Tvær meginstefnur

Íslam / Síðari tímar / Tvær meginstefnur

Sækja pdf-skjal

 

Eins og segir í kaflanum Útbreiðsla íslams klofnuðu múslimar í tvær meginstefnur við val á arftaka Múhameðs. Þessir tveir flokkar, súnnítar og shítar, eru ekki ósammála um meginatriði trúarinnar eða þvi hvernig múslimar eigi að lifa. Aðalágreiningurinn er um eftirmann Múhameðs eða trúarleiðtoga, bæði hverjir geti gegnt þeirri stöðu og hvaða hlutverki þeir gegna.

Súnna

Langflestir múslimar eru súnnítar eða um 90% og er að finna t.d. í flestum arabalöndum ásamt Tyrklandi og Pakistan. Súnna merkir hefð og vísar til þeirrar hefðar að vitna alltaf í arfsagnir um hvað Múhameð gerði eða sagði í málum sem ekki var fjallað um í Kóraninum. Súnní merkir því fólk hefðarinnar. Súnnítar eru frekar íhaldssamir og telja að trúarleg þekking sé fullkomnuð í Kóraninum og súnnu Múhameðs eða orðum hans og að hún geti þar af leiðandi ekki og megi ekki breytast. Þeir vilja því að samfélagið í heild sinni, bæði hvað varðar einkalíf og stjórnmál, byggist á súnnunni og Kóraninum.

Súnnítar telja að eftirmaður Múhameðs eigi að vera valinn af samfélaginu en fjölskyldutengsl hafi minna vægi heldur en samstaða innan samfélagsins. Í þeirra huga voru Kalífarnir æðstu menn trúarlegra stofnana sem einnig sáu um stjórnarfar landsins.

Shía

Shítar eru miklu færri en súnnítar og eru hlutfallslega flestir í Íran. Rúmlega helmingur Íraka er einnig Shítar. Shítar draga nafn sitt af persneska orðinu shía sem merkir flokkur. Shítar eru ekki jafn íhaldssamir og súnnítar en þeir líta svo á að guðleg leiðsögn geti vel haldið áfram í gegnum aðra menn en Múhameð. Þeir líta því svo á að það geti átt sér stað breytingar á boðskap Kóransins og súnnunnar.

Shítar telja að enginn geti verið leiðtogi múslimasamfélagsins, umma, nema afkomandi Múhameðs. Shítar kalla slíkan leiðtoga imam. Imam er andlegur leiðtogi sem sér um siðferðisleg, guðfræðileg og dulspekileg málefni. Innan shía eru svo tvær helstu greinar shía íslams, tólfungar og sjöungar. Tólfungar telja að frændi Múhameðs og tengdasonur, Ali ibn Abi Talib, hafa verið fyrsti imam múslima eftir að Múhameð lést. Samfeld runa imama kom á eftir honum þar til sá tólfti, Muhammad al-Mahdi al-Hujja, hvarf einn daginn. Tólfungar trúa því að hann muni í fyllingu tímans birtast aftur og þá hefjist gullöld Shía-íslams.