Verkefni:
verkefni 1
Verkefni 2

Ítarefni:
Áhrif fjölmiðla
Breytingar á ...
Einkatölvan
Er fylgst með okkur?
Fjölmiðlar
Fréttir og viðmið
Fréttir segja ...
Í fréttum er ...
Gagnvirkni og
sýndarveruleiki

Hvað er frétt?
Netið
Notkun upplýsinga
Sigur tölvunnar
Skráning og
notkun upplýsinga

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
XUpplýsingasamfélagið
  Breytingar á samfélaginu
 

Anna og Haraldur búa í blokk. Anna hefur unnið sem saumakona allt sitt líf. Nú er hún 67 ára gömul og komin á eftirlaun. Skólaganga hennar var stutt, því hún hætti námi og fór að vinna aðeins 13 ára gömul. Haraldur, maðurinn hennar er 5 árum yngri og vinnur sem vélsmiður í litlu fyrirtæki.

Á hæðinni fyrir ofan Önnu og Harald býr Sigríður sem er 53 ára. Í íbúðinni við hliðina á Sigríði býr Þorbjörn, 29 ára. Hann er með verslunarskólapróf og vinnur á skrifstofu.

Það væri synd að segja að Sigríður kynni mikið á tölvur. Á þeim tíma er hún var í skóla voru tölvur og tölvutækni óþekkt hugtök. Hún vinnur á bókasafni, þar sem töluvert af vinnunni fer fram með tölvum. Hún hefur farið á fjölmörg tölvunámskeið, en finnst erfitt að tileinka sér þessa nýju tækni.

Þorbjörn hefur mikinn áhuga á tölvum og situr meira eða minna allan sólarhringinn fyrir framan skjáinn. Hann gerði það ekki ef honum þætti það leiðinlegt. Þorbjörn er einn af þessum sjálfmenntuðu tölvusérfræðingur. Vinnufélagarnir snúa sér til hans ef upp koma tölvuvandamál og þegar leiðbeiningar vantar um hugbúnað.

Á næstu hæð fyrir ofan íbúðir Sigríðar og Þorbjörns búa Helgi, og Margrét, bæði 45 ára og kennarar. Þau eiga tvö börn úr sínu hjónabandinu hvort. Dóttir Helga heitir Guðrún en sonur Margrétar Jón. Þau eru bæði í efri bekkjum grunnskóla. Á heimilinu er ein nýleg tölva. Guðrún og Jón nota hana aðallega við heimaverkefni, en þar fyrir utan á Jón mikið af tölvuleikjum. Guðrún hefur minni áhuga á leikjum. Helgi og Margrét nota tölvuna við undirbúning kennslu, til bréfaskrifta og fyrir heimilisbókhaldið. Margrét hefur lært töluvert á tölvur og reynir að fylgjast með því helsta sem er að gerast í tölvuheiminum. Helgi segist hafa minni trú á tölvum - en sannleikurinn er sá að hann nennir ekki að setja sig almennilega inn í tölvutæknina.

Frá iðnaðarsamfélagi til upplýsingasamfélags
Tölvur hafa haft ótrúlega mikil áhrif á samfélagið síðastliðin 20 ár vegna þess að þær eru undirstaðan í upplýsingatæknibyltingunni. Þessi bylting er ekki gömul í sögulegum skilningi, en hefur haft geysilegar breytingar í för með sér. Þróunin felur í sér algjöra uppstokkun á lífsstíl fólks.

Síðasta stóra byltingin var iðnbyltingin, sem hófst í Englandi um 1750. Helstu einkenni iðnbyltingar voru vélar, nýir orkugjafar (t.d. gufuafl og rafmagn) og þéttbýlismyndun. Iðnbyltingin barst seint til Íslands, eða ekki fyrr en um aldamótin 1900. Á síðustu öld hafa því orðið geysilegar breytingar á íslensku samfélagi, sem hefur þróast í iðnaðarsamfélag og síðar upplýsinga- og þekkingarsamfélag. En hver er munurinn á iðnaðarsamfélagi og upplýsingasamfélagi? Í stuttu máli er hægt að segja að:

Í iðnaðarsamfélögum eru framleiðsla iðnvarnings mikilvægasta atvinnugreinin. Verkfæri iðnaðarsamfélagsins eru vélar og afurðin er efnisleg vara.

