Einkenni unglingsáranna
eru sveiflukennd tilfinningaviðbrögð og rót en jafnframt tákn um
leit að sterkari sjálfsímynd. Þegar þessu tímabili unglingsáranna
lýkur tekur oft nýr kafli við, en það er að finna sér lífsförunaut.
Fyrir flesta er ástin og það að tengjast annarri manneskju varanlegum
böndum heillandi tímabil. Flestum finnst ástin vera uppspretta lífsins
og gleðinnar. Ef þú hefur einhvern tíma orðið ástfangin(n) þekkirðu
þessa tilfinningu, en það er ekki auðvelt að lýsa henni beint með
orðum þótt ástinni hafi verið lýst á ótal vegu í ljóðum, tónlist
og tali. Páll Skúlason segir:
Þá fyrst höfum við raunverulega
ást þegar tvær manneskjur þrá hvor aðra og gefast hvor annarri,
þegar þær vita af sjálfri sér í hvor annarri, eignast hvor aðra
og eignast þar með nýja sjálfsvitund, nýja möguleika á að skapa
og byggja heiminn og skilja veruleikann.
Frægt
er ljóð Skáld-Rósu sem hún orti til Natans Ketilssonar, sem hún
elskaði út af lífinu:
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
-aldrei skal ég gleyma þér.
En hvernig tilfinning
er það að vera ástfanginn? Í bókinni Nútímafólk (1986) er þessu
lýst þannig:
Það kemur eitthvað yfir mann, eitthvað
ólýsanlegt og yfirþyrmandi, einhver innri óróleiki og uppnám. Síðan
er eins og allt annað dofni en allur kraftur beinist að þessari
einu manneskju - að fá nálægð við hana.
Ástarsamband getur líka orðið til úr vináttu. Traust
og vinátta breytist smám saman, verður dýpri og nánari.
Við vorum góðir kunningjar, kom vel saman
og hlógum mikið. Allt í einu fann ég að ég fékk í magann þegar ég
sá hann og hann horfði öðruvísi á mig en áður. Ég gat varla beðið
eftir að hitta hann næst - skyldi eitthvað gerast?
Ástin er falleg tilfinning og getur vissulega
verið grunnur til að byggja
hina eilífu sælu hjónabandsinsá. Hér á eftir
verður sagt frá einni kenningu þar sem því er haldið fram að ástin
þjóni tilgangi fyrir kjarnafjölskylduna (Goode, 1959).
- Ástin auðveldar
unga parinu að slíta böndin við fjölskylduna og stofna
til nýrrar kjarnafjölskyldu annars staðar. Hrifning makanna auðveldar
þeim að stofna nýju fjölskylduna, óháða ættingjunum.
- Ástin veitir parinu
tilfinningalegan stuðning á því vandasama og erfiða tímabili lífs
þeirra þegar þau eru að stofna eigið heimili. Sá stuðningur er
ekki eins þýðingarmikill í stórfjölskyldunni þar sem ættingjarnir
styðja hver annan í slíkum vanda.
- Ástin er nokkurs
konar agn fyrir hjónabandið. Í nútímanum getur fólk valið hvort
það gengur í hjónaband eða ekki. Ekki er víst að öllum finnist
ævilangur samningur við aðra mannveru vera eftirsóknarverður -
margir eru þeirrar skoðunar að hjónaband sé fjötrum líkt.
Ástföngnu fólki finnst
ástin vera það yndislegasta sem til er. Rannsóknir félagsvísindamanna
hafa hins vegar sýnt að hún er hluti af menningunni. Ef þú lifðir
á öðrum tímum eða í öðru samfélagi yrðir þú kannski aldrei ástfangin(n)
og hugsaðir því lítið á þeim nótum.
|