Þessi frásögn birtist í
Félagsfræði II eftir Ian Robertson .
Eftirfarandi frásögn frá Kaliforníu er af stúlkunni
Jenný. Faðir hennar læsti hana inni frá því hún var tuttugu mánaða
og þar til hún var þrettán og hálfs árs. Frásögnina skráði Susan
Curtiss en hún er málsálfræðingur og hún vann með Jenný í nokkur
ár eftir að hún fannst árið 1970. (Málsálfræði er sú grein málvísinda
sem fjallar um sálfræðilega hlið tungumálsins.) Hér er einangrun
Jennýjar lýst og ástandi hennar fyrstu árin sem hún var í meðferð.
Jenný var lokuð inni í litlu svefnherbergi
og óluð niður við smábarnasæti með koppi. Farðir hennar útbjó sjálfur
ólarnar og sætið, og þarna sat Jenný allsber utan ólanna. Hún sat
klukkustund eftir klukkustund, oft fram á nótt, dag eftir dag, mánuð
eftir mánuð, ár eftir ár og gat aðeins hreyft fingur og hendur,
fætur og tær. Á nóttunni, það er að segja þegar hún gleymdist ekki,
voru ólarnar teknar af henni og hún sett í annan ,,útbúnað”
- svefnpoka sem faðir hennar hafði sniðið til að halda handleggjum
hennar föstum svo hún skriði ekki upp úr honum. Í raun var þetta
spennitreyja. Þannig skorðuð var hún sett í smábarnarúm með vírneti
allt í kring og yfir sér. Svona liðu klukkustundir Jennýjar og ár,
í dúðum á nóttunni og í ólum á daginn.
Það var ekki margt sem hún heyrði. Í húsinu
voru hvorki sjónvarp né útvarp. Svefnherbergi Jennýjar var innst
í húsinu við hliðina á baðherbergi ...faðirinn þoldi engan hávaða
svo að öll samtöl innan fjölskyldunnar voru á lágu nótunum. Jenný
heyrði því aldrei mannamál nema helst ef faðir hennar æsti sig og
bölvaði. Einu hljóðin sem hún heyrði innanhúss voru frá baðherberginu.
Tveir gluggar voru á herberginu hennar og var annar þeirra í hálfa
gátt. Hún kann því að hafa heyrt í flugvélum eða í umferðinni. En
hún var innst í húsinu og hefur því varla heyrt mikið frá götunni.
Hungruð og vanrækt hefur Jenný reynt að draga
að sér athyglina með því að öskra og faðir hennar barið hana fyrir
það. Reyndar var stór spýta í horninu á herbergi Jennýjar sem faðir
hennar notaði aðallega til þess arna. Jenný lærði að þegja og spara
raddböndin. En þar sem hún örvænti stundum um athygli og mat þá
notaði hún líkama sinn eða einhvern annan hlut til að láta heyra
frá sér. Faðir hennar, sem ekki þoldi það heldur, barði hana oft
þess vegna með spýtunni. Í þessi skipti, og reyndar alltaf þegar
hann sinnti henni, mælti hann ekki orð af vörum. Þess í stað lét
hann eins og óður hundur. Hann gelti, urraði að henni ... sýndi
henni tennurnar, og ef hann vildi bara ógna henni með návist sinni
stóð hann fyrir utan dyrnar urrandi - til að láta hana vita að hann
væri þarna og ef hún héldi áfram að óhlýðnast þá mundi hann koma
inn og berja hana. Þessi hræðilegu hljóð, urrið og geltið í föður
hennar fyrir utan dyrnar, voru nánast þau einustu sem Jenný heyrði.
Það var ekki margt að hlusta á og ekki heldur
til að snerta eða horfa á. Einu húsgögnin í herbergi hennar voru
rúmið og koppurinn. Ekkert teppi var á gólfinu og engar myndir á
veggjunum. Breitt var fyrir gluggana tvo en Jenný sá til himins
út um smárönd efst á öðrum þeirra. Dauf ljósapera hékk í loftinu,
skápar voru á einum veggnum og baðherbergisdyrnar á öðrum.
Einstaka sinnum voru tvær regnkápur úr plasti,
önnur glær og hin gul, hengdar utan á skápinn, og stundum mátti
Jenný ,,leika sér með þær. Auk þess sá hún stundum hluta af
prentaðri sjónvarpsdagskrá eftir að faðir hennar hafði tekið í burtu
allar myndir sem voru of tvíræðar, til dæmis konum að auglýsa sundlaugar.
Stundum voru henni gefnir kassar utan af osti eða því um líkt. Þetta
voru leikföngin hennar og eina örvunin sem sjón hennar og snertiskyn
fengu en auk þess gat hún auðvitað snert gólfið, ólarnar og líkamann.
