Bodh Gaya - Uppljómunin

Búddadómur / Helgir staðir / Bodh Gaya - Uppljómunin

Sækja pdf-skjal

 

Borgin Bodh Gaya í Norður-Indlandi er fræg fyrir að vera staðurinn þar sem Búdda öðlaðist uppljómun sína. Bodh Gaya er því helgasti pílagrímsstaður búddista.

Sá staður sem flestir heimsækja í Bodh Gaya er hið stórkostlega Mahabodhi musteri sem var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 2002. Það er talið að Ashoka Indlandskeisari hafi látið byggja Mahabodhi musterið u.þ.b. 250 árum eftir uppljómunina. Musterið hefur það meginhlutverk að vera minnisvarði en ekki að geyma jarðneskar leifar Búdda. Það er byggt úr múrsteinum og er ein af elstu múrsteinsbyggingum í Austur-Indlandi og arkitektúr þess þykir stórkostlegur. Turn þess er 55 metra hár og í kringum hann eru fjórir minni turnar sem eru hannaðir í sama stíl og meginbyggingin. Inni í musterinu er Vajrasana, demanta hásætið, sem sagt er að sé staðsett nákvæmlega á þeim stað þar sem Búdda fékk uppljómunina. Í musterinu er einnig stór stytta af Búdda sem áætlað er að sé 1700 ára gömul. Hægt er að lesa meira um slíkar styttur eða líkneski í kaflanum Tákn og helgir dómar  > Búddalíkneski.

Þegar Búdda öðlaðist uppljómun þá sat hann undir svokölluðu Bodhi-tré  og bak við Mahabodhi musterið er ævafornt Bodhi-tré sem er talið vera á sama stað og gamla tréð og hafa vaxið úr frjókorni þess. Sagan segir að eiginkona Ashoka hafi verið svo afbrýðisöm vegna þess hve miklum tíma maður hennar eyddi undir Bodhi-trénu að hún hafi látið höggva það niður, en að það hafi vaxið aftur. Tréð  er umkringt háum vegg til að gæta þess og þegar vindurinn blæs og lauf fýkur út fyrir vegginn þá drífa pílagrímarnir sig að tína upp hin helgu lauf sér til blessunar.

Á fyrstu öldum búddisma vakti Bodhi-tréð mikla athygli og pílagrímar fóru margir þangað og sóttu frjókorn trésins og lauf þess sem blessun fyrir klaustur sín og heimili. Margir sáðu þessum kornum í görðum musterisins. Dóttir Ashoka fór einnig með afleggjara af  Bodhi-trénu til Sri Lanka á 3. öld f. Kr. og gróðursetti þar. Þar stendur það enn og er þar af leiðandi álitið eitt elsta tré veraldar.

Bodh Gaya er nú aðþjóðlegur pílagrímsstaður. Búddistar frá Sri Lanka, Tælandi, Burma, Tíbet, Japan og Bútan hafa byggt klaustur og musteri nálægt Bodh Gaya og staðurinn laðar að búddista og ferðamenn alls staðar að úr heiminum.