Kushinagara - Dauðinn

Búddadómur / Helgir staðir / Kushinagara - Dauðinn

Sækja pdf-skjal

 

Bærinn Kushinagara í Norður-Indlandi  er mikilvægur pílagrímsstaður fyrir búddista vegna þess að það var þar sem að Búdda dó eða öðlaðist paranirvana, endanlega lausn. Í Kushinagara eru margar fornar stúpur frá því á upphafstíma búddadóms sem blómstraði á þessu svæði. Síðar féll bærinn í gleymsku, nafn hans breyttist úr Kushinagara í Kasia og fólk gleymdi því að þetta væri staðurinn þar sem Búdda dó. Við fornleifauppgröfta á 19. öld uppgötvaðist svo að Kasia er hin forna Kushinagara og í dag er þetta bæði vinsæll pílagrímsstaður og ferðastaður.  Búddistar frá ýmsum löndum hafa byggt fjölmörg musteri í Kushinagara við hlið rústa af gömlu stúpunum og musterunum.

Vinsælasti staðurinn til að heimsækja í Kushinagara eru Mahaparinirvana stúpan sem er umkringd rústum fornra mustera en hún er sögð vera byggð á staðnum þar sem Búdda öðlaðist paranirvana. Inni í henni er fræg 6,1 metra löng, 1500 ára gömul stytta af Búdda þar sem hann liggur og er að öðlast paranirvana. Hægt er að lesa meira um slíkar styttur eða líkneski í kaflanum Tákn og helgir dómar  > Búddalíkneski.

Staðurinn þar sem lík Búdda var brennt er í aðeins 1,6 km fjarlægð frá Mahaparinirvana stúpunni og er einnig vinsæll staður til að heimsækja.

Eftir að Búdda dó var líkami hans brenndur eins og er siður á Indlandi.  Askan og þær jarðnesku leifar Búdda sem voru eftir svo sem tennur og höfuðkúpubein var safnað saman sem helgum dómum. Þeim var skipt í átta hluta og dreift á átta staði á Norður-Indlandi. Síðar skipti Ashoka Indlandskonungur þeim aftur upp þegar hann ákvað að byggja 84 þúsund stúpur um allt landið. Í dag eru þessar leifar varðveittar í fjölmörgum stúpum um alla Asíu.