Afurðir upplýsingasamfélagsins eru upplýsingar. Samskiptatæki eins og sími, útvarp, sjónvarp, dagblöð, fax, tölvur og fleira eru mikilvægustu verkfærin. Helsta einkenni upplýsingasamfélagsins er notkun tölva. Tölvur eru óhjákvæmilegar vegna þess að magn upplýsinga í samfélaginu vex gríðarlega með hverjum deginum sem líður.

Frá iðnaðarsamfélagi til upplýsinga- og þekkingasamfélags

Í upplýsingasamfélaginu er hægt að safna saman og dreifa upplýsingum mjög hratt. Vegna hraðans og magnsins úreldast upplýsingarnar einnig á skömmum tíma. Því verða skólar og fyrirtæki að leggja mjög hart að sér til að fylgjast með.


Vinna í upplýsingasamfélaginu
Mjög miklar breytingar eiga sér stað þegar samfélag breytist úr iðnaðarsamfélagi í upplýsingasamfélag. Alls staðar blasa breytingarnar við. Við skulum skoða einfalt dæmi um breytingu sem er ættuð úr stórmörkuðum.

Fyrir örfáum árum þurfti að loka verslunum í nokkra daga á meðan vörutalning fór fram, oftast í kring um áramót. Allt starfsfólkið þurfti að telja vörurnar sem eftir voru í hillunum verslunarinnar og þær sem voru á lager. Þó margar verslanir fylgi þessu munstri enn, þá getur tæknin auðveldað handvirku talninguna og jafnvel komið í stað hennar. Nú á dögum eru allar vörur skráðar með strikamerkingu. Um leið og þú borgar vöru við búðarkassa, er henni rennt yfir skanna sem skráir strikamerkinguna. Varan er þar með skráð sem seld í gagnabanka verslunarinnar. Ef lítið er eftir af ákveðinni vörutegund, lætur gagnabankinn vita af því og hann getur ef menn vilja pantað sjálfvirkt fleiri eintök af vörunni frá lager verslunarinnar eða heildsala.
Þessu fylgir töluverð hagræðing og vinnusparnaður. Hluti af störfum starfsfólksins verður með þessu sjálfvirkur og því er hægt að fækka starfsfólkinu. Jafnframt hafa yfirmenn og stjórnendur nákvæmt yfirlit yfir hvaða vörur eru til í versluninni, hvaða vörur seljast vel. Nú á dögum er handvirk vörutalning aðallega til að komast að hversu mikil vörurýrnunin er og hversu miklu er stolið.

Hvað þýða strikamerkin?

Strikamerkin eru eins konar kennitala vörunnar. Rétt eins og lesa má fæðingardag út úr kennitölum okkar, veitir strikamerkið upplýsingar um uppruna vörunnar. Þetta er gert í formi talnakóða og hann nægir til að bera kennsl á vöruna hvert í veröldinni sem hún er flutt.

Raunar eru til meira en 200 strikamerkingakerfi. Útbreiddast er þó það sem við þekkjum af vörum í hillum verslana /.../.

Það er tvíundarkerfi talna sem strikamerkið byggist á en tvíundarkerfið má einmitt kalla móðurmál tölvunnar. Í þessu kerfi eru aðeins notaðir tölustafirnir 0 og 1. Dökkt strik merkir 1 en hvít rák á milli merkir 0. Séu strikin þykk er það vegna þess að talan 1 kemur fyrir oftar en einu sinni í röð, en sé langt á milli þeirra stendur þar talan 0 oftar en einu sinni. Bæði strik og bil geta verið fjórföld og þannig má í raun skrifa allar tölur frá 0 og upp í níu.

Þegar strikamerkið er dregið fram hjá glugganum við kassann, er kóðinn lesinn með leisigeisla á skemmri tíma en sekúndu. Undir strikamerkinu standa þó allar tölurnar þrettán til vonar og vara til að hægt sé að slá þær inn handvirkt. Tölvan notar talnakóðann til að slá vörunúmerinu upp í gagnagrunni. Þaðan kemur verðið og það heiti vörunnar sem notað er í þessari verslun.

Fyrstu tvær tölurnar í talnakóðanum eru landsnúmer og segja til um hvar varan er framleidd. Næstu fimm tölur segja til um dreifingaraðilann en þar næstu fimm tölur eru hlaupandi vörunúmer. Síðustu þrjár tölurnar eru svo notaðar til að ganga úr skugga um að talnakóðinn hafi í heild sinni verið skannaður eða sleginn rétt inn. Tölvan notar þessar tölur til útreikninga sem alltaf skila rangri niðurstöðu ef svo mikið sem ein tala er röng.

