Verkefni:
verkefni 1
Verkefni 2

Ítarefni:
Áhrif fjölmiðla
Breytingar á ...
Einkatölvan
Er fylgst með okkur?
Fjölmiðlar
Fréttir og viðmið
Fréttir segja ...
Í fréttum er ...
Gagnvirkni og
sýndarveruleiki

Hvað er frétt?
Netið
Notkun upplýsinga
Sigur tölvunnar
Skráning og
notkun upplýsinga

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XUpplýsingasamfélagið
  Hvað er frétt?
 
Eftirfarandi svar birtist á Vísindavef Háskóla Íslands við spurningunni: Hvað er frétt?

Tilraun til skilgreiningar er á þá leið að frétt er frásögn af atburði eða fyrirbæri sem almenning varðar um og ekki var áður kunnugt um. Einnig þarf að haga hugfast að fréttamaðurinn velur þá atburði sem hann fjallar um og mótar fréttina þó að hann fylgi þá oftast hefðum. Hann velur fréttaefnið eftir mikilvægi og sannleiksgildi og honum ber að gæta óhlutdrægni, jafnvægis og sanngirni. Fleiri forsendur frétta og vandkvæði við val þeirra og framsetningu eru nefndar í svarinu.

Engin frétt er sjálfgefin.
Fréttaflutningur er mikilvægasta hlutverk fjölmiðlanna; um það munu flestir sammála. Þetta mat endurspeglast meðal annars í því að fréttir munu vera algengasta viðfangsefni fjölmiðlarannsókna. Í ljósi þessa er það umhugsunarvert að fræðimenn eiga ekkert einhlítt svar við spurningunni um það hvað sé frétt. Svipaða sögu er reyndar að segja af fréttamönnum og blaðamönnum. Ef þessi spurning er borin undir þá hneigjast þeir oft til að svara með tilvísun í það sem stundum er nefnt fréttanef og er innbyggð eða áunnin tilfinning fyrir fréttnæmi. Hér skal sett fram skilgreining, sem þó nær fremur skammt:

Frétt er frásögn af atburði eða fyrirbæri sem almenning varðar um og ekki var áður kunnugt um.

Hafa þarf hugfast að engin frétt bíður fréttamannsins fullmótuð og tilbúin líkt og þroskaður ávöxtur á tré og ekki má heldur gleyma að engin frétt er þannig að hana megi aðeins segja á einn veg. Fréttin er ekki til fyrr en fréttamaðurinn hefur skapað hana. Frétt er aldrei sjálfgefin og því er það ákaflega villandi sem stundum er haldið fram að fréttir séu "spegill veruleikans." Nokkur atriði valda því.

1: Fréttamat felur í sér val og höfnun
Í fyrsta lagi fer fram val: Einungis örlítið brot af öllum þeim aragrúa viðburða sem almenning getur varðað um rúmast á fréttasíðum dagblaða eða í fréttatímum ljósvakamiðlanna. Fréttastjórinn og fréttamaðurinn standa frammi fyrir því á hverjum degi að hafna margfalt fleiri fréttum en þeir birta. Þannig mætti með nokkurri kaldhæðni segja að fréttamaðurinn sé sífellt í því lítt öfundsverða hlutverki að stöðva fréttir. Sýnt hefur verið fram á að að valið (og þar með höfnunin) lýtur ákveðnum reglum eða forsendum sem eftir atvikum eru meðvitaðar eða ómeðvitaðar. Þær valda því að sumir atburðir sem tvímælalaust mundu falla undir fyrrgreinda skilgreiningu á frétt geta lent utangarðs hjá fréttmiðlunum. Vikið verður að þessum forsendum undir lokin á þessum pistli.

2: Samning fréttar fylgir hefðum og venjum
Í öðru lagi fylgir fréttamaðurinn ákveðnum venjum og hefðum við samningu fréttarinnar. Þær hafa skapast á vinnustað hans, hjá starfsstéttinni og í hinu víðara menningarumhverfi. Meðal þeirra markmiða sem fréttamaður hefur í huga við samningu fréttar og flestum þykja líklega sjálfsögð má nefna mikilvægi, sannsögli, óhlutdrægni, jafnvægi og sanngirni. En þótt þannig megi benda á lágmarkskröfur til fréttamanns sem nokkur eining ríkir um er ekki þar með sagt að það sé heiglum hent að fylgja þeim.

