Ímyndaðu
þér að þú sitjir í tímavél og ferðist þúsund ár aftur í tímann.
Á þeim tímum voru ekki til fjölmiðlar heldur notuðu menn einna helst
sendiboða eða reykmerki til að koma upplýsingum á milli staða. Myndir
og ristur í hellum eru elstu þekktu boðskipti mannkynsins en þróun
í átt að ritmáli er talin hafa hafist hjá Súmerum í Mesapótamíu
(Íran) fyrir um fimm til sex þúsund árum síðan.
Þróun
ritmáls gekk hægt. Mestalla mannkynssöguna kunnu mjög fáir að lesa
eða skrifa og ekki voru allir jafn hrifnir af uppfinningu stafrófsins.
Til að mynda lét Sókrates, einn frægasti heimspekingur fornaldar,
þau orð falla að þessi uppfinning myndi gera sálirnar gleymnkar
vegna þess að þær munu ekki lengur nota minni sitt. Sókrates var
eins og áður var minnst á uppi fyrir um það bil 2400 árum. Áður
en mannkynið lærði að skrifa varð það að treysta á minnið. Minni
var forfeðrum okkar mjög mikilvægt þar urðu þeir að geyma allar
upplýsingar og því áttu þær til að breytast töluvert í meðförum
manna og kynslóða. Til er skemmtilegur samkvæmisleikur sem getur
sýnt þér hvað upplýsingar geta verið vandmeðfarnar. Búðu til eitt
orð eða setningu í huganum og hvíslaðu því síðan í eyra sessunautar
þíns (þú mátt ekki endurtaka það). Sá hvíslar því sem hann heyrði
í eyra næsta nemanda og svo koll af kolli. Síðasti nemandinn segir
síðan orðið upphátt þannig að allir heyri. Komst orðið eða setningin
óbrengluð alla leið?
Nú
á dögum er þekkingu safnað saman og hún geymd í miðlunum. Í bókum,
dagblöðum, kvikmyndum, geisladiskum og gagnabönkum getur þú náð
þér í upplýsingar og lesið þér til um nánast hvað sem er. Upplýsingarnar
eru orðnar að vöru sem hægt er að selja á markaði. Dagblöð, útvarp
og sjónvarp eru upplýsingafyrirtæki sem framleiða og selja vöru
sína til þín og annarra viðskipavina. Þessir miðlar kallast fjölmiðlar,
en helsta einkenni þeirra er miðlun upplýsinga frá einum eða fáum
einstaklingum til stórs hóps móttakenda. Netið er þó frábrugðið
öðrum fjölmiðlum vegna þess að þar eru sendendur miklu stærri hópur
en í hefðbundnum fjölmiðlum.
Við
skulum skoða helstu einkenni hefðbundinna fjölmiðla.
- Stór
neytendahópur. Móttakendur fjölmiðlaefnis eru fjölmargir,
allt frá nokkrum hundruðum og upp í milljarða.
- Hjálpartæki.
Þú þarft tæknilegan millilið til að geta komið boðskap á framfæri.
Fjölmiðlun krefst tæknibúnaðar, töluverðs fjármagns og sérhæfðs
starfsliðs.
- Hröð
dreifing. Dreifing efnis í fjölmiðlum gerist hratt, boðin
streyma stöðugt og berast með miklum hraða milli staða, landa
og heimsálfa. Upplýsingarnar verða að berast nær samstundis vegna
þess hversu hratt þær úreldast.
|