Búddadómur / Kennisetningar og reglur / Demantarnir þrír
 
Til að verða búddisti þarf maður að fara með trúarjátningu búddista sem inniheldur demantana þrjá. Algengt er að búddistar fari með trúarjátninguna þegar þeir stunda íhugun. Hún er á þessa leið:
Athvarf mitt er Búdda,
athvarf mitt er Dharma
athvarf mitt er Sangha.
Demantarnir þrír eru þrjár hliðar búddadóms sem saman mynda kjarna hans. Fyrsti demanturinn er Búdda sjálfur, kenning hans og uppljómun. Að hafa Búdda að athvarfi merkir þá að vilja læra kenningu hans og fara eftir henni. Annar demanturinn er Dharma, kenningin eða það sem leiðir manninn til uppljómunarinnar. Þriðji demanturinn er Sangha, samfélag munka og nunna sem að veitir einstaklingnum skjól til að leita sannleikans og ganga hinn áttfalda veg Búdda.
Að hafa demantana þrjá að athvarfi sínu merkir því í raun að maður lofi sjálfum sér að fylgja kenningum og siðaboðskap Búdda.