Verkefni:
Hver er ég:
Verkefni
Ég og hinir:
Verkefni
Fjölskyldan:
Verkefni

Ítarefni:
Að ná því besta
Áhrif fjölskyldunnar
Engir vinir
Hlutverkaspenna
Hópþrýstingur
Hversvegna ástin?
Sagan um Jenný
Kjarnafjölskyldan
Persónuleikinn
Skilnaðir

Krækjur

 

  Sjálfsmyndin Réttindi og skyldur Hverjir ráða? Samastaður ... Upplýsingasamfélagið
..Sjálfsmyndin
  Engir vinir
 

Öll unglingsár Helenar höfðu foreldrar hennar áhyggjur vegna þess að hún virtist ekki eiga neina nána vini. Áhugamál skólafélaganna - poppmúsík og partý - höfðuðu ekki til hennar. Hún var horuð og rengluleg og ekki ýtti það undir vinsældir hennar. Hún var þar að auki námshestur og fór ekki dult með það. Jafnvel í háskóla átti hún ekki samleið með skólafélögum sínum. Síðar fékk hún þó bæði áhugavert og krefjandi starf og komst í kynni við fólk, nokkuð eldra, sem kunni vel að meta gáfur hennar og hún átti auðvelt með að umgangast.

Unglingar eiga ekki allir auðvelt með að eignast vini, en fáir kjósa þó að fara „einförum“, það er að segja eru sjálfum sér alveg nógir og kæra sig hvorki um né þarfnast vináttu eða félagsskapar annarra. Flestu fólki finnst ömurlegt að eiga enga vini.

Feimni getur komið í veg fyrir að sum börn eignist vini en önnur eins og Helen, skera sig þó úr hópnum. Unglingar eru oft miskunnarlausir hver í annars garð, það að vera þögul(l) og hversdaglegur, gáfaður eða klunnalegur getur nægt til að vera ekki gjaldgengur í jafningjahópi. Sá sem er sniðgenginn kýs oft að draga sig í hlé, enda vandséð hvaða möguleikar eru til að bæta stöðuna þegar svo er komið.

Það er ágætt að hafa í huga að velgengni og vinsældir í skóla segja afar lítið um hvað framtíðin ber í skauti sér. Sumu fólki gengur illa að vera unglingur en ágætlega að vera fullorðið.

Dæmi eru um að unglingar geti ekki vingast við aðra. Ástæðan getur verið að fjölskyldan leiti lítið félagsskapar út fyrir eigin raðir. Börn læra samskipti við ókunnuga og hvernig eignast á vini að minnsta kosti að hluta til af foreldrum sínum. Börn eiga því erfiðara með að eignast vini ef þau alast upp á heimilum þar sem gestir virðast óvelkomnir og vinir láta sjaldan sjá sig og heyra.

Stundum má þó rekja vinaleysi til persónugerðar barnsins. Feimin börn bregða oft fyrir sig óvingjarnleika til að halda öðrum í hæfilegri fjarlægð. Ekki er hægt að neyða fólk til vináttu, en einmana unglingar geta reynt að bæta félagslega stöðu sína með því að grafast fyrir um ástæður vinaleysisins.