Gyðingdómur í dag

Gyðingdómur / Síðari tímar / Gyðingdómur í dag

Sækja pdf-skjal

 

Ester Gyðingdómur nútímans á rætur að rekja til þess tíma þegar Rómverjar réðu ríkjum í Palestínu. Í gegnum tíðina hafa gyðingar samt viðhaldið trú sinni og sjálfsmynd en sumir þó lagað sig að þeim aðstæðum sem fyrir eru í hverju landi fyrir sig og nútímanum. En því hefur fylgt trúarlegur og hugmyndafræðilegur klofningur innan þeirra eigin samfélags og segja má að nú sé um að ræða þrjár megin stefnur. Þær eru rétttrúnaðargyðingar, íhaldssamir gyðingar og umbótasinnaðir gyðingar.

Rétttrúnaðargyðingar vilja að farið sé eftir lögmálinu eins og það er skráð í Tóra og halda sterkt í gömul gildi eins og reglur um mataræði og að hafa konur og karla aðskilin í sýnagógunum. Rétttrúnaðargyðingar hafa haft mikil áhrif á löggjöf Ísraelsríkis.

Umbótasinnar vilja aðlagast nútímanum. Þeir hafna til dæmis þeim ákvæðum sem er að finna í Talmúd og halda ekki eins stíft í ákvæði lögmálsins. Til dæmis líta umbótasinnar svo á að staða karla og kvenna sé jöfn.

Íhaldssamir eru mitt á milli rétttrúnaðar og umbótasinna. Þeir reyna að halda í hefðir en vilja að hver kynslóð finni sínar eigin áherslur.

Hægt er að lesa meira um Tóra og Talmúd í kaflanum: Kennisetningar og reglur > Helgirit.

Innan gyðingdóms eins og annarra trúarbragða er auk þess fjöldi minni trúarhreyfinga. Ein þeirra, Kabbala, er nokkurs konar dulspekihreyfing sem upprunalega varð til á miðöldum í Evrópu en þeir sem aðhyllast þessa stefnu reyna að eftir fremsta megni að skilja óskiljanleika guðdómsins. Orðið Kabbala merkir að taka á móti leyndri þekkingu spekinnar og til að geta það reyna menn að falla í trans. Kabbalismi fór í lægð í kringum 1650 en áhugi á stefnunni hefur hins vegar vaknað á ný á síðustu áratugum. Áhuga þennan má að hluta rekja til þess að í Bandaríkjunum er starfrækt hreyfing sem kallar sig Kabbala-hreyfingin eða Kabbala-miðstöðin og er eins konar nýaldarhreyfing með tilvísun í þennan forna Kabbalisma. Hreyfingin leitast eftir einingu í gyðinglegri dulspeki og því eru allir velkomnir í hana, óháð trú, stjórnmálaskoðunum eða kynþætti. Hreyfingin hefur vakið mikla athygli síðastliðin ár vegna fjölda frægs fólks sem aðhyllist hana. Sem dæmi um það má nefna söngkonurnar Madonnu og Britney Spears og leikarana Demi Moore og Ashton Kutcher.