35
Dúkka
2015
Kristín Katla er tíu ára og langar mikið í dúkku. Mamma hennar og tvíbura-
bróðir, Pétur Uni, skilja ekkert í áhuga hennar og hefðu haldið að hún væri
orðin of gömul til að leika sér að dúkkum. En það slær Kristínu Kötlu ekki
út af laginu og eftir afmæli sitt kaupir hún eina slíka. Brúðan fær nafnið
Draumey. Fljótlega eftir að Draumey kemur inn á heimilið finnst Kristínu Kötlu
hún eitthvað svo ólík sjálfri sér. Getur verið að nærvera Draumeyjar útskýri það?
Gerður Kristný er höfundur bókarinnar Dúkka. Hún hefur skrifað margar
bækur, bæði fyrir börn og fullorðna. Hún fékk Vestnorrænu barna- og
unglingabókaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana
fyrir
Garðinn
og Bókaverðlaun barnanna fyrir
Mörtu smörtu
.
Lestu brotin hér
fyrir framan og
skrifaðu smásögu
um dúkku eða annað
leikfang sem virkar
saklaust en leynir
svo sannarlega á sér.
– Ég heyri skrítið hljóð, sagði Pétur Uni. – Það kemur frá dúkkunni.
– Hvernig hljóð? spurði mamma.
– Það er eins og einhver gnísti saman tönnum, sagði Pétur Uni og
bætti við: – Ég sver það!
Mamma rétti út hendurnar eftir Draumeyju og ég þorði ekki annað en
að láta hana fá hana. Hún lagði magann á henni upp við eyrað á sér.
– Ég skil hvað þú átt við. Hún gefur frá sér hljóð. Hún gengur
náttúrlega fyrir batteríum.
– Ég heyri ekki neitt, tautaði ég. Samt vissi ég auðvitað hvað
þau áttu við. Draumey var aftur farin að murra. Mamma og
Pétur Uni þekktu mig of vel til að ég kæmist upp með að skrökva
að þeim.
– Þetta er svo óhugnanleg dúkka. Sjáðu bara andlitið á henni!
Hún starir á mig! Ég sver það! sagði Pétur Uni.
Ég hermdi eftir honum: – Ég sver það! Ég sver það! Það má vel
vera að hún stari á þig en hún starir sko ekki á mig. Mér finnst
hún bara falleg.
Ég tók Draumeyju í fangið og vaggaði henni. Hvað vissi ég nema
hún hefði skilið allt sem bróðir minn hafði sagt um hana.