Previous Page  62 / 132 Next Page
Information
Show Menu
Previous Page 62 / 132 Next Page
Page Background

ORÐSPOR

2

60

2015 Vetrarfrí

Í þessari hrollvekjandi bók eftir Hildi Knútsdóttur kynnumst við Bergljótu

sem er ósköp venjulegur unglingur á leið í vetrarfrí. Hún neyðist til að fara

með föður sínum og bróður í sumarbústað á Snæfellsnesi en sú ferð styttist í

annan endann þegar furðuleg plága brýst út. Rafmagnið fer, fólk lætur lífið á

undarlegan hátt og hryllileg geimveruskrímsli eru á sveimi. Fjölskyldan þarf

að flýja til að bjarga lífi sínu. En hvert er hægt að fara?

Bergljót opnaði augun, dró djúpt andann og leit í kringum sig. Ekkert hafði

gerst. Ekkert skrímsli hafði komið stökkvandi inn í máttlausa geisla bílljósanna

sem rétt höfðu rifað djúpt myrkrið í göngunum. Ekkert hafði leynst í neinum

skotum, handan við neinar bugður eða beygjur. Hún varpaði öndinni léttar,

þar til hún áttaði sig á útsýninu.

„Hvar er Reykjavík?“

Pabbi hennar gat ekki falið óttann í röddinni, þótt hún heyrði að hann

reyndi það.

„Hún á að vera þarna,“ sagði hann og benti.

Bergljót rýndi út í húmið og kom svo auga á þá. Fyrst á einn turn, svo á

annan. Hallgrímskirkja og Höfðatorg.

„En hvar eru ljósin?“ spurði hún. „Af hverju eru öll ljósin slökkt?“

Þórbergur svaraði ekki, heldur teygði fram höndina og kveikti á útvarpinu.

Það fór aftur að leita en fann ekkert nema suð. Hann leit í baksýnisspegilinn

og síðan aftur fram á veginn.

Bergljót sneri sér aftur. Litli bróðir hennar sat stóreygur í aftursætinu og

starði út um gluggann í átt að Reykjavík.

„Þetta er allt í lagi, Bragi,“ sagði Þórbergur. „Rafmagnið hefur bara farið.

Það kemur oft fyrir.“ Bragi sagði ekkert en Bergljót sá að hann kinkaði kolli.

Pabbi þeirra var að ljúga. Auðvitað fór rafmagnið oft. En aldrei af allri borg-

inni í einu, og alla leið upp í Kjós. Eina sjáanlega birtan voru síðustu geislar

sólarinnar og dauf bílljósin á veginum fyrir framan þau.

Vetrarfrí fékk Fjöruverðlaunin árið 2016 og var auk

þess tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.