Íslam / Siðir / Fæðingar- og nafngjafasiðir
 
Algengt er að múslimar fari með trúarjátninguna við fæðingu barns síns svo hún sé það fyrsta sem barnið heyrir. Trúarjátningin er ein af stoðunum fimm sem eru skylda hvers múslima. Þegar múslimar fara með trúarjátninguna segja þeir: „Það er enginn guð nema Allah, Múhameð er sendiboði hans.“
Til að fagna fæðingu barns gefa íslamskir foreldrar yfirleitt peninga til fátækra. Múslimar gefa fátækum oftast mat, annaðhvort með því að bjóða þeim til veislu eða með því að senda þeim mat. Múslimar af erlendum ættum á Íslandi senda oft peninga til fjölskyldu sinnar erlendis sem kemur þeim til fátækra. Einnig er algengt að peningar séu gefnir til góðgerðamála.
Drengir eru umskornir á fyrstu dögum eftir fæðingu. Hér á Íslandi er umskurður framkvæmdur af barnalækni.