Fréttastofur
fjölmiðla safna saman upplýsingum og selja þær svo til annarra fjölmiðlafyrirtækja.
Fjölmiðlar á Íslandi kaupa til dæmis mikið af fréttum frá stórum
erlendum fréttastofum, eins og Reuter í London, Agence France Press
(AFP) í París, Norsk Telegrambyrå í Ósló og Tidningarnas Telegrambyrå
í Stokkhólmi. Íslensku fréttastofurnar selja líka erlendu fréttastofunum
íslenskt efni. Ef þú flettir íslensku dagblöðunum sérðu að efst
í fréttinni er oft getið um hvaðan hún er komin. Á hverjum degi
streymir gífurlegt magn upplýsinga og ábendinga inn á fréttadeildir
fjölmiðlanna. Útilokað er að birta allt efni sem berst og því þarf
stöðugt að flokka og velja úr efninu. Svokallaðir hliðverðir eða
fréttaþröskuldar starfa við fréttaöflun og þeir virka eins og sía
í öllu fréttaflóðinu. Þessir aðilar, hvort sem um er að ræða fréttaritara
eða fréttastjóra ákveða, hvaða fréttir eru birtar í fjölmiðlum.
Við skulum taka dæmi. Hjá Reuter streyma inn fréttir frá öllum svæðisskrifstofum
fyrirtækisins (sem eru mörg þúsund). Hluti af efninu er valinn og
sendur áfram til fjölmiðla. Áður en fréttamaður á sjónvarpsstöð
les frétt hefur hann borið hana undir fréttastjóra sem ákveður hvort
fréttinni verður hleypt áfram til áhorfenda eða ekki.
Fréttir
fara í gegnum mörg hlið þar sem mikið af efninu er síað burtu. Talið
er að af öllu fréttaefni sem berst til fréttastofa komi bara um
10% til álita til birtingar. Í fréttatíma hefur ritstjórinn eða
fréttastjórinn valið um 10%, þannig að í raun er bara um 1% af öllu
efni sent áfram til neytenda. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að mat
fréttastjóranna á því hvað sé frétt er mjög svipað alls staðar í
heiminum. Þeim finnst yfirleitt sama efnið fréttnæmt.
Vestræn
viðhorf
Fjórar vestrænar fréttastofur sjá um 80% af fréttamiðluninni í heiminum.
Íslenskir fjölmiðlar kaupa mestalla þjónustu sína frá þeim en þar
er mest fjallað um Vesturlönd og vestræna menningu. Fréttastofan
Inter Press Service (IPS) í Róm er undantekning frá þessu því hún
var stofnuð af nokkrum fréttamönnum frá þróunarlöndum sem mótvægi
við vestrænu fréttastofurnar. IPS fréttastofan hefur 80 útibú um
allan heim og fjallar aðallega um fólk í þróunarlöndum, þarfir þeirra
og vandamál. Val fjölmiðla á efni hefur mikið að segja fyrir þann
skilning sem þú hefur á heiminum, hvaða aðstæðum þú færð að kynnast
og hvernig beri að túlka þær. Þú hefur líklega töluverða þekkingu
á bandarísku þjóðfélagi, veist hvernig lögreglu-stöðvar í New York
líta út og þekkir heilu borgarhverfin í þeirri borg. Upplýsingarnar
hefur þú fengið við að horfa á bandarískt sjónvarpsefni. Þú veist
eflaust mjög lítið um Sierra Leone eða Burma vegna þess að við fáum
nánast aldrei fréttir þaðan.
KLISJUR
Rithöfundurinn Milan Kundera hefur ákveðnar skoðanir á hlutverki
fjölmiða nú á dögum, en hann segir: Fjölmiðlar dreifa sömu einföldunum
út um allan heim, sömu klisjunum og tuggum sem þeir halda að flestir
geti tuggið, allir - allt mannkynið. Og það hefur litla sem enga
þýðingu þó að mismunandi pólitísk sjónarmið birtist í ólíkum málgögnum.
Þó fjölmiðlar virðist ólíkir á yfirborðinu eru þeir allir keimlíkir.
