SJÁLFBÆRNI
6
Sjálfbær þróun
1
Skötutjörn
Norðan bæjarins á Þingvöllum er lítil tjörn, Skötutjörn. Gjá fer um tjörnina þvera,
Skötugjá. Sumir telja að tjörnin hafi fengið nafn sitt af lögun sinni sem minnir á
skötu með langan hala. Einnig er sögð eftirfarandi saga um nafn tjarnarinnar.
Fyrrum hagaði svo til á Þingvöllum að bærinn var byggður yfir gjána. Opið var
ofan í gjána úr eldhúsi en hlemmur yfir gatinu. Gátu menn þar dýft færi í gjána
og kom þá jafnan vænn silungur á öngulinn. Sú regla gilti um veiðar þessar að
aldrei mátti veiða meira en til næsta máls. Oft hafði veiðin úr gjánni bjargað
heimilisfólkinu á Þingvöllum þegar hart var í ári og lítið til að skammta í askana.
Jafnan var gætt hófs við veiðarnar og kynslóð eftir kynslóð naut silungsins.
Svo var það að nýr prestur kom á Þingvelli. Þegar hann kynntist eiginleikum
gjárinnar settist hann við veiðar í eldhúsi sínu. Jafnóðum og hann dýfði öngli
í vatnið var bitið á og prestur veiddi hvern silunginn á fætur öðrum. Hélt hann
stöðugt áfram og veiðin safnaðist upp í hrúgur umhverfis hann. Heimilisfólk varð
áhyggjufullt og reyndi hvað það gat að stöðva prestinn en hann lét ekki segjast.
Ágirndin hafði náð tökum á honum. Hann hafði ekki fyrr tekið fisk af öngli en
hann henti færinu aftur í vatnið í gjánni og alltaf var strax bitið á. En svo fór
að það gerðist ekki og langur tími leið án þess að líf virtist vera í gjánni. Kona
prestsins benti honum ásakandi á að nú hefði hann veitt upp fiskinn í gjánni. Ekki
vildi hann hlusta á það. Svo loks var kippt fast í færið. Prestur fagnaði. Marga
hafði hann fagra og væna fiskana dregið upp úr gjánni en þessi hlyti að verða
þeirra mestur. Hann halaði færið inn af miklum krafti. En þegar hann sá hvað var
á hinum enda þess varð hann skelfingu lostinn. Hann fleygði færinu frá sér ofan í
gjána og flýtti sér að skella hlemminum yfir gatið. Fólk sem þetta sá sagði sumt
að ógeðslegt skrímsli hefði verið á færinu. Hefði það líkst grimmri skötu með
sjö eða níu hala. Aðrir töldu að þarna hefði verið skrattinn sjálfur með haus og
hala. Ekki fékkst úr þessu skorið en hitt er víst að eftir þetta veiddist aldrei neitt
í Skötutjörn eða Skötugjá. Þegar hallæri var í landi og hungurvofan fór bæ frá
bæ kom hún við á Þingvöllum sem á öðrum bæjum. Þá var ekkert þar til bjargar
frekar en annars staðar.
1
1,2,3,4,5,6,7 9,10,11,12,13,14,15,16,17,18,...68