hjá Búdd istafélagi Íslands:
Magha Puja hátíðin, öðru nafni Sangha dagur, er haldin á fullu tungli þriðja tunglmánaðar. Þetta er hátíð til heiðurs Sangha munkareglunni.
Vesak hátíðin er stærsta og mikilvægasta hátíð theravastefnunnar. Á þessum degi er fæðingu, uppljómun og dauða Búdda fagnað. Hátíð þessi er haldin á fullu tungli 6. tunglmánaðar, Vesak-mánaðar sem er yfirleitt í maí mánuði.
Asalha Puja hátíðin er haldin á fullu tungli í 8. tunglmánuði, sem er júlí eða ágúst á Íslandi. Þá minnast þeir fyrstu ræðu Búdda í Dádýragarðinum. Á þessum tíma hefst regntímabilið í Suður-Asíu og hefð er fyrir því að munkar dragi sig í hlé inn í hofin yfir regntímann.
Ok Phansa eða Pavarana hátíðin er haldin þegar regntímanum lýkur. Í 10. tunglmánuði koma munkarnir aftur út á meðal manna og þá er mikil fagnaðarhátíð þar sem fólk fer til munkanna og færir þeim fórnargjafir, svo sem klæði og aðra hluti fyrir klausturlífið.
Ef þessar hátíðir lenda á virkum degi eru hátíðarhöld á Íslandi yfirleitt færð fram á næsta laugardag. Hátíðarhöldin eru öll með mjög svipuðu sniði. Búdd istar safnast saman í búddamusterinu, færa munkunum mat og blóm og spjalla saman á meðan munkarnir borða. Þegar þeir hafa lokið máli sínu þá má fólkið einnig borða en það þykir mikill heiður að borða á eftir munkum. Síðan tóna munkarnir ritningavers úr helgiritunum og minna fólk á að lifa í friði við allt og alla. Á Vesak-hátíðinni fer söfnuðurinn einnig í göngu að búddastúpunni í Kópavogi þar sem gengnir eru þrír hringir í kringum stúpuna með blóm í höndunum. Einn hringur er fyrir Búdda sjálfan, einn er fyrir kenningar hans eða dharmakenninguna og einn er fyrir munkaregluna eða sangha. Blómin eru til að minna á að það að alveg eins og blómin visna fljótt og deyja þá munum við einnig öll deyja og hverfa frá, því ekkert endist að eilífu.