Það er sama hvort þú flettir í gegnum bandarísk eða evrópsk dagblöð
og tímarit, hvort sem þau virðast hægri eða vinstri sinnuð - alls
staðar finnur þú sömu lífsskoðanirnar og viðhorfin. Þú finnur sömu
skoðanir alls staðar, sömu framsetningu, sama orðavalið, sama stílinn
og sama listræna smekkinn. Það er sama valdakerfi sem velur hvað
telst mikilvægt og hvað ekki. Þessi sameiginlegi fjölmiðlaandi er
andi okkar tíma.
Garðar
Gíslason, Miðillinn, bls. 106
Íslenskir
frétta- og blaðamenn framleiða einnig töluvert af efni fyrir fjölmiðla.
Fjölmiðlafólk er stöðugt á höttunum eftir nýju efni, það mætir á
þá staði þar sem eitthvað er að gerast, les skýrslur og heimsækir
opinberar stofnanir. Stjórnvöld, stofnanir, stjórnmálamenn, framkvæmdamenn,
sjónarvottar og aðrir leita einnig mikið til fréttamanna til að
koma upplýsingum á framfæri. En það er misjafnt hvernig fréttin
eða frásögnin birtist, margir þættir hafa þar áhrif: Áhugamál og
menntun fjölmiðlafólks hefur áhrif á hvernig spurninga það spyr.
Það skiptir líka máli hvað fjölmiðlafólkið telur að almenningur
hafi áhuga á og hvers konar efni fréttastjórar vilji helst birta.
Fjölmiðlafyrirtækin vita að almenningur verður að velja og hafna
efni og því reyna þau að vekja áhuga fólks með einhverjum hætti
svo það kaupi einmitt þeirra framleiðslu. Þess vegna er reynt að
hafa fréttir stuttar, hnitmiðaðar og áhrifamiklar.
Þú
verður eins og allir aðrir að velja og hafna úr fjölmiðlaefni sem
stendur til boða - þú getur ekki fylgst með öllu samtímis. Þekking
og áhugasvið hefur mikið að segja um hvers konar efni fólk velur.
ÞEKKINGARMISRÆMI
Fæstir unglingar lesa til dæmis leiðara dagblaðanna,
en þar er fjallað um stjórnmálastefnu og skoðanir fjölmiðilsins
á einhverju ákveðnu máli. Líklega er málfar og orðanotkun þar slík
að venjulegur unglingur á í erfiðleikum með að skilja það. Við skulum
skoða dæmi. Í DV birtist eftirfarandi frétt 5 maí 2001:
Smábátasjómenn æfir vegna
útreikninga LÍÚ. Stórútgerðin vill slátra okkur. Stórútgerðin vill
slátra okkur. Með því að setja smábátana í kvóta kemst fjöldi þeirra
í þrot."
Til
að geta skilið fréttina verður þú að hafa töluverða þekkingu á sjávarútvegsmálum.
Þú verður að vita að LÍÚ stendur fyrir Landssamband íslenskra útvegsmanna
- sem eru hagsmunasamtök íslenskra útgerðarmanna. Þú verður líka
að vita að Landssamband smábátaeigenda eru hagsmunasamtök sjómanna
á bátum undir 10 brúttólestum og að íslenskum fiskveiðum er stjórnað
með kvótaveiðum. Með kvóta erátt við að útgerðir megi veiða ákveðið
magn af fiski. Ef þú kannast ekki við þessi lykilorð segir fréttin
þér lítið sem ekkert. Með frétt eins og þeirri um deilur sjómanna
og útgerðarmanna geta fjölmiðlar aukið bilið á milli þeirra sem
kunna mikið og þeirra sem kunna lítið. Þeir sem hafa mestu þekkinguna
fá mest út úr fréttaefninu. Við getum líka notað annað dæmi - prófaðu
að lesa eftirfarandi plötudóm fyrir einhvern af eldri kynslóðinni
og gáðu hvað viðkomandi skilur mikið:
Skiljið allar skilgreiningar á hardcore-tónlist
eftir heima. Snapcase hefur umbreytt sjálfum sér og ímynd hardcore
tónlistar með þessari plötu. Hvert einasta einkenni Snapcase, frá
ýktum öskrum Daryl Taberski, til verulega feitra höktandi gítarhljóma
sveitarinnar, hafa verið margfölduð með tíu. Á sama tíma, tæknilega
framúrskarandi og ástríðufull tónlist.
Heldur
þú að umfjöllunin sé þess eðlis að hún hvetji miðaldra fólk til
að kaupa þessa tónlist?
|