Ástand Jennýjar
var hörmulegt. Hún hafði aldrei klæðst neinu, aldrei fundið
mun á heitu og köldu. Hún kunni ekki að tyggja og átti erfitt
með að kyngja því að hún hafði aldrei fengið fasta fæðu. Hún
gat ekki staðið upprétt og ekki rétt úr handleggjum sínum eða
fótum eftir að hafa verið bundin á koppinn. Hún gat ekki hlaupið,
hoppað, stokkið eða klifrað. Hún gat aðeins gengið með miklum
erfiðleikum, dragandi fæturna á eftir sér, skjögrandi.Og þar
sem hún var vön því að horfa aðeins um þrjá metra fram fyrir
sig (fjarlægðin frá sætinu hennar að dyrunum) var hún nærsýn
og sá aðeins það sem nam þeirri fjarlægð. Og þar sem hún var
barin fyrir að gefa frá sér hljóð gaf hún aðeins frá sér lágt
kjökur. Hún var vannærð og vó aðeins 29 kíló og var 1,35 m á
hæð. Hún hafði hvorki stjórn á hægðum né þvaglátum. Hár hennar
var gisið. Hún slefaði mikið og spýtti á hvað sem fyrir varð.
Jenný hafði ekki verið mótuð að hætti manna og var því frumstæð
og varla mennsk. |
|
Það kom á óvart að Jenný var áhugasöm og forvitin.
Hún horfðist í augu við aðra og skoðaði nýja staðinn sinn af mikilli
ákefð. Hún sóttist eftir tengslum við aðra og athygli. Úr andliti
hennar skein þrá eftir sambandi við þennan nýja heim og það gerði
hyldjúpa þögn hennar ennþá ógugnanlegri. Fyrir utan skrækt snökkt
og nokkur orð sem hún er sögð hafa hermt eftir þegar hún var fyrst
flutt á spítalann þá var hún þögult barn sem ekki tjáði sig á neinn
hátt og fékk ekki ekka þegar hún grét. Þögn hennar var algjör jafnvel
þó að ofsafengnar tilfinningar gripu hana. Stundum fékk Jenný æðisköst,
full af ótta og reiði vegna togstreitunnar milli fyrri reynslu og
nýja umhverfisins. Hún barði og klóraði, spýtti, snýtti sér og néri
slíminu hamslaus um andlit sitt og hár. Hún reyndi stöðugt að rífa
sig til blóðs og meiða sig á annan hátt - í yfirþyrmandi þögn sinni.
Þar sem Jenný talaði ekki notaði hún handbæra hluti eða líkama sinn
til að tjá tilfinningar sínar með. Hún skók og hristi stóla, sneri
við húsgögnum, felldi eða kastaði hlutum, barði þeim saman eða stappaði
í gólfið. Þetta voru hljóðin sem Jenný gaf frá sér. Og loksins,
þegar hún var orðin örmagna, dró hún sig aftur inn í sitt þögula
og lokaða sjálf.
Hún talaði ekki heldur þegar hún var róleg.
Hún lærði aldrei að segja nema örfá orð.
Jenný hafði fleiri vana sem voru ekki vel séðir. Hún snýtti sér
á allt eða ekkert og klíndi sig alla út. Þegar hún var í uppnámi
pissaði hún stundum á óheppilegum stöðum - og lét félaga sína um
að hreinsa það. En það sem erfiðast var við að eiga, sérstaklega
á almannafæri, var að hún kunni ekki umgengnisreglurnar. Jenný hafði
mikið dálæti á vissum hlutum- sérstaklega öllu því sem var gert
úr plasti, sumum fæðutegundum eða flíkum og skrauti. Yrði einhver
á vegi hennar, hvort sem það var úti á götu eða inni í búð, sem
var í flík sem hún ásældist, gekk hún rakleiðis að viðkomandi persónu,
án þess að hlýða nokkrum reglum eða siðvenjum, og tók utan um það
sem hugurinn girntist. Það var nógu slæmt þegar hún rauk að innkaupavagni
einhvers og tók að tína upp úr honum vörur. En þegar hún ágirntist
flík einhvers, ríghélt í flíkina og neitaði að sleppa reyndi verulega
á þolrif vina hennar.
Jenný átti það einnig til, þó að hún gripi
ekki í fólk á svo vandræðalegan hátt, að ganga rakleitt upp að einhverjum
ókunnugum, stilla sér upp beint fyrir framan hann, stara í andlit
hans og benda á allt í eigu hans sem vakti áhuga hennar. Einnig
átti hún það til að ganga einfaldlega upp að ókunnugum og taka hann
undir arminn eða leggja handlegginn utan um hann tilbúin til að
halda af stað. Þótt svona framkoma sé skemmtileg og hlýleg í ýmsu
öðru samhengi, þá var hún oftast vandræðaleg þegar Jenný átti í
hlut.
Jenný fróaði sér í tíma og ótíma og þar var
sá þáttur í hátterni hennar sem annað fólk átti hvað erfiðast með
að sætta sig við. Þrátt fyrir aðvaranir vina hennar hélt
hún áfram að fróa sér eins oft og hún gat, hvar og hvenær sem var...
Margir hlutanna sem hún ásældist voru til að fróa sér með.
Heimild:
Ian Robertson. Félagsfræði II. Iðunn 1987, bls. 39-41
|