Gyðingdómur / Tákn og helgir dómar / Grátmúrinn
Grátmúrinn eða Vesturveggurinn nefnist HaKotel HaMa'aravi á hebresku. Grátmúrinn er það eina sem varðveist hefur frá tímum Heródesar mikla sem var konungur yfir Júda á fyrstu öld f. Kr.
Musteri Salómons konungs í Jerúsalem hafði verið eyðilagt af Babýloníumönnum árið 586 f. Kr. og Ísraelsmenn sendir í útlegð til Babýlon. Þegar hluti þeirra sneri aftur, hálfri öld síðar, var musterið endurbyggt. Það gengur undir nafninu seinna musterið og var vígt árið 515 f. Kr. Hægt er að lesa meira um þessa atburði í köflunum: Forsaga gyðingdóms > Ísraelska konungsríkið og Endurvígsla musterisins.
Í valdatíð Heródesar mikla, en hann lést árið 4. f. Kr, lét hann stækka musterið og styrkja undirstöður þess með þykkum steinhlöðnum veggjum. Seinna musterið var eyðilagt af Rómverjum árið 70 e. Kr og gyðingar sendir í útlegð eftir misheppnaða uppreisn. Hægt er að lesa meira um þessa atburði í kaflanum: Síðari tímar > Tvístrun og ofsóknir gyðinga.
Ekkert hefur varðveist af musterinu sjálfu en hins vegar stendur enn hluti af undristöðuveggnum sem Heródes lét gera, þar á meðal vesturveggurinn sem nefnist einnig Grátmúrinn.
Lengi vel var gyðingum bannaður aðgangur að musterishæðinni og því fluttu þeir tilbeiðslu sína að þeim hluta vesturveggjarins sem enn stóð uppi. Grátmúrinn er helgasti staður gyðinga og þangað koma pílagrímar alstaðar að úr heiminum til að biðjast fyrir. Sá sem kemur að veggnum er kominn á stað sem er heilagri en allt heilagt og bænir sem farið er með við múrinn taldar áhrifameiri fyrir vikið. Einnig er hefð fyrir því að skrifa bænir niður á lítið blað og stinga inn á milli steinanna í veggnum.
Allan sólarhringinn má sjá gyðinga biðjast fyrir við vegginn. Skilrúm er á milli þess staðar þar sem karlar og konur biðjast fyrir. Gyðingar koma einnig oft saman við vegginn á hátíðarstundum eins og til dæmis við bat/bar-mitzva ungdómsvígsluna. Stúlkur og drengir víðsvegar að úr heiminum hafa komið til Jerúsalem vegna þeirrar athafnar á þessum helga stað.