Verkefni:
Hver er ég:
Verkefni
Ég og hinir:
Verkefni
Fjölskyldan:
Verkefni

Ítarefni:
Að ná því besta
Áhrif fjölskyldunnar
Engir vinir
Hlutverkaspenna
Hópþrýstingur
Hversvegna ástin?
Sagan um Jenný
Kjarnafjölskyldan
Persónuleikinn
Skilnaðir

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
..Sjálfsmyndin
  Skilnaðir
 

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á skilnuðum. Flestar þeirra sýna að félagslegir þættir hafi áhrif á af hverju fólk skilur. Talið er að breytingar á kynhlutverkunum, breytt viðmið í kynlífi og aukið tilfinningalegt álag á fjölskylduna eigi sinn þátt í að fjölga skilnuðum.

Áður fyrr voru framhjáhald eða ofbeldi algengustu skilnaðarorsakirnar. Þessir þættir eru enn mikilvægir en útskýra ekki af hverju skilnuðum hefur fjölgað svo mikið síðustu áratugi. Framhjáhöld og ofbeldi voru líka algeng áður fyrr. Margir hallast að því að eftirfarandi félagslegir þættir eigi sinn þátt í fjölda skilnaða:

  • Færri hlutverk fjölskyldu. Áður fyrr var fjölskyldan framleiðslueining, hún framleiddi flestallar nauðþurftir sínar sjálf. Félagsmótun barna var einnig fastbundin hjónaböndum. Nú á dögum eru færri bönd sem halda hjónabandinu saman, sem gerir það að verkum að hjónabandið verður brothættara og viðkvæmara.
  • Fjárhagur. Því sjálfstæðari sem konan er fjárhagslega þeim mun meiri líkur eru á að hún fari úr lélegu hjónabandi. Konur sem eru í launaðri vinnu eru ekki fjárhagslega háðar eiginmanninum.
  • Breytt viðmið. Viðmið samfélagsins hafa breyst. Áður fyrr var litið á skilnaði sem skammarlega og siðferðislega ranga, en nú eru þeir almennt viðurkenndir. Þetta er líklegast einna helsta ástæðan fyrir því af hverju óvígð sambúð er svo algeng nú á dögum - hjónabandið er ekki jafn hátt skrifað nú og áður fyrr.
  • Einstaklingshyggja. Einstaklingshyggja er miklu sterkari í samfélaginu nú en áður. Með þessu er átt við að hver og einn eigi fyrst og fremst að taka tillit til eigin óska og þarfa.

Listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi, fjölmörg önnur atriði geta einnig haft áhrif á af hverju sumt fólk skilur en annað ekki. Við lærum fljótlega að gangur lífsins sé að verða ástfangin(n) og stofna fjölskyldu. Þú þarft ekki að hlusta á marga dægurlagatexta til að komast að raun um að okkur er ætlað að fara að búa og lifa hamingjusömu lífi með stóru ástinni það sem eftir er ævinnar. En ástin fer fljótt af sambandinu þegar við tekur daglegt amstur húsverka og launavinnu, bleyjuþvotta og skúringa, afborgana lána og reikninga. Með þessu er ekki verið að segja að makar elski ekki hvorn annan heldur að að ástin breytist. Hún getur til dæmis orðið væntumþykja og sameiginleg reynsla og verið mjög gefandi.

Vandamál tengd skilnuðum
Mörg vandamál þarf að leysa við skilnað. Hver á til dæmis að búa áfram á heimili fjölskyldunnar og hvernig á að skipta eigum á milli hlutaðeigandi? Yfirleitt vilja börnin ekki að foreldrarnir skilji. Stærstu vandamálin tengjast því oftast börnunum, sem eftir skilnað búa ekki lengur hjá báðum foreldrum, að minnsta kosti ekki á sama tíma. Tveir helstu valkostirnir eru:

  • Annað foreldrið fær forræði. Oftast fær annað foreldrið forræðisréttinn. Ef barnið hefur náð 12 ára aldri verður að taka tillit til óska barnsins. Það foreldri sem ekki hefur forræðisréttinn (oftast faðirinn) hefur umgengnisrétt við barnið sitt - og barnið á rétt á að umgangast hann (eða móðurina).
  • Sameiginlegt forræði. Foreldrar skipta með sér forræði en í því felst að barnið er álíka mikið hjá báðum foreldrum.

Fjölgun hjónaskilnaða er ekki bara einstaklingsbundið vandamál heldur einnig samfélagslegt vandamál, vegna þess hve margir skilja nú á dögum. Við megum samt ekki gleyma að við skilnað fær einstaklingurinn meira frelsi og hann getur breytt lífsaðstæðum sínum þegar honum finnast þær ekki lengur þolanlegar. Til eru óhamingjusöm hjónabönd en það eru líka til hamingjusamlegir skilnaðir.

Það sem börn vilja vita um skilnað

Með hvoru foreldrinu eiga þau að búa - og fá þau að velja?
Fá þau að heimsækja hitt foreldrið og þá hvenær, hversu oft og hve lengi?
Hvað um bræður og systur? Koma þau til með að búa á sama stað eða verða þau skilin að?
Skildu foreldrarnir vegna barnanna?
Elskar það foreldri sem flytur að heiman börnin ekki lengur?
Ef nýr maður/kona er í spilinu, þurfa börnin að hitta hann/hana?
Þurfa börnin að flytja í nýtt hús eða að fara í annan skóla?
Verða fjármálin í lagi?

Heimild: Unglingsárin, bls. 198

Umboðsmaður barna
Á heimasíðu umboðsmanns barna stendur eftirfarandi:

„Sem umboðsmaður barna vinn ég að því að bæta hag barna og unglinga svo að ykkur líði sem allra best, og gæti þess að tekið sé tillit til réttinda ykkar, þarfa og hagsmuna á öllum sviðum samfélagsins.

Ég er talsmaður barna og unglinga, sem þýðir að ég kem réttinda- og hagsmunamálum ykkar á framfæri við hina fullorðnu, við opinbera aðila, þá sem stjórna landinu og setja lög og reglur, en líka við þá sem reka félög og fyrirtæki.

Sem umboðsmaður barna vinn ég almennt að réttinda- og hagsmunamálum barna og unglinga, en það þýðir að ég má ekki skipta mér af vandamálum einstakra barna. Það verkefni hefur öðrum verið ætlað, t.d. barnaverndarnefndum. Hins vegar leiðbeini ég, eða starfsfólk mitt, öllum sem til okkar leita um hvert hægt er að snúa sér til að fá aðstoð við að leysa sín mál. Þú getur treyst okkur, við hlustum á þig og reynum að hjálpa þér.“