Mikilvægi atburðar er höfuðforsenda þess að fréttamaðurinn ákveður að gera um hann frétt. En hvað er mikilvægt? Stundum blasir það við en mjög oft er mikilvægið í rauninni fullkomið álitamál þar sem sitt sýnist hverjum og þá er fréttamaðurinn í hlutverki hliðvarðarins; hann hleypir einum atburði í gegnum hliðið, en lokar á annan. Notandi fjölmiðilsins fær einungis vitneskju um það sem hleypt er í gegnum hliðið, allt hitt er kæft með þögninni eins og fyrr greinir. Þess vegna veltur æðimikið á því að mat fréttamannsins á mikilvægi atburða sé byggt á skýrum grundvallarforsendum og að það sé í einhverjum mæli í samræmi við mat almennings. Mikilvægi kemur að sjálfsögðu einnig við sögu í frásagnarmátanum og áherslumun innan fréttarinnar.

Til þess að geta sagt satt verður fréttamaðurinn að hafa áreiðanlegar upplýsingar, en þær fær hann sjaldnast milliliðalaust. Oftar en ekki koma þær frá heimildarmönnum sem hafa meðvitaðra eða ómeðvitaðra hagsmuna að gæta. Góður fréttamaður reynir að bæta úr þessu með því að leita heimilda úr ólíkum áttum og vinna úr þeim með sjálfstæðum hætti, en hann kemst samt aldrei fram hjá því að hann er að segja sögu sem hann þekkir einungis að hluta til af eigin raun eða jafnvel alls ekki.

Ýtrustu kröfur um óhlutdrægni fela í sér að fréttamaðurinn útiloki eigin hagsmuni, skoðanir, hugsjónir, fordóma og smekk en leyfi hinu fréttnæma viðfangsefni að njóta sín á forsendum sem eru óháðar persónu hans. Slíkt er hverjum manni um megn, og því er mjög mikilvægt fyrir fréttamanninn að horfast af einurð í augu við persónuleg sérkenni sín og gera sér grein fyrir áhrifum þeirra á dagleg störf sín.

Jafnvægismarkmiðið lýtur að nauðsyn þess að gera öllum þáttum sögu eða atburðarásar sem máli skipta jafnhátt undir höfði. Jafnvægisleysi getur laumast inn í frétt ef höfundi hennar sést yfir eina eða fleiri hliðar hennar, hversu góð skil sem hann annars gerir þeim atriðum sem hann hefur veitt athygli.

Sanngirniskrafan snýst meðal annars um að fréttamaðurinn misbjóði ekki tilfinningum og virðingu fólks, bæði þeirra sem fjallað er um í frétt og þeirra sem lesa, hlusta eða horfa á fréttina. Vissulega getur fréttamaður fundið sig knúinn til hörku og óvægni við fréttaflutning, en sanngirniskrafan snýst um að ekki skuli gripið til slíkrar háttsemi nema ríkt tilefni hafi gefist.

Eins og sjá má af þessum kröfum eru þær nánast ofurmannlegar; við getum með öðrum orðum slegið því föstu að enginn fréttamaður geti fullnægt þeim svo að öllum líki hverju sinni. Þetta er hollt að hafa í huga.

3: Áhrif eignarhalds
Í þriðja lagi starfa nær allir fréttamenn á fjölmiðli sem er í eigu einhvers annars en þeirra sjálfra. Eigandinn, hvort sem hann er lögaðili eða einstaklingur, á afkomu sína undir því að reksturinn gangi vel. Þess utan eru hugsjónir og hugmyndafræði ríkur þáttur í tilverugrundvelli mjög margra fjölmiðla. Í ljósi þessara ríku hagsmuna er fráleitt að halda því fram, sem stundum heyrist, að fréttamiðill geti verið algerlega óháður eiganda sínum; þar fari fram sjálfstætt og óháð fréttamat. Það er einfaldlega draumsýn. Íslenskir fjölmiðlastarfsmenn, líkt og starfssystkin þeirra í öðrum löndum, hafa töluverðan metnað til að höndla þessa geðþekku draumsýn. Þeir geta vissulega nálgast hana og þeim ber sannarlega að gera það, en það væri háskalegur misskilningur að gera sér í hugarlund, og reyna að telja almenningi trú um, að unnt sé að gera drauminn fullkomlega að veruleika.

