15
Skapti sagðist ekki kunna mikið fyrir sér í fótbolta þótt hann hefði stundum æft sig í að halda
bolta á lofti. „Ég hef ekki haft tíma til að æfa því ég er í ballett nokkrum sinnum í viku.“
Strákarnir litu opinmynntir hvor á annan, síðan á Skapta og muldruðu með sjálfum sér.
„Ballett?“ Þeir voru svo undrandi að þeir gleymdu að hlæja en Kiddi starði á þennan
undarlega strák og reyndi að sjá hann fyrir sér í sokkabuxum og ballettskóm. Hann leit á
fæturna á honum og gat ekki ímyndað sér að innan í þessum skítugu, brúnu rúskinnsskóm
leyndust tær sem tipluðu létt innan um fáklæddar ballerínur. Kiddi vissi ekki hvað hann
átti að segja því hann var enn að reyna að sjá Skapta fyrir sér í ballettskóm.
„Já, er ekki fínt að vera í ballett?“ spurði Tryggvi eftir vandræðalega þögn. „Ég get ímyndað
mér að þú verðir frábær ballettdansari.“
Skapti yppti öxlum og gaf lítið út á það hvort það væri fínt eða skemmtilegt að æfa ballett.
„Ég verð að drífa mig því ég lofaði pabba að koma við í búð á leiðinni heim,“ sagði hann
og gerði sig líklegan til að setja mótorinn í gang.
„Við sjáumst í skólanum á morgun og ef þið verðið leiðinlegir nota ég hláturgasið á ykkur.“
Að svo mæltu togaði hann í lítið handfang undir sætinu og mótorinn gaf frá sér hljóð sem
minnti helst á slæman hósta hjá manni sem hafði reykt þrjá sígarettupakka á dag áratugum
saman. Kiddi og Tryggvi horfðu á eftir Skapta líða áfram á hjólinu án þess að hafa nokkuð
fyrir því. Þeir voru jafnvel enn meira undrandi núna en þegar þeir sáu krakkaskarann
liggja í hláturskrampa á grasbalanum.
„Vá ... á!“ stundi Kiddi og slengdi skólatöskunni yfir öxlina. „Hann minnir mig á einhverja
teiknimyndafígúru. Ég held að hann sé ógeðslega sniðugur.“
„Skyldi hann vera hommi?“ spurði Kiddi forviða.
„Venjulegir strákar eru ekki í ballett.“
„En eru hommar í ballett?“ spurði Kiddi og það var ekki
laust við að hann væri hissa á vangaveltum Tryggva.
„Það veit ég ekkert um,“ svaraði Tryggvi hugsi.
Finndu fleiri bækur eftir Þorgrím,
annaðhvort með því að rölta á
bókasafnið eða vafra á netinu.
Hefur þú lesið einhverja bók
eftir hann?
Hvaða bók finnst þér mest
spennandi til lesturs?
Hvað ræður því vali
(titillinn, bókakápan,
annað)?