Kristni / Kennisetningar og reglur / Jesús Kristur
 
Jesú Kristur er þungamiðja kristinnar trúar. Hann var sendur af Guði til að frelsa mannkynið undan syndum þess. Samkvæmt trúnni er Jesús sá Messías sem spáð er fyrir í Gamla testamentinu. Hann er frelsarinn. Orðið Messías er hebreskt og merkir hinn smurði. Á grísku merkir christos hinn smurði. Því var Jesús nefndur Jesú Kristur af lærisveinum sínum því þeir trúðu að hann væri sá Messías sem Gamla testamentið boðaði. Þar af leiðandi eru þeir sem á hann trúa kristnir. Konungar voru á þessum tímum æðstu embættismenn þjóðanna og þegar þeir urðu konungar voru þeir smurðir sem merki um að þeir væru útvaldir. Á þeim tíma þegar Jesús fæðist höfðu Ísraelsmenn beðið lengi eftir því að hinn útvaldi kæmi og frelsaði þá undan oki Rómverja. Mörg önnur trúarbrögð viðurkenna að Jesús hafi verið uppi og verið spámaður en ekki að hann hafi verið sonur Guðs en það er einmitt þessi skilgreining sem skilur kristna trú frá öðrum. Samkvæmt Biblíunni var Jesú sendur af Guði. Honum var gefið líf af heilögum anda og eftir fæðingu hans var bæði vitringum og fjárhirðum sagt frá fæðingu hans og hvar hann væri að finna. Jesús þótti snemma hafa góðan skilning á trúarritum Ísraelsmanna og tók virkan þátt í trúarlífi þeirra. Hann hafði þó annan skilning á þeim heldur en trúarleiðtogarnir. Hann kenndi, læknaði og sýndi sjálfur í verki hvernig ætti að lifa samkvæmt Guði. Þegar hann talaði til fólksins notaði hann oft dæmisögur til að útskýra hvernig ætti að bregðast við ýmsum aðstæðum og erfiðleikum sem koma upp í samfélaginu og manna á milli.
Jesús lagði áherslu á fyrirgefningu syndanna, að ekki ætti að dæma aðra af gjörðum þeirra heldur sýna í verki kærleika til allra manna. Þeir sem gerðu það myndu öðlast eilíft líf í Guðsríki. Upprisa Jesú Krists er því táknræn og grundvallaratriði í kristinni trú. Hún staðfesti endanlega að hann var Messías, sonur Guðs og Guðsríki væri til. Þeir sem trúa því og lifa í nafni hans öðlast því eilíft líf í himnaríki.
Í Jóhannesar guðspjalli Nýja testamentisins er lítið vers sem hljóðar svona:
„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn eingetinn, tilþess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jóh3.16).
Þetta vers er stundum nefnt litla Biblían því þar stendur einmitt það sem mestu máli skiptir í kristinni trú.