Eftir Gylfa Ásmundsson sálfræðing. Birt með
góðfúslegu leyfi Erlu Líndal.
Líkamleg og tæknileg þjálfun eru að sjálfsögðu
undirstaða þess að ná árangri í íþróttum og forsenda fyrir því að
geta náð ákveðnum hámarksárangri. Þegar á hólminn er komið í stórmóti
er þó ekki víst að sá hámarksárangur sjái dagsins ljós, eins og
sjá mátti hjá mörgum fremstu íþróttamönnunum á Ólympíuleikunum.
Margir færustu íþróttamenn heims voru langt frá sínu besta og sumir
komust ekki einu sinni í úrslit, þótt þeim væri spáð fremstu sætum.
Í stangarstökkskeppninni voru margar af bestu íþróttakonunum ákaflega
mistækar og felldu mun lægri hæðir en sem nam getu þeirra, þótt
sumum tækist að hampa verðlaunum að lokum. Margar ástæður geta verið
fyrir þessu, en líklega er andlegt ástand þeirra sú veigamesta,
einkum spenna og skortur á yfirvegun, sem truflar einbeitingu þeirra
og kemur í veg fyrir að þær nái því besta út úr sjálfum sér. Flestir
íþróttamenn hafa reynslu af þessu af og til og þó einkum í mikilvægustu
keppnunum.
Í stangarstökkskeppninni var einn keppandi,
sem skar sig úr hvað þetta snertir. Það var Vala Flosadóttir. Af
fádæma öryggi stökk hún yfir hverja hæðina á fætur annarri í fyrsta
stökki, þar til hún var komin langt fram úr sínum besta árangri.
Sjaldan hefur sést jafn glæsileg stökksería og hjá henni í þessari
keppni. Öllum, sem á horfðu, mátti vera ljóst að hún var í mjög
góðu andlegu jafnvægi og nýtt sína bestu persónueiginleika til þess
að ná því besta út úr sjálfri sér og meira til, árangri sem fæstir
hefðu búist við.
Eins og áður sagði getur spenna verið of mikil hjá þátttakanda í
keppni og verið truflandi. Spenna er hins vegar nauðsynleg að vissu
marki. Flestir þekkja spennu og kvíða fyrir próf, adrenalínið flæðir,
vöðvar spennast og próftakinn er í viðbragðsstöðu, einbeitingin
er í hámarki. Slíkt er nauðsynlegt hverjum keppnismanni svo fremi
að spennan verði ekki svo mikil að hún fari að hafa lamandi áhrif.
Hjá Völu mátti sjá þessa spennu og einbeitingu, en jafnframt yfirvegun,
sem gerði henni kleift að útfæra stökk sín af skynsemi.
Það mátti sjá á Völu í keppninni að hún
hefur gott sjálfstraust og hátt sjálfsmat, án þess að hún hafi tilhneigingu
til að ofmetnast. Eins og hún sagði sjálf eftir keppnina vildi hún
aðeins gera sitt besta og hafa gaman af að taka þátt, en hugsaði
minna um að vera betri en keppinautarnir. Hún gladdist þvert á móti
einlæglega yfir árangri þeirra. Glaðlyndi hennar sem birtist í brosmildi
og fögnuði yfir bæði eigin velgengni og hinna keppendanna sýndi
vel að hún er í sátt við sjálfa sig.
Síðast en ekki síst kann Vala að hvetja
sjálfa sig og efla sjálfstraust sitt þegar mest á ríður. Þegar spennan
fór vaxandi og kvíði fór að gera vart við sig fyrir keppnina segist
hún einfaldlega hafa sagt við sjálfa sig ,,Já, og það virkaði
vel. Þetta er ráð sem hefur reynst mörgum vel, þótt einfalt sé,
til að létta á spennu og skapa jákvætt hugarfar. Í upphafi hvers
stökks hvíslaði hún að sjálfri sér: ,,Vala, þú getur þetta.
Og hún gat það, þangað til þjálfun hennar og tækni leyfði ekki meira.
Vala er kona sem kann að ná því besta út úr sjálfri sér.
Gylfi Ásmundsson, sálfræðingur.
Mbl. 20. sept. 2000
|