Fyrsta einkaleyfið á strikamerki var veitt 1952. Það var þó ekki fyrr en 1974 sem fyrsti strikamerkjaskanninn var settur upp í verslun í Ohio í Bandaríkjunum. Fyrsta varan sem framleidd var með strikamerki var Wrigleys-tyggigúmmí.

Lifandi vísindi, nr. 11/2000

Þessi afkastamikla stjórnun verslunarinnar nú á dögum er möguleg vegna þess hversu upplýsingastreymið og úrvinnsla gagna er hraðvirk og kerfisbundin. Hún gefur okkur möguleika á að meðhöndla ótvíræðar upplýsingar (upplýsingar sem bara er hægt að túlka á einn veg) vélrænt. Upplýsingamagnið er miklu meira nú en nokkru sinni áður, en samt er hægt að lesa úr því hraðar og öruggar en áður. Upplýsingatæknin felst í að við getum meðhöndlað upplýsingar sjálfvirkt. Breytingarnar úr iðnaðarsamfélagi í upplýsingasamfélag fela í sér mikla hagræðingu en þær fela líka í sér mörg vandamál sem við höfðum ekki áður.

Frá vöðvaafli til hugarorku
Við erum stödd í miðri byltingu sem við sjáum ekki fyrir endann á. Eitt er víst og það er að samfélagið á eftir að breytast enn meira og enn hraðar en flestir gera sér grein fyrir. Síðast þegar bylting átti sér stað, breyttist samfélagið úr landbúnaðarsamfélagi í iðnaðarsamfélag. Iðnbyltingin, sem hófst á Bretlandseyjum um 1750, gjörbreytti þáverandi samfélagsskipulagi. Vélar leystu vöðvaaflið af hólmi og komu í stað erfiðisvinnu. Þéttbýlismyndun hófst og nýir orkugjafar eins og gufuafl og rafmagn sáu dagsins ljós. Breytingin úr iðnaðarsamfélagi í upplýsingasamfélag felur hins vegar í sér aukna sjálfvirkni og nú er virkjun mannlegrar hugsunar og hugarorku aðal drifkrafturinn.

Með auknum tekjum fólks gerir það meiri kröfur til samfélagsins. Til dæmis vex þörf fyrir samskiptatækni eins og síma, tölvur og tölvubúnað. Meðaltekjur hafa farið hækkandi á Íslandi og hafa reynar verið að hækka alla tuttugustu öldina. Sterk tengsl eru á milli góðrar samskiptatækni og velferðar. Vísindamenn eru þeirrar skoðunar að samskiptatækni sé ein af nauðsynlegustu og mikilvægustu forsendum þess að samfélög geti þróast.

Farsímar eru orðnir um 210 þúsund talsins

Um 210 þúsund farsímar eru nú í notkun hér á landi. Við lok ársins 2000 var farsímaeign Íslendinga orðin meiri en í Finnlandi, sem haft hefur forystuna í farsímanotkun í heiminum á undanförnum árum. Eru íslenskir notendur farsíma nú taldir hlutfallslega fleiri miðað við höfðatölu en hjá nokkurri annarri þjóð.
Farsímanotendum hefur fjölgað ört á seinustu árum eftir að GSM farsímakerfið var tekið í notkun árið 1994, eins og sjá má á meðfylgjandi töflu sem byggð er á upplýsingum símafyrirtækjanna um farsímaeign á Íslandi.

Morgunblaðið 22.11.2000

Vélmenni eða fólk?
Við iðnaðarframleiðslu er sífellt háþróaðri og sérhæfðari vélbúnaður notaður. Þróunin hefur komið æ skýrar í ljós eftir að Ísland iðnvæddist í byrjun 20. aldar. Í upplýsingasamfélaginu eru það tölvur en ekki fólk sem stýra vélunum í æ ríkara mæli. Afleiðingin er að nú þarf stöðugt færra fólk til iðnframleiðslu. Gosdrykkja - og mjólkurframleiðsla er gott dæmi um þróunina, en þar er ekki sama þörf og áður fyrir fólk við átöppun og pökkun.

Margir kostir fylgja því að láta tölvur stýra vélum og sjá um framleiðsluna. Tölvur og aðrar vélar geta framkvæmt sömu aðgerðina óendalega mörgum sinnum - án mistaka og án hvíldar. Vinnumálalöggjöfin (sem fylgist með aðbúnaði starfsfólks) nær ekki yfir vélmennin. Þau geta unnið í myrkri og kulda allan sólarhringinn ef svo ber undir og eru oft notuð til að vinna hættulega vinnu.

