Íslam / Síðari tímar / Staða íslam í dag
 
Áætlaður fjöldi múslima í heiminum er eitthvað á bilinu 1 til 1,4 milljarður. Þar af eru súnní-múslimar langfjölmennastir eða um 940 milljónir en fjöldi shíta er áætlaður um 120 milljónir. Hægt er að lesa um muninn á shítum og súnnítum í kaflanum: Tvær meginstefnur.
Múslimar búa um allan heim en stærstur hluti þeirra er þó búsettur í Suðaustur-Asíu. Í Indónesíu búa til dæmis yfir 170 milljónir múslima, yfir 130 milljónir í Pakistan og meira en 200 milljónir í Bangladesh og Indlandi saman. Múslimar eru auk þess meirihluti íbúa í um 58 löndum heimsins, sem flest eru ríki í Miðausturlöndum. Á síðustu áratugum hefur íslam breiðst hratt út um Afríku og nú er það svo að rúmlega þriðjungur íbúa Afríku eru múslimar.
Í Evrópu og Bandaríkjunum er einnig mikið af múslimum. Flestir þeirra innflytjendur frá íslömskum ríkjum eða afkomendur þeirra. Um miðja 20. öld og fram undir lok hennar var hins vegar algengt að fólk af vestrænum uppruna snerist til íslams. Einkum var þetta algengt meðal hörundsdökkra Bandaríkjamanna sem fundu styrk í íslam í jafnréttisbaráttu sinni, en samkvæmt íslam eru allir jafnir fyrir Guði sama hver húðlitur þeirra er. Frægastur þeirra er líklega þungavigtarboxarinn Muhamad Ali sem áður hét Cassius Clay.
Snemma á 20. öldinni lögðust kalífadæmin niður og flestir múslimar telja að ekki sé lengur þörf fyrir þá ef yfirvöld íslamskra landa hlýða Sharía, lögmálinu. Hægt er að lesa meira um kalífadæmin í kaflanum: Útbreiðsla íslams. Í íslömskum ríkjum nútímans er hinsvegar mjög misjafnt hvernig löggjöf landsins er háttað og hve mikil áhrif íslam hefur á þau. Kóraninn er miklu meira en trúarrit því hann fjallar um flesta þætti mannlegs samfélags eins og það var á tímum Múhameðs til að mynda stjórnarhætti. Í mörgum íslömskum löndum t.d. Sádí-Arabíu og Íran byggist löggjöf landsins á Sharía, lögmálinu. Hægt er að lesa meira um Kóraninn og Sharía í kaflanum: Kennisetningar og reglur > Helgirit.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina komu fram umbótasinnar sem vildu nútímavæða íslamska samfélagið en byggja það þó á grunni íslams. Það gekk misvel og náði lítilli fótfestu. Sum lönd eins og til dæmis Tyrkland hafa hins vegar breytt löggjöfinni að vestrænni fyrirmynd og minnkað áhrif átrúnaðarins á réttarfar og löggjöf.
Bræðralag íslams eru alheimssamtök súnní múslima sem hafa mikil áhrif í hinum íslamska heimi, einkum í arabískum löndum. Markmið samtakanna er sameining íslamskra þjóða og verndun íslamskra gilda í ríkjunum. Starf þess snýst einkum um samvinnu og hjáparstarf á milli íslamskra þjóða og ganga til dæmis út á það að þjóðir sem eru í samtökunum lofa að fara ekki í stríð hver við aðra. Mikil áhersla er lögð á að allir múslimar séu bræður, sama hvaðan þeir koma, hvaða kynþætti þeir eru af eða hvaða stétt þeir koma úr og hápunkt sameiningar þessa samfélags má sjá á ári hverju þegar fólk úr öllum stéttum, allstaðar að úr heiminum, sameinast í pílagrímsför sinni.
Hér á Íslandi er starfandi trúfélag múslima sem nefnist Félag múslima á Íslandi. Árið 1997 var félagið fyrst skráð sem trúfélag og þá með 78 meðlimi en í dag eru skráðir meðlimir rétt innan við 400. Félagið á samkomusal í Reykjavík en hefur ekki enn fengið úthlutað lóð til að reisa mosku. Félagið er virkt og félagsmenn koma saman á bænadögum og alla föstudaga til hádegisbæna. Sunnudagaskóli er fyrir krakkana og haldnir eru kvennafundir aðra hverja viku. Auk þess er félagið með heimasíðu þar sem finna má ýmsar upplýsingar varðandi félagið og íslam.