Boðorð og siðaboðskapur

Kristni / Kennisetningar og reglur / Boðorð og siðaboðskapur

Sækja pdf-skjal

 

Boðorð og siðaboðskapur Innan kristninnar eru ákveðnar grundvallarreglur sem kristnum mönnum ber að fara eftir. Þessar reglur nefnast boðorðin tíu. Í Gamla testamenti Biblíunnar segir frá því þegar Guð birtist Móse á Sínaí-fjalli og opinberaði honum boðorðin tíu og því eru þau orð Guðs. Boðorðin segja manninum hvernig honum beri að haga sér gagnvart Guði, fjölskyldu og samfélaginu. Þessar grundvallarreglur hafa lítið breyst í aldanna rás og eru að mestu leyti eins innan allra kristinna kirkjudeilda.

Í Nýja testamentinu er talað um hið tvöfalda kærleiksboðorð. Kærleikurinn er grundvöllur kristilegs siðgæðis og daglegt líf kristinna manna á að snúast um kærleiksþjónustu við Guð og náungann. Jesú Kristur sýndi það sjálfur í verki og var því fyrirmynd að því sem hann kenndi lærisveinum sínum. Samkvæmt Jesú á hið daglega líf að snúast um þessi boðorð.

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Lk10.27).

Með því að hafa kærleikann að leiðarljósi uppfylla kristnir menn boðorðin tíu sem Guð opinberaði Móse og fylgt hafa gyðingum og kristnum mönnum í gegnum aldirnar.