Frumstæðustu vélmennin voru bara fær um að framkvæma mjög einfaldar og vélrænar aðgerðir. Nú á dögum eru komin fram á sjónarsviðið vélmenni með gervigreind. Gervigreind þýðir að tölvur hafi þá eiginleika að geta líkt eftir mannlegri greind við lausn verkefna. Bílaiðnaðurinn hefur til dæmis tekið í notkun vélmenni með gervigreind, en þau sjá um alla sprautuvinnu við lökkun bíla. Vélmennin í bílaiðnaðinum hafa skynjara (,,rafrænt auga") sem sér hvort grunnmálningin þeki allan bílinn. Ef svo er færist bíllinn áfram á færibandinu til lökkunar. Ef ekki þá er bílnum snúið við og hann grunnaður upp á nýtt. Í læknisfræði hafa hjartauppskurðir þegar verið framkvæmdir með aðstoð slíkra vélmenna, til dæmis í Þýskalandi. Vélmenni eru nákvæmari en skurðlæknar og minni hætta á að þau geri mistök. En myndir þú vilja láta vélmenni skera þig upp?

Eftir því sem vélmennum fjölgar í einhæfum eða sérhæfðum störfum, þeim mun minni þörf er fyrir fólk við framleiðsluna. Margir óttast þessa þróun, en mjög erfitt er að meta hvort vélmenni í atvinnulífinu séu til góðs eða ills fyrir mannkynið. Tölvur gera fjölmörg einhæf og hættuleg störf óþörf, sem er kostur. Einnig skapast fjölmörg ný störf fyrir sérfræðinga í tölvubúnaði. Helstu rök gegn notkun tölvustýrðra véla er að þau geti skapað atvinnuleysi hjá þeim sem minnsta menntun hafa.

Stóraukin umsvif atvinnulífsins hafa leitt til þess að almennar menntunarkröfur til starfsfólks hafa aukist til muna. Notkun tölva fer fram á öllum sviðum samfélagsins, í sjávarútvegi, landbúnaði, iðnaði, verslun og viðskiptum og þjónustustörfum. Tölvunotkun krefst þekkingar. Menntun sem fólk hlaut í ,,iðnaðarsamfélaginu" dugar ekki lengur - hún úreldist og fólk þarf á stöðugri símenntun að halda.

Á síðustu áratugum hefur einkatölvan gjörbreytt daglegu umhverfi okkar. Tölvan, eins og við þekkjum hana nú, er í óða önn með að hverfa. Í framtíðinni verður tölvan ekki stór kassi á skrifborðinu, hún verður í bókstaflegri merkingu skriðin inn í alla hluti sem við notum dags daglega. Á vinnustöðum verða jafnvel kaffibollarnir okkar búnir tölvugreind. Þeir munu þekkja persónulegar kaffivenjur okkar út og inn. Þegar við stingum bollanum undir stútinn á kaffivélinni, lagar hún okkur kaffi í þeim styrk sem við kjósum helst og setur út í það sykur og/eða mjólk eftir smekk hvers og eins.

Heima í íbúðinni sér kæliskápurinn sjálfur til þess að verða aldrei tómur. Þegar einhver dagleg neysluvara er að verða búin, sendir kæliskápurinn pöntun í þá verslun sem við gerum innkaupin. Og það er fleiri breytinga að vænta á heimilinu, sumar þegar eru þegar komnar á markað. Tölvustýrða matreiðslubókin kemur okkur til hjálpar ef við nennum ekki að fylgjast sjálf nákvæmlega með hitanum á eldavélarhellunum eða í ofninum. Á öðrum áratug 21. aldar verður leitast við að gera tölvur þannig úr garði að þær verði alls staðar nálægar þegar við þörfnumst þeirra en annars ósýnilegar.

Hugtök eins og ,,fartölva" hefur ekki lengur hagnýta merkingu. Tölvuna er nefnilega að finna á ólíklegustu stöðum, svo sem í skólanum, í stýri reiðhjólsins eða í hring á fingri. Rafeindalykill í hring verður þess umkominn að opna dyrnar bæði heima og í vinnunni. Þessum rafeindalykli verður einnig hægt að koma fyrir undir húð með ígræðslu. Í slíkum tölvukubbi má einnig koma fyrir ökuskírteini, sjúkratryggingakorti, krítarkorti og öðru slíku sem við þurfum nú að muna að hafa meðferðis.

