Lumbini - Fæðingin

Búddadómur / Helgir staðir / Lumbini - Fæðingin

Sækja pdf-skjal

 

Fæðingarstaður Búdda, Lumbini garður, er einn helgasti staður búddista og er staðsettur við rætur Himalayafjalla í Nepal. Á tímum Búdda var Lumbini fallegur garður þakinn grænum og skjólgóðum trjám. Móðir Búdda, Maya, átti að hafa verið svo töfruð yfir fegurð garðsins að hún stoppaði þar til að hvíla sig á ferðalagi sínu. Á meðan hún naut fegurðarinnar fæddist svo sonur hennar, Siddharta, sem síðar varð Búdda. Hægt er að lesa nánar um fæðingu Siddharta í kaflanum Líf Siddharta - Búdda > Fæðing.

Árið 249 f. Kr. heimsótti Ashoka keisari Indlands Lumbini en hann hafði tekið búddatrú. Þá var risinn þar blómstrandi bær sem er þar enn.  Ashoka lét byggja þar fjórar stúpur og stóra steinsúlu til heiðurs Búdda. Í Lumbini er einnig að finna Maya Devi musteri sem var nefnt eftir móður Siddharta og var líklega byggt yfir eina af stúpum Ashoka. Fyrir sunnan musterið er helg baðlaug þar sem talið er að Maya hafi baðað barn sitt eftir fæðinguna.

Síðar varð Lumbini vanhirtur í margar aldir en nýlega hefur áhugi á svæðinu vaknað aftur. Grafnar hafa verið upp merkar fornleifar til dæmis leifar hinnar fornu Kapilavastu. Miklar endurbætur á garðinum eru í deiglunni þar sem til stendur að rækta garð, byggja musteri og laugar.  Árið 1997 komst Lumbini á heimsminjaskrá UNESCO.