4. Fréttaforsendur
Um miðjan 7. áratug 20. aldar kynntu tveir norskir fræðimenn, Johan Galtung og Mari Holmboe Ruge, niðurstöður úr reynsluathugunum, um forsendur þess að atburður leiði til fréttar. Ábendingar Galtungs og Ruge þykja enn mjög gagnlegar til að skýra fréttamat í okkar heimshluta. Ekki er svo að skilja að þau leggi blessun sína yfir forsendurnar sem þau fundu, heldur vildu þau þvert á móti draga þær fram í dagsljósið til að fréttamenn gætu metið þær á sjálfstæðan og gagnrýninn hátt og ættu auðveldara með að víkja frá þeim ef þeim sýndist svo. Meðal þess sem Galtung og Ruge komust að var eftirfarandi.
· Atburður sem hefst og lýkur innan tímamarka einnar útgáfu fréttamiðils verður frekar tilefni fréttar en atburður sem tekur lengri tíma. Tímamörk flestra fréttamiðla eru sjaldnast víðari en 24 klukkustundir og því eiga til dæmis flugslys, úrslit knattspyrnuleikja eða jarðskjálftar greiðari leið að fréttamiðlunum en langvarandi hungursneyð, eyðing regnskóganna eða hefðbundin rányrkja auðlinda. Allt er þetta verðugt fréttaefni samkvæmt skilgreiningunni, en engin leið er að segja að fyrrtöldu dæmin eigi í raun meira erindi við okkur eða séu afdrifaríkari en hin síðartöldu.
· Sennilegur atburður og atburður sem er í tengslum við eitthvað sem þegar er kunnugt um verður frekar tilefni fréttar en atburður sem þykir ósennilegur eða er án samhengis við undanfarandi fréttaflutning.

Taka má dæmi af heimilisofbeldi og kynferðisbrotum gegn börnum. Tiltölulega stutt er um liðið frá því að slík háttsemi varð að fréttaefni. Skýringin virðist hafa legið í því að fréttamönnum, stjórnvöldum og almenningi hafi verið um megn að horfast í augu við þessa hluti og þeir hafi því afgreitt þá með því að láta eins og þeir væru naumast til. Þegar þetta breyttist (hugsanlega vegna aukinnar upplýsingar og vaxandi réttlætiskenndar) hófst hins vegar öflug opinber umræða um þessi vandamál sem eru nú viðurkennd sem alvarleg þjóðfélagsmeinsemd.

Annað dæmi er ólöglegt brottkast undirmálsfisks á Íslandsmiðum. Kviksögur höfðu gengið manna á meðal um margra ára skeið um stórfelld brot og stöku sinnum höfðu þær ratað inn á fréttasíður og í fréttatíma, einungis til að verða umsvifalaust kveðnar í kútinn eða þagaðar í hel. Sumarið 2000 gerðist það svo mjög snögglega að slík ásökun var tekin alvarlega og þá var eins og við manninn mælt að umræðan í fjölmiðlum fór af stað eins og flóðgátt hefði opnast.

Í báðum þessum tilvikum varð hið ósegjanlega allt í einu segjanlegt og afleiðingin var sú að rót komst á hugi manna og óöryggi og óvissa skapaðist um siðferðislegt og efnahagslegt umhverfi okkar. Í raun felur þessi fréttaforsenda, að atburður skuli að vera sennilegur og í tengslum við kunnuglega hluti, það í sér að hlutverk fréttamiðla sé ekki endilega að segja frá nýmælum og breytingum, heldur ekki síður að minna okkur á að allt sé með kyrrum kjörum og heimurinn sé sjálfum sér líkur.
· Nálægir atburðir verða frekar fréttaefni en fjarlægir; ríkar þjóðir verða frekar fréttaefni en fátækar; einstaklingar verða frekar fréttaefni en málefni; neikvæðir atburðir verða frekar fréttaefni en jákvæðir atburðir. Með svolítilli einföldun táknar þetta að því fjarlægari sem atburðurinn er og því fátækari sem þjóðin er, því hræðilegri verður hann að vera til að falla að fréttamati fjölmiðlanna og helst verður að vera unnt að tengja hann tilteknum persónum fremur en almennum skilyrðum.

Eins og sjá má getur verið erfitt að fjalla um fréttir án þess að einhverra þversagna gæti. Þetta stafar af því að hlutverk frétta eru í raun tvenns konar eins og ég hef leitast við að sýna fram á: Annars vegar eru þær okkur til hjálpar við að mæta hinu óvænta og styðja okkur í að bregðast við breytingum í róti heimsins. Hins vegar eru þær dagleg upprifjun og endursköpun þeirrar heimsmyndar sem búið er að venja okkur við.

Þorbjörn Broddason,
prófessor í félagsfræði við HÍ