Unnið upp úr Lifandi vísindum 6: 1999

Peningalaust samfélag
Vegna smæðar íslenska samfélagsins hafa margir viljað gera tilraunir hér sem síðan væri hægt að yfirfæra á stærri samfélög. Ein af þeim hugmyndum sem upp hafa komið er að Ísland gæti auðveldlega orðið peningalaust samfélag.

Gætir þú hugsað þér samfélag án peninga? Ef hér á landi væru eingöngu notuð rafræn greiðslukort væri auðveldlega hægt að skapa peningalaust samfélag. Ýmsir kostir fylgja slíku samfélagi, til dæmis trúa sumir því að með þessu sé hægt að koma í veg fyrir svarta vinnu (skattsvik). Ef ekki væru til peningar heldur bara greiðslukort væri auðvelt fyrir skattayfirvöld að afla sér upplýsinga frá bönkum eða greiðslukorta-fyrirtækjum í hvert skipti sem einhver fengi greiðslur. Allar greiðslur yrðu sýnilegar og því ekki hægt að borga fólki svart öðru vísi en að yfirvöld vissu um það.
Málið er samt ekki alveg eins svona einfalt. Hægt er að borga fólki undir borðið með öðru en peningum, til dæmis vinnuskiptum eða vörum.

Þekkingarmisræmi
Nútímasamfélag gerir kröfur um að þú kunnir á tölvur og getir notfært þér upplýsingatækni. Þegar pabbi þinn og mamma byrjuðu að vinna gátu þau búist við að eyða allri starfsævinni hjá sama fyrirtæki. Þegar þú ert búin(n) í skóla og ferð að vinna mátt þú búast við að þurfa að aðlaga þig að breyttu umhverfi á mjög skömmum tíma. Í stað þess að geta unnið hjá einu fyrirtæki það sem eftir er munt þú að öllum líkindum vinna hjá mörgum mismunandi fyrirtækjum á starfsferlinum. Fyrirtækin verða ekki alíslensk - heldur stór fjölþjóða fyrirtæki, sem þýðir að þú þarft líklegast að eyða hluta af starfsævinni erlendis. Og þú skalt ekki búast við fastráðningu neins staðar - líklega verður þú verktaki á þeim stöðum sem þú vinnur. Krafan um endurmenntun og símenntun verður æ meira áberandi í samfélaginu. Þeir sem ekki ráða við auknar kröfur samfélagsins um þekkingu eru verr settir en aðrir. Margir hafa áhyggjur af þróuninni og velta því fyrir sér hvort hún sé að skipta íslensku þjóðinni í tvennt, þá sem kunna á tölvur og upplýsingatækni og þá sem hafa ekki þessa þekkingu. Þeir telja að sá hópur manna sem hafi tölvuþekkingu verði ráðandi í samfélaginu. Þeir sem kunna að nýta sér tæknina geta safnað saman og notað upplýsingar í samskiptum bæði hér heima og á alþjóða vettvangi. Þeir sem ekki kunna á tölvur hafa ekki sömu möguleika á að koma skoðunum sínum á framfæri, þeir þekkja ekki eða ráða ekki yfir öflugustu áhrifaleiðunum.

Listin að velja
Upplýsingamagnið í heiminum vex með ógnarhraða. Hæfileikinn til að velja úr þýðingarmestu upplýsingarnar er að verða jafn mikilvægur og sá að geta unnið úr upplýsingunum. Nú þegar finnast fjölmargar fréttaveitur á Netinu sem birta fréttir á nánast sama augnabliki og þær eiga sér stað. Gagnagrunnur Morgunblaðsins er dæmi um einn slíkan sem stendur skólum til boða. Hann byggir á leitarvél með gervigreind sem flokkar efni og leitar eftir því efni sem þú velur að lesa.
Þú getur nálgast fréttir og aðrar upplýsingar á Netinu allan sólarhringinn, en vandinn er að þú getur fengið yfir þig haug af efni sem þú hefur lítinn sem engan áhuga á. Það er auðvelt að gleyma sér við upplýsingaleitina og því verður þú að velja eins markvisst og hægt er. En hvað gerist ef þú flokkar fréttaefnið og lest bara það sem þú hefur áhuga á? Ja, þá er hætta á að upplýsingarnar sem þú aflar þér verði of einhæfar og að þú getir ekki tekið þátt í umræðum um öll þau málefni sem þú þyrftir að þekkja til sem þátttakandi í nútíma lýðræðisríki.