105
Hvað á landið að heita?
Flestir fá nafn stuttu eftir fæðingu og
halda því nafni út ævina. En lönd eiga
það til að breyta um nöfn. Ísland hefur
til dæmis ekki alltaf heitið Ísland.
Víkingur sem hét Naddoddur kom
til Íslands um miðja 9. öld.
Þegar hann yfirgaf landið um haustið
féll mikill snjór á fjöll. Því nefndi hann
landið Snæland.
Snær þýðir snjór.
Finnið fleiri orð sem
þýða snjór. Hvað getið
þið fundið mörg?
Finnið eða búið
til fleiri nöfn
fyrir Ísland.
Á eftir Naddoddi kom sænskur maður til landsins og hann vildi að
landið okkar héti Garðarshólmi. Það nafn var ekki alveg út í loftið því
maðurinn hét Garðar Svavarsson og vildi nefna landið eftir sjálfum sér.
Fréttir um eyju í norðri bárust til Noregs og maður sem hét Flóki
Vilgerðarson ákvað að finna þessa eyju. Hann var kallaður Hrafna-
Flóki því hann átti þrjá hrafna sem hjálpuðu honum að rata til landsins.
Sagan segir að hann hafi sent þá, einn af öðrum, af stað í leit að landi.
Sá fyrsti flaug til baka til Noregs, næsti settist bara niður á skipið en sá
þriðji flaug áfram og í átt að landinu okkar. Þegar Flóki hafði dvalið
einn vetur á eyjunni gekk hann upp á fjall og horfði yfir fjörð sem var
fullur af hafís. Þá ákvað hann að nefna landið Ísland.
Í dag kallar fólk landið ýmsum nöfnum, hálfgerðum gælunöfnum.
Sem dæmi má nefna nöfn eins og Hrímgrund, Frón, skerið og klakinn.
Hvernig hljómaði
nafn landsins ef þú
hefðir nefnt það
eftir þér?
Komu engar
konur til Íslands í leit
að landi fyrir sig og sína?
Ég, víkingakvendið
Grínhildur, nefni þessa eyju
GRÍNHILDARHÓLMA!