17
Hæ. Þetta er Eivör.
Nonni segir ekki nógu vel frá leiknum þannig að ég ætla að taka við í smá stund við að
segja söguna.
Það er stórkostleg tilfinning að spila landsleik fyrir Ísland. Þegar við vorum að hita upp
fyrir leikinn sáum við áhorfendur flykkjast á völlinn og svo kallaði Nonni á mig og ég veif-
aði honum og strákunum. Þeir fögnuðu því eins og ég hefði skorað mark eða eitthvað.
Reyndar var ég ennþá með móral yfir því að hafa skellt á hann í gærkvöldi. Vonandi var
allt í lagi hjá honum. Hann virtist allavega vera mjög hress núna. Um leið og ég veifaði
honum reyndi ég að koma auga á njósnarann. Mér skildist nefnilega að það væri útsendari
frá stórliði í Svíþjóð á vellinum í leit að leikmönnum. Ég veit ekki hvort hann var með ein-
hverjar sérstakar í huga en við vorum bara nokkrar í hópnum sem spiluðum ennþá á
Íslandi. Hinar voru allar komnar í atvinnumennskuna í útlöndum. Ef ég fengi að koma
inná ætti ég kannski séns á að heilla þennan útsendara. EF ég fengi að koma inná.
Leikurinn og stressið magnaðist. Ég hef aldrei verið eins vel stemmd fyrir nokkurn
fótboltaleik. Ég var í landsliðsbúningnum og í klefanum höfðu allar fyrirmyndirnar mínar
verið að klæða sig í sama búning. Stelpur sem ég hef litið upp til frá því ég var smápæja.
Kristín fyrirliði, mesta hörkutól allra tíma, hafði boðið mig velkomna.
„Velkomin!“ sagði hún. Grjóthörð. Ég var næstum því hrædd við hana. Hún stjórnaði
vörninni eins og herforingi og var fæddur leiðtogi. Nú var hún að spila á móti Englandi og
ég bað til guðs um að fá að koma inná. Fyrri hálfleikur gekk ágætlega en sá seinni var um
það bil hálfnaður þegar þjálfarinn sagði það sem ég hafði verið að bíða eftir.
„Stelpur, farið þið að hita.“ Um leið snarþagnaði áhorfendaskarinn. Við litum inn á
völlinn. England hafði skorað.
Hugsaðu um ferðalag sem þú hefur farið í, með vinum eða fjölskyldu.
• Punktaðu niður nokkur lykilorð sem tengjast því ferðalagi t.d. hver var
áfangastaðurinn, hver fór með þér, hvar gistuð þið á hóteli, sumarhúsi,
tjaldi o.s.frv.
• Rifjaðu upp einn viðburð sem var sérlega áhugaverður í ferðinni
(kannski af því að hann var fyndinn, spennandi, sorglegur …)
• Notaðu lykilorðin og segðu námsfélaga frá ferðalaginu með aðaláherslu
á þennan eina viðburð. Hafðu frásögnina í 1. persónu.