Verkefni:
verkefni 1
Verkefni 2

Ítarefni:
Áhrif fjölmiðla
Breytingar á ...
Einkatölvan
Er fylgst með okkur?
Fjölmiðlar
Fréttir og viðmið
Fréttir segja ...
Í fréttum er ...
Gagnvirkni og
sýndarveruleiki

Hvað er frétt?
Netið
Notkun upplýsinga
Sigur tölvunnar
Skráning og
notkun upplýsinga

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XUpplýsingasamfélagið
  Í fréttum er þetta helst
 

Mikill er máttur fjölmiðlanna. Þeir eru búnir að viðhalda þjóðsögunni um að þjóðarbúið sé á hausnum og að unglingar séu villidýr svo lengi sem ég man eftir mér. Þetta kemur þó ekki svo voðalega að sök í mínu tilfelli eða annars nútímafólks því við höfum lært að taka þessum upplýsingum með varúð. En eldra fólk á erfitt með að átta sig á hinni nýju fjölmiðlun því það er alið upp við þann hugsunarhátt að allt sem birtist á prenti sé satt og rétt samanber máltækið að eitthvað standi eins og stafur á bók. Sagan sem ég ætla að segja er um tvær gamlar konur og hremmingar sem þær lentu í. Við getum kallað þær Gunnu og Viggu enda eru það ágætis nöfn og oft notuð á gamlar konur í íslenskum bókmenntum. Þessar tvær ágætu konur þurftu að komast leiðar sinnar einn kaldan vetrardag og ásetningur þeirra var að nota til þess strætisvagn. Á biðstöð strætisvagnsins var þar til gert biðskýli til að fólk gæti staðið af sér verstu veður og þetta biðskýli ætlaði Vigga umsvifalaust að notfæra sér, en Gunna aftraði henni inngöngu.

-Ertu orðin vitlaus manneskja? spurði hún. Það er stórhættulegur lýður sem heldur til þarna. Við bíðum úti.

-Það hefur aldrei neitt komið fyrir mig, svaraði Vigga.
-Ætlarðu að segja mér að þú stígir fæti þarna inn? spurði Gunna. Ég held að þú sért ekki almennileg.

Þær stóðu því fyrir utan skýlið og skulfu. En að lokum lét Gunna undan kuldanum og fortölum Viggu sem gat sannfært hana um að engin væri í skýlinu og þetta yrði allt í lagi. En hún lét þess getið að glæpalýðurinn væri ekki langt undan. Hann lægi eflaust í leyni og biði þess að eitthver glæptist til að fara inn og að ef hún yrði drepin væri það á ábyrgð Viggu.

-Þetta er nú eitthvað annað, sagði Vigga þegar þær voru sestar inn í hlýjuna. Hvað ætti að geta gerst um hábjartan daginn?

-Hvað er þetta manneskja, sagði Gunna. Lestu ekki blöðin? Veistu ekki hvernig unga fólkið er orðið? Þetta er allt í eitri. Svo rænir það gamlar konur og börn til að eiga fyrir eitrinu. Og kynferðisglæpirnir! Maður er hvergi óhultur fyrir þeim.

-Varla hefur neinn áhuga á gömlum kerlingarskrukkum eins og okkur, sagði Vigga og var pínulítið farin að efast um öryggi biðskýlisins.
-Þeir spyrja ekki um aldur, nauðgararnir, mælti Gunna af þunga, ónei, ónei. Það er auðséð að þú fylgist ekkert með. Lastu ekki það sem lögreglumaðurinn var að segja í blöðunum að allir eiturlyfjaneytendur væru vopnaðir nú orðið og svifust einskis?

Þegar hér var komið sögu stukku nokkrir unglingar inn í biðskýlið í þeim erindagjörðum að bíða eftir strætisvagni, en unglingar, börn og gamalt fólk eru þau einu sem nota strætisvagnana. Við hin silumst í gegnum umferðarhnúta samtíðarinnar á einkabílum. Það hefði því ekki átt að koma þeim Gunnu og Viggu á óvart að rekast á þennan glaða hóp en þær hrukku í kút og Gunnu greip dauðans angist.

Krakkarnir voru að koma úr bíó og styttu sér stundir við að leika eftir helstu slagsmálasenur úr myndinni. Eins og allir tápmiklir unglingar höfðu þeir gaman að hressilegum ofbeldismyndum án þess að þeir væru sérlega ofbeldissinnaðir sjálfir.

Gömlu konurnar létu lítið á sér bera því þeim fannst líf sitt liggja við. Gunna lét þau orð falla að nú væri úti um þær og hún væri með allan ellistyrkinn í veskinu sínu.

Viggu leist ekki á fyrirganginn í unglingunum enda heyrnin farin að gefa sig og hún heyrði ekki orðaskil og var því fyrirmunað að skilja að þetta væri bara leikur.

Sennilega hefði allt farið vel ef einn unglingurinn hefði ekki langað til að vita hvað klukkan væri. Þá hefðu gömlu konurnar geta sagt frá lífsháska sínum í félagsvist safnaðarfélagsins en unglingarnir farið sína leið án þess að taka eftir þeim. En þar sem enginn unglinganna hafði klukku gengu þeir yfir til Gunnu og Viggu til að komast að því hvað tímanum liði.

Þegar Gunna sá þau nálgast þutu ótal fyrirsagnir úr gulu pressunni í gegnum huga hennar. Gamall maður rændur á Hverfisgötunni. Ölvaðir unglingar leggja gamalt fólk í einelti. Vopnaðir flokkar ungra eiturlyfjaneytenda fara um með ránum og gripdeildum. Og svo framvegis.

Gunna vissi að nú var að duga eða drepast. Hún hóf upp regnhlífina sína og æpti: Komið ekki nálægt mér!

-Hvað er að kerlingunni? spurði einn unglingurinn. Er hún eitthvað rugluð?
-Hjálp morð! Nauðgun! Hjálp lögregla! æpti Gunna og hné í ómegin.
Unglingunum stóð ekki á sama. Þeir höfðu allir lært hjálp í viðlögum í skólanum og ætluðu að leggja Gunnu í réttar stellingar og hlúa að henni. En þegar Vigga sá þau beygja sig yfir hana sá hún í hendi sér að vinkona hennar hafði haft á réttu að standa og til að afstýra ráni eða morði æddi hún inn í miðjan hópinn og barði hraustlega frá sér með veskinu sínu en unglingarnir hrökkluðust undan. Líklega hefði Vigga leikið unglingana grátt hefði lögreglan ekki komið á þessu augnabliki og spurt valdsmannlega hvað væri um að vera.

-Þau réðust á okkur sagði Vigga. Sjáðu hvernig þau hafa farið með hana Guðrúnu. Þau hafa sjálfsagt drepið hana.
Unglingarnir reyndu að maldra í móinn og útskýra sína hlið á málinu en á þá var ekki hlustað. Lögregluþjónarnir voru vanir menn og vissu að fyllirafta, smáglæpamenn og unglinga sem héngu í biðskýlum mætti leggja að jöfnu. Dropinn sem fyllti mælinn var sú ásökun unglinganna að Vigga hefði ráðist á þá og barið með veskinu sínu að tilefnislausu. Það var umsvifalaust farið með þá á stöðina.

Ekki ætla ég mér að draga neinar ályktanir af þessari sögu en læt mér nægja að klykkja út með fyrirsögn blaðagreinarinnar sem lýsti þessum atburðum: Barist í biðskýli. Og undirfyrirsögnin: Snarræði lögreglu bjargar gömlum konum frá óðum unglingaskríl.

Garðar Gíslason, Miðillinn, bls. 71