Íslam / Síðari tímar / Samfélag múslima
 
Samfélagið sem Múhameð fæddist inn í var ættbálkasamfélag hirðingja. Innan þess voru miklar illdeilur og óeirðir á milli ættbálkanna og stéttarstaða manna fór eftir ríkidæmi eða virðingu. Múhameð var ekki hrifinn af þessu samfélagi og vildi breyta því til batnaðar enda höfðu fátækir og sjúkir það sérstaklega slæmt á meðan þeir ríku höfðu það mjög gott.
Hið nýja samfélag, sem Múhameð kom á, bannaði því ættbálkaóeirðir og þau forréttindi sem þeir ríku höfðu haft voru afnumin. Í stað þeirra var þeim ríku gert skylt að borga ölmusu til fátækra. Markmið Múhameðs var að hafa jafnrétti fyrir fólkið hvort sem um var að ræða í trúarlegu eða félagslegu tilliti. Múhameð ítrekaði við fólkið að það skipti meira máli hvað það gerði heldur en hversu ríkt eða vel ættað það væri. Hann lagði einnig áherslu á að þeir sem ekki færu eftir því sem Guð boðaði mundu ekki eignast eilíft líf.
Í íslam eru ákveðnar lífsreglur sem menn eiga að fara eftir og tengjast þær öllum þáttum samfélagsins: andlegum, efnahagslegum, félagslegum og siðferðilegum. Hið andlega og veraldlega verður ekki aðskilið heldur er líf mannsins ein heild. Mikil áhersla er lögð á fjölskylduna sem einingu og jafnvægi á að ríkja milli allra